Upplýsingaóreiða í næringarmálum
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna hefur verið stórorður um matvælaiðnaðinn í Bandaríkjunum, óhollan skyndibita, skaðsemi fræolíu og kosti þess að drekka ógerilsneydda mjólk. Prófessor í næringarfræði telur að almenningur þurfi að taka slíkum yfirlýsingum með fyrirvara.
Halldórsson.
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Robert F. Kennedy Jr., hefur áhyggjur af notkun fræolía til steikingar og lýsti því yfir á samfélagsmiðlinum X að fræolíur hefðu eitrað fyrir Bandaríkjamönnum. Hann gagnrýndi að skyndibitastaðir eins og MacDonalds hafi seint á síðustu öld hætt notkun nautatólgs til steikingar og skipt yfir í fræolíur. Þetta er að hans mati einn helsti áhrifaþátturinn í offituvanda Bandaríkjamanna. Hann hvatti til þess að veitingastaðir sneru við þessari þróun og það hafa ýmsir veitingastaðir nú þegar gert í Bandaríkjunum, þar má nefna veitingastaðinn Steak´n Shake sem djúpsteikir nú franskar úr nautatólg.
Eru fræolíur hættulegar?
„Ég held þetta komi til vegna þess að fræolíur eru ódýrari heldur en aðrar olíur. Fiskolíur eru dýrar, ólífuolía er dýr og það þýðir að fræolíur eru í öllum draslmat,“ segir Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði, en segir að þrátt fyrir það séu þessar olíur sem slíkar ekki óhollar heldur sé það draslmaturinn sjálfur, skyndibiti og ýmsar aðrar óhollar vörur. Hann mælir ekki með því að nota frekar nautatólg til steikingar eins og heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna gerir. „Við notuðum mikið af mettaðri fitu fram til 1980 og það kom ekkert vel út fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.“
Sýkingarhætta af ógerilsneyddri mjólk
Robert F. Kennedy Jr. hefur gagnrýnt gjörunnin matvæli í Bandaríkjunum sem og notkun litarefna í matvælum. Einnig hefur Kennedy Jr. bent á ágæti þess að drekka ógerilsneydda mjólk. Hvað varðar mjólkina telur Þórhallur það ekki æskilegt í stórum stíl. „Þá eru meiri líkur á sýkingum. Af hverju gerilsneyðum við mjólk? Út af því að það voru vandamál tengd því að vera með ógerilsneydda mjólk. Það eru hugsanlega veik vísindaleg rök fyrir því að ef þú ert útsett fyrir einhverjum bakteríum í ógerilsneyddri mjólk, í mjög litlu magni, þá getur það verið gott fyrir ónæmiskerfið. En gerilsneydd mjólk gerir manni ekkert slæmt. Það er heldur kannski ekkert slæmt að drekka ógerilsneydda mjólk ef allt ferlið, prófunin og eftirfylgnin er í lagi. En ef öll fyrirtæki færu að setja á markað ógerilsneydda mjólk þá eru ákveðnar líkur á því að það kæmu upp veikindi, jafnvel alvarleg, tengd bakteríum í mjólkinni. Er þetta áhætta sem til dæmis barnshafandi konur eru til í að taka?“ segir Þórhallur. Hann bendir á að það sé varasamt að gleypa við öllu sem Kennedy Jr. segir. „Það eru jákvæðir hlutir sem hann bendir á og svo algjörlega sturlaðir hlutir sem hann segir líka. Þetta er svolítið eins og með Internetið eða gervigreind, þú verður að skilja og taka afstöðu til þess sem er verið að segja.“
Fylgni en ekki orsakasamband
Víða birtast greinar um rannsóknir sem lýsa því yfir að ákveðin matvæli séu hættuleg. Mikilvægt er að átta sig á því að oft getur verið fylgni milli hluta án þess að um raunverulegt orsakasamband sé að ræða. „Í fyrra kom grein um að fólk sem tæki lýsi væri með hærri dánartíðni. Það er mjög líklegt að þeir sem eru með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma fari að taka lýsi. Þá hefur það ekkert með lýsið að gera hvort þeir deyi fyrr, það er af því að þeir voru með undirliggjandi sjúkdóm. Á hinn bóginn gefur þessi rannsókn vísbendingar um að lýsið sé ekki að gera neitt gagn fyrir þennan hóp. Orsakasamhengið liggur kannski frekar þar,“ segir Þórhallur.
Þórhalli finnst upplýsingaóreiðan ekki vera meiri í næringarfræði en öðru. Það sé þó gott að taka upplýsingum með fyrirvara. „Þetta snýst meira um að slaka á, held ég. Skilja betur raunverulega hagsmuni. Varðandi framleiðslu, varðandi sölu, fyrirtæki og annað. Meðal annars þetta auglýsingatengda,“ segir hann. Fólk þurfi að taka fyrirsögnum um hinar og þessar rannsóknir með fyrirvara og það þurfi margar rannsóknir til þess að gefa sterka vísbendingu um orsakasamband matvöru og heilsufarsþátta. „Mér finnst að fólk eigi ekki að hlaupa upp til handa og fóta út af umfjöllun um eina rannsókn,“ segir Þórhallur að lokum.
