Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Frá afhendingu Sleipnisbikars á Landsmóti hestamanna 2018.
Frá afhendingu Sleipnisbikars á Landsmóti hestamanna 2018.
Mynd / ghp
Fréttir 9. mars 2022

Uppfært kynbótamat í WorldFeng

Höfundur: Elsa Albertsdóttir

Kynbótamat hrossa (BLUP) er eitt af þeim verkfærum sem hrossaræktendur hafa aðgang að við val á hrossum til undaneldis. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta verkfæri sem dregur saman allar tiltækar tölulegar upplýsingar frá kynbótadómum allra hrossa í stofninum í heildarniðurstöðu um gildi hrossa til framræktunar. Gildið ræðst af röðun hrossa út frá því hversu mikils er að vænta að þau geti lagt af mörkum í ræktunarstarfinu. Skalinn miðar við 100 sem meðalgildi og eitt staðalfrávik er 10 stig, en hrossastofninn allur dreifist um 6 staðalfrávik eða frá u.þ.b 70 til 130, með einungis örfá hross utan þeirrar spannar. Almennt er ekki ráðlegt að nota hross til undaneldis sem eru undir 100 í aðaleinkunn kynbótamats, þar sem þeirra framlag er líklegt til að vera í neikvæða átt, miðað við opinbert ræktunarmarkmið íslenska hestsins. Í þessu samhengi er þó afar mikilvægt að hafa öryggi kynbótamatsins til hliðsjónar, enda er það misjafnt frá hesti til hests. Því meiri upplýsingar sem eru tiltækar um foreldra, afkvæmi og ættingja, því öruggara er matið. Þegar öryggi kynbótamats er undir 60% ber að taka þeirri spá með fyrirvara.

Útreikningar á kynbótamati fyrir íslensk hross eru framkvæmdir fyrir öll skráð hross í WorldFeng, óháð fæðingar- eða staðsetningarlandi, sem er einsdæmi í hestaheiminum. Það eru Bændasamtök Íslands sem eru ábyrgðaraðili útreikninganna og þróunar á aðferðinni. Í dag heldur dr. Elsa Albertsdóttir, ræktunarleiðtogi íslenska hestsins á Íslandi, utanum útreikninga og þróun kynbótamatsins, með styrkum stuðningi dr. Þorvaldar Árnasonar sem hefur verið leiðandi í innleiðingu og þróun kynbótamats hrossa frá upphafi (bæði fyrir íslenska hestinn og jafnframt fjölda erlendra hestakynja). Megintilgangur kynbótamatsins er að grunninum til að raða hrossunum upp og með því að reikna alþjóðlegt kynbótamat gefst færi á að bera saman hross jafnt innan sem og á milli landa. Þetta var fyrst mögulegt árið 2004 eftir margra ára undirbúningsvinnu en mikilvægustu skrefin voru vitaskuld að öll lönd skráðu hrossin í sama gagnagrunninn (WorldFengur) og að hross í öllum löndum væru dæmd eftir sama kerfi (FEIF).

Leiðréttingar fyrir umhverfisáhrifum

BLUP aðferðin sem notuð er til að spá fyrir um kynbótagildi er gríðarlega viðfangsmikil og öflug aðferð. BLUP gildin endurspegla erfðafræðilega getu hestanna, í samanburði við öll önnur hross innan stofnsins. Þetta innifelur jafnframt að tekið er tillit til kerfisbundinna umhverfisþátta sem hafa áhrif á framistöðu gripanna. Með því að leiðrétta fyrir þessum umhverfisþáttum eru dómarnir gerðir samanburðarhæfir milli einstaklinga innan stofnsins. Aldur og kyn einstaklingsins hefur áhrif á frammistöðuna; stóðhestar eru kerfisbundið fyrri til en hryssur og hrossin verða kerfisbundið betri með auknum aldri. Þar sem dómstörfin þróast ár frá ári og samanburðarhópurinn verður sífellt betri, verður jafnframt til kerfisbundinn munur á niðurstöðum milli ára. Fjórði kerfisbundni umhverfisþátturinn sem tekið hefur verið tillit til við útreikninga kynbótamats er sýningarlandið. Þegar öll lönd fóru að nota sama dómkerfið kom í ljós að um kerfisbundinn mun var að ræða í niðurstöðum dóma. Vallaraðstæður voru breytilegar milli landa, verklag á sýningunum var ekki staðlað milli landa og flæði dómara milli landa var af skornum skammti. Þessir þættir eru meðal annars ástæður þess að kerfisbundinn munur skapaðist milli sýningarlanda, sem þurfti að leiðrétta fyrir við útreikninga kynbótamatsins.

Leiðrétting fyrir landi tekin út

Af ýmsum ástæðum er þó ekki lengur þörf á að meðhöndla sýningarlandið sem kerfisbundinn umhverfisþátt og nýtt kynbótamat mun verða birt í WorldFeng innan skamms þar sem allir dómar eru meðhöndlaðir á sama hátt, óháð sýningarlandi. Leiðréttingar fyrir sýningarári, kyni og aldri eru þó ennþá inni eins og vera ber.

Með leiðréttingu fastra hrifa (kyns, aldurs, sýningarlands og -árs) í útreikningum kynbótamats eru dómar gerðir samanburðarhæfir, t.d. hvað sýningarland varðar voru dómar landa leiðréttir með aðhvarfi að meðaltali dóma í hverju landi. Með nokkurri einföldun má segja að leiðréttingin hafi farið eftir því hversu langt frá landsmeðaltalinu dómur hvers einstaklings lá. Þegar landsleiðréttingin er tekin út má því reikna með að hross sem hafa verið sýnd í löndum þar sem meðaltal var hlutfallslega lægra, muni lækka eitthvað, enda voru þau áður leiðrétt upp á við. Þegar einhver hross fara niður í röðun, þýðir það jafnframt að önnur hross raðast hærra og hljóta fyrir vikið hærra kynbótamat en áður. Breytingar á kynbótamati einstakra hrossa verða að öllum líkum mestar hjá stóðhestum sem eiga mörg afkvæmi dæmd í sama landinu, þar sem einhverjir stóðhestar voru líklega ofmetnir í núverandi kynbótamati í alþjóðlegum samanburði, og aðrir að sama skapi vanmetnir. Þegar á heildina er litið má reikna með að ekki verði veruleg breyting á röðun hrossa sem sýnd eru í sama landi, en reikna má með að nokkrar breytingar geti orðið á alþjóðlegri röðun.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f