Um helmingi starfsfólks sagt upp
Fimm hefur verið sagt upp hjá landeldisfyrirtækinu Geo Salmo í Þorlákshöfn, eða um helmingi starfsfólks. Jens Þórðarson, forstjóri fyrirtækisins, segir ástæðu uppsagnanna fyrst og fremst vera þá að teygst hafi á verkefnum hjá félaginu.
„En undirbúningsvinnu undir framkvæmdir er að mestu lokið. Við höfðum byggt upp frábært teymi á undanförnum árum til þess að leiða uppbyggingu félagsins, en þegar hægir á og uppbygging frestast er ekki réttlætanlegt að viðhalda þeim hópi.“
Mun starfsfólkið verða ráðið aftur?
„Teymi GeoSalmo hefur verið skipað úrvalsfólki og að sjálfsögðu væri frábært að fá hópinn saman á ný en ég geri ráð fyrir því að þegar kallið kemur verði fólk komið í aðra vinnu, en hafi það áhuga eru dyrnar alltaf opnar.“
Undirbúningi fyrsta áfanga lokið
Jens segir að félagið hafi lokið öllum undirbúningi fyrir uppbyggingu fyrsta áfanga fiskeldisstöðvar sinnar í Þorlákshöfn. „Þar með talið höfum við tryggt okkur fiskeldissérfræðinga í sérflokki, öll leyfi og þau aðföng (sér í lagi orku) sem nauðsynleg eru til rekstrarins. Eins hefur félagið lokið verkfræðihönnun fiskeldisstöðvarinnar í samstarfi við leiðandi aðila á því sviði, Artec Aqua í Noregi. Eins er félagið í fullum gangi að vinna að uppbyggingu seiðastöðvar félagsins á Laugum í Landsveit og stefnt er að því að rekstur þar hefjist í haust. Því er fyrirtækið nú tilbúið að hefja uppbyggingu áframeldisstöðvar sinnar.“
13 milljarða vantar
Jens segir að fjármagnsmarkaðir hafi verið hægir en hluthafar félagsins hafi staðið þétt við bakið á því og félagið hefur einnig tryggt sér lánsfjármagn til verkefnisins. „Stjórnendur félagsins vinna nú að hlutafjáraukningu þar sem markmiðið er að geta lokið fyrsta áfanga fiskeldisstöðvarinnar þar sem framleiða á 7.800 tonn af laxi árlega.“
Hvað vantar mikið fjármagn til þess að halda áfram?
„Heildarfjárþörf í verkefninu er um 30 milljarðar króna, en þar af vantar um 13 milljarða til að ljúka fjármögnun félagsins.“ Innlendir fjárfestar eiga, að sögn Jens, meirihluta í félaginu en í hluthafahóp félagsins eru fimm önnur þjóðerni.
Gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist árið 2027 og í fyrsta áfanga verður hún um 7.800 tonn af slægðum laxi árlega. „Félagið hefur tryggt sér leyfi og aðföng fyrir framleiðslu upp undir 25.000 tonn á ársgrundvelli en á lóð félagsins í Þorlákshöfn mætti vel byggja upp frekari starfsemi, allt upp í 90.000 tonna ársframleiðslu,“ segir Jens og enn fremur að útflutningsverðmæti yrðu í fyrsta áfanga um 8–9 milljarðar króna á ári en full starfsemi gæti vel nálgast 100 milljarða í árleg útflutningsverðmæti.
Fjallað er um stöðu og horfur í landeldi á síðu 20 og 21 í blaðinu í dag.
