Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Uppgræðsla Arnórsstaða
Á faglegum nótum 16. febrúar 2023

Uppgræðsla Arnórsstaða

Höfundur: Hrafnkatla Eiríksdóttir, héraðsfulltrúi á Norðurlandi.

Í lok síðasta árs lauk þriggja ára uppgræðsluverkefni í samstarfi Landgræðslunnar og Alcoa í landi Arnórsstaða við Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði.

Eftir 10 ára uppgræðslustarf á svæðinu var enn mikið rof og jarðvegseyðing vegna rofabarða sem illa gekk að loka og var jarðvegseyðingin stöðugt að ganga lengra inn í gróðurlendi og eyða upp algrónum svæðum. Því var ráðist í átaksverkefni, sem styrkt var af Alcoa Foundation, til að stöðva rof á svæðinu. Var aðgerðaráætlunin þríþætt: rofabörð voru felld niður með beltagröfu, þakning með heyrúllum í rofabörð og sár og tilbúinn áburður, ásamt grasfræi, var notaður til uppgræðslu á börðin sjálf og nærliggjandi svæði.

Kortlagning

Í upphafi verkefnisins var svæðið kortlagt með tilliti til gróðurfars, jarðvegsrofs og annarra yfirborðsþátta. Slík kortlagning við upphaf uppgræðsluaðgerða hjálpar til við mat á árangri uppgræðsluaðgerða og fram- vindu svæðis.

Af þeim tæplega 75 ha sem voru kortlagðir reyndust tæplega 30% svæðisins vera ógróin eða með litla gróðurþekju en 45% svæðisins flokkuðust sem vel eða algróin svæði, sem áttu undir högg að sækja vegna rofs og jarðvegseyðingar. Talsvert, mikið og mjög mikið rof var skráð á ríflega helmingi svæðisins en rofið var verst í jöðrum rofabarðanna. Þar var einnig mest af lausum sandi, en hann gefur okkur vísbendingu um hversu stöðugt yfirborðið er, en óstöðuleiki í yfirborði og mikið af lausum fokefnum gerir landnámi gróðurs erfitt um vik. Útfrá þessum upplýsingum var svæðinu svo skipt niður í vinnusvæði sem höfðu mismunandi forgang, þar sem virkustu og hæstu rofabörðin sem voru með mestan lausan sand í kring höfðu mestan forgang.

Vinnan

Unnið var á rúmlega 70 ha svæði yfir árin þrjú. Alls var dreift 48 tonnum af áburði á þessa 70 ha og 400 kg af grasfræi var dreift með. Almennt var notast við stóra áburðarskammta miðað við landgræðsluverkefni eða um 300 kg/ha af tvígildum NP áburði. Í þeim tilvikum þar sem verið er að loka virkum rofabörðum þarf oft stærri inngrip ef vinna á verkið á stuttum tíma. Þá var unnið á tæplega 5,5 kílómetrum af rofabörðum á samstarfstímanum. Þau stærstu og virkustu voru felld niður og fengu áburðargjöf, fræ og/ eða heyrúllum dreift í sárin á meðan rofabörð sem voru að lokast fengu heyþakningu og/eða áburðargjöf og fræ. Sum börðin fengu aftur heyþakningu að ári liðnu, taldist það nauðsynlegt. Heyrúllum var einnig dreift yfir svæði á milli rofabarða til að reyna að stöðva áfok og auka stöðuleika á yfirborðinu, en samtals voru notaðar 870 heyrúllur í verkefnið.

Árangur

Stefnt er að endurkortlagningu á svæðinu þegar aðgerðum er að fullu lokið. Á næstu árum verður svæðið undir eftirliti svo hægt sé að grípa inn í ef gróðurþekja fer að gefa eftir eða rofabörð fara að opnast að nýju.

Líklegt er að halda þurfi við uppgræðslum á svæðinu á komandi árum með notkun tilbúins áburðar þrátt fyrir að samstarfsverkefninu sé lokið. Með því að loka 5,5 kílómetrum af háum rofabörðum er komið í veg fyrir tap á gróðurþekju og miklu magni af jarðvegi. Þá geta þessi vistkerfi sem er bjargað þjónað sem fræuppsprettur fyrir frekari framvindu á svæðinu.

Samanburður á rofabarði við upphaf aðgerða 2020 og eftir fellingu og heyþakningu 2022. Mynd / Landgræðslan

Skylt efni: Landgræðsla

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f