Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Á COP29 náðist umdeilt samkomulag um að vel stæðar þjóðir veiti fátækari ríkjum aukið fjárframlag í formi styrkja og lána til að styðja þau í baráttunni við loftslagsvána og hjálpa þeim að aðlagast æ öfgakenndara veðurfari.
Á COP29 náðist umdeilt samkomulag um að vel stæðar þjóðir veiti fátækari ríkjum aukið fjárframlag í formi styrkja og lána til að styðja þau í baráttunni við loftslagsvána og hjálpa þeim að aðlagast æ öfgakenndara veðurfari.
Mynd / Rafael Urdaneta Rojas-Pixabay
Fréttir 10. desember 2024

Umdeildur samningur þykir heldur klénn

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

COP29-loftslagsráðstefnunni í Bakú í nóvember lauk eftir tveggja vikna samningaþóf um 200 ríkja.

Niðurstaðan var umdeilt samkomulag um að vel stæðar þjóðir veiti fátækari ríkjum aukið fjárframlag í formi styrkja og lána sem nemi að minnsta kosti 300 milljörðum dollara árlega, til að styðja þau í baráttunni við loftslagsvána og hjálpa þeim að aðlagast æ öfgakenndara veðurfari. Er það jafnvirði rúmlega fjörutíu billjóna íslenskra króna og hækkun um hundrað milljarða dala frá áður gildandi samkomulagi um fjárframlag.

Fulltrúar á þessari 29. ráðstefnu aðila að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), samþykktu þannig að veita þetta fjármagn árlega, með því heildarmarkmiði í fjármögnun í loftslagsmálum að verja til fátækari ríkja að minnsta kosti 1,3 billjónum Bandaríkjadala fyrir 2035.

Sjónhverfing

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, telur samkomulagið ekki ganga nægilega langt og undir það tóku fulltrúar lítilla eyríkja og fátækari ríkja heims sem lýstu andstöðu sinni með því að ganga út af ráðstefnunni.

Guterres sagðist hafa vænst metnaðarfyllra samkomulags en líta yrði á niðurstöðuna sem grunn til að byggja á.

„Þetta er lág upphæð,“ sagði fulltrúi Indlands, Chandni Raina, við aðra fulltrúa, eftir að samningurinn hafði gengið í gegn. „Þetta skjal er lítið annað en sjónhverfing og mun, að okkar mati, ekki taka á þeirri risavöxnu áskorun sem við öll stöndum frammi fyrir,“ sagði Raina.

Samkomulagið er einnig talið veikt fyrir ríkari þjóðir heims. Efnameiri þjóðir verði að hjálpa nýrri hagkerfum að draga úr losun sinni því að þar hafi 75% af aukningu losunar á síðasta áratug átt sér stað.

Endurhugsa COP

Á  COP29 var lögð rík áhersla á að ríki heims fari nú þegar í aðgerðir til að færa sig úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa en um það varð samkomulag á COP28 í fyrra.

Raddir verða æ háværari þess efnis að endurhugsa þurfi COP þar sem loftslagsráðstefnan nái ekki tilgangi sínum lengur. Þótti mörgum á skjön að hún væri nú haldin í ríki sem byggir hagkerfi sitt á olíu- og gasútflutningi og ætlar í engu að draga úr.

1,5 °C-markið fyrir bí

Vísindamenn óttast margir hverjir að markmið um að halda hitastigi heimsins undir 1,5 °C hlýnun frá því fyrir iðnbyltingu sé tapað. Beðið hafi verið of lengi með að bregðast við.

„Við förum hratt fram hjá 1,5 °C-línunni og það mun halda áfram þar til losun á heimsvísu hættir að aukast,“ segir Zeke Hausfather, loftslagsrannsóknastjóri hjá Stripe og vísindamaður hjá Berkeley Earth, í samtali við Guardian. Undanfarin tíu ár í röð hafi þegar verið heitustu tíu ár sem mælst hafa og allt bendi til að árið í ár sé þar engin undantekning.

„Okkur tekst greinilega ekki að beygja ferilinn,“ segir Sofia Gonzales-Zuñiga, sérfræðingur hjá Climate Analytics, við Guardian. Heimurinn sé á leiðinni í 2,7 °C hlýnun með tilheyrandi hörmulegum hitabylgjum, flóðum, hungursneyð og óeirðum.

Gavin Schmidt, loftslagsfræðingur hjá NASA, segist aldrei hafa trúað á að unnt yrði að halda jörðinni við 1,5 °C-markið. „Það kemur hvorki mér, né flest öllum öðrum loftslagsvísindamönnum, á óvart að við séum að skjótast fram hjá því,“ segir hann í grein Guardian. „En við verðum að halda áfram að reyna. Það sem skiptir máli er að við verðum að draga úr losun. Þegar við hættum að hita upp jörðina verður það skárra fyrir fólkið og vistkerfin.“

Ýmislegt áunnist

Á það hefur verið bent að staðan sé þó í raun betri heldur en á þeim tíma sem Parísarsamkomulagið var gert, árið 2015, en þá var horft til allt að 4 °C hækkunar á hitastigi jarðar. Nú aukist framboð ódýrrar og hreinnar orku hröðum skrefum og búist sé við að eftirspurn eftir olíu nái hámarki í lok þessa áratugar. Hvert gráðubrot sem takist að koma í veg fyrir í hlýnun skipti afar miklu máli.

„Við færumst sífellt nær tímamótum í loftslagskerfinu sem við munum ekki geta snúið aftur frá; það er óvíst hvenær þau verða, þau eru næstum eins og skrímsli í myrkrinu,“ segir Grahame Madge, talsmaður loftslagsmála hjá bresku veðurstofunni.

Skylt efni: COP29

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f