Úthlutun í fyrsta sinn
Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögunum. Úthlutað var 11 milljónum króna samtals til 16 verkefna.
Reykhólahreppur er þátttakandi í verkefninu Brothættar byggðir með áherslu á samfélagslega þróun í gegnum verkefnið Fjársjóður fjalla og fjarða.
Um mánaðamótin fór fyrsta úthlutunarathöfnin á vegum Frumkvæðissjóðs Fjársjóðs fjalla og fjarða fram í Handverksmarkaði Össu í Króksfjarðarnesi. Mæting var mjög góð að sögn forsvarsmanna og ríkti frábær stemning, gleði og mikill frumkvöðlakraftur. Alls barst 21 umsókn til nýsköpunarverkefna, þar sem sótt var um 59.794.374 krónur, og heildarkostnaður verkefnanna nemur 159.713.637 krónum.
Að þessu sinni hlutu 16 verkefni styrk, samtals 11 milljónir króna. Hæstu styrkina fengu UMF Afturelding, 1.250.000 kr., Laugavík hf. – Þaraböðin í Breiðafirði – Reykhólum, kr. 1.280.000 kr. og Ferðaþjónustan Djúpadal og Úr sveitinni ehf. hlutu eina milljón hvort fyrirtæki.
Verkefnið Fjársjóður fjalla og fjarða er unnið í samstarfi við Reykhólahrepp, Vestfjarðastofu og Byggðastofnun, með það að markmiði að styðja við sjálfbæra uppbyggingu, virka þátttöku íbúa og framtíðarsýn íbúa sem birt er í sérstakri verkefnisáætlun.
