Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Hrísgrjónasteik sem auðvitað má gera úr fersku hráefni en hentar bara svo einstaklega vel sem afgangahjálp.
Hrísgrjónasteik sem auðvitað má gera úr fersku hráefni en hentar bara svo einstaklega vel sem afgangahjálp.
Mynd / Hari
Líf og starf 12. febrúar 2025

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra

Höfundur: Hafliði Jónasson

Hvað á að gera við alla litlu afgangana? Þessa sem duga varla upp í nös á ketti en við sem þjóðfélag viljum ekki henda fyrr en í fyrsta lagi á fimmta degi. Svarið er hrísgrjónahræra innspíruð frá austfjörðum fjær.

Til að steikja hrísgrjón í pönnu þurfa grjónin að hafa þroskast í kæliskáp í að minnsta kosti nokkra klukkutíma, helst yfir nótt. Nýsoðin hrísgrjón taka ekki steikingu. Auk þess sem internetið segir að grjón verði beinlínis hollari eftir að hafa kólnað.

Brokkólí, blómkál, sellerí, gulrætur og hvítkál smellpassar allt í bland við lauk og hvítlauk. Vorlaukur er svo alveg sérstaklega fansí ef hann er til.

Hvað próteinið varðar er nánast allur afgangur gjaldgengur. Nautakjöt, kjúklingur, smá svínakjöt eða rækjur – mögulega fiskur ef unglingarnir eru ekki sérlega matvandir. Það þarf heldur ekki að vera mikið eftir því eggjahræru verður bætt út í. Þannig verður rétturinn alger próteinbomba.

Sósa og panna

Sósan sem bindur réttinn saman er norræn útgáfa af asísk-ættaðri
sósu. Flestir eiga sojasjósu aftarlega í skúffu eða skáp. Nú eða einhverja af hinum asísku brúnu umami-sósunum. T.d. ostrusósu, hoisin eða teryaki. Hægt að nota í sitt hvoru lagi eða prófa að blanda saman. Hin enska worcestershire-sósa, jafnvel HP steikarsósa eru líka brúklegar. Sérstaklega til að blanda við hinar asísku. Trixið er svo að brúka móðursósu allra móðursósa til að binda saman jukkið, tómatsósuna. Já, og smá bús. Léttvínssletta eða sætvín eins og púrtari eða sérrítár setur svo lokahnykkinn á sósuna.

Hræran að þessu sinni byggðist á því að kvöldið áður var píta með þurrsteiktu hakki í matinn. Afgangurinn af kjötinu fyllti ekkiínösákettienfórþóí Tupperweredunk í kæliskápinn. Tveir pokar af grjónum voru soðnir í hádeginu daginn eftir og settir í kæli. Um kvöldið fannst gulrót, nokkrar ræmur af hvítkáli, hálfur laukur, tvö hvítlauksrif og einn haus af brokkólíi í skúffunni. Grænmetið var skorið niður í hæfilega stóra bita og svo steikt í wok-pönnu.

Það er hægt að nota hvaða pönnu sem er eða bara stóran þykkan pott þótt wok-panna sé sennilega besta tólið til verksins. Gott að eiga norrænu útgáfuna, þessa með teflonhúð og loki. Mjög hentug til að poppa í – en það er önnur saga.

Steikjum lauk!

Byrja á að steikja laukinn við ekki of mikinn hita í bragðlítilli matarolíu. Þegar laukurinn er byrjaður að mýkjast má hækka smá og bæta öllu öðru grænmeti hússins út í nema hvítlauknum. Viljum ekki að hann brenni. Þegar örlítill litur er kominn á jukkið fer próteinið í pottinn. Þá fer sirka 2/3 hluti grjónanna út í, allt í lagi að skvetta smá olíu með þeim ef þurfa þykir. Steikja þangað til örlítill hnetukeimur stígur upp af grjónunum. Þá fer hvítlaukurinn út í og nýnorræna asíska sósan skömmu síðar. Atvinnufólk að austan hellir henni í pönnukantinn til að karmelísera hana örlítð þegar hún blandast saman við restina. Steikja í stutta stund og þannig að allt blandist vel saman við. Sósurnar eru flestar mjög saltar þannig að það þarf lítið salt. Sennilega bara ekki neitt.

Hella herlegheitunum í stóra skál og þurrka helstu leifar úr pönnunni og setja smá olíu eða smjör í hana. Jafnvel örlítið af hvoru tveggja. Hræra saman egg í skál og steikja ásamt restinni af grjónunum. Hræra þar til eggin hafa tekið sig og grjónin hitnað í gegn. Blanda þessari blöndu saman við blönduna í skálinni. Bera fram og taka við hrósi frá unglingastóðinu.

Pítuafgangahrísgrjónasteikarhræra

250 g hrísgrjón (2 pokar)
200 grömm nautahakk
2 egg
1 brokkolítré
2/3 laukur
1 gulrót
2 hvítkálsblöð
2 hvítlauksgeirar

Sósa

1⁄2 dl tómatsósa
2 msk. soyasósa
1 tsk. Worchester-sósa
1 skot púrtvín
1 skvetta eldpiparsósa

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f