Ullarvikuhúfa 2026
Húfan sem hér birtist er hönnuð af Helgu Thoroddsen fyrir Ullarvikuna 2026 sem verður haldin í fjórða sinn á næsta ári, dagana 27. september–3. október.
Ullarvikan er samstarfsverkefni nokkurra aðila í ullariðn á Suðurlandi, en þeir eru eftirfarandi: Ullarverslunin Þingborg, Spunasystur, Uppspuni smáspunaverksmiðja, Hespuhúsið, Feldjárræktendur á Suðurlandi og Íslenska ullarvinnslan.
Innblástur fyrir húfuna kemur úr íslensku Sjónabókinni en þar er að finna safn munstra sem fundist hafa í íslensku handverki, aðallega vefnaði og útsaumi. Munstrið er óvenjulega grafískt og stílhreint ef miðað er við mörg önnur munstur í bókinni og hentar einstaklega vel fyrir prjón.
Húfan er prjónuð úr fínbandi sem heitir Dís og er framleitt hjá Spunaverksmiðjunni Uppspuna. Bandið er úr 100% íslenskri lambsull og er framleitt í mörgum náttúrulegum litaafbrigðum og einnig litað sem býður upp á mikla möguleika litasamspils og einstaklingsáhrif á hönnun húfunnar. Á bandinu er fallegur perlusnúður og glans sem gerir það mjög skemmtilegt að prjóna úr og við þvott blómstrar það mikið sem gefur prjónlesinu fallega áferð, fyllingu og mýkt.
Stærð: Höfuðstærð (ummál) 50 – 60 cm, fyrir meðalkvenhöfuð. Dýpt frá húfukolli að stroffi 20 – 24 cm. Hægt er að hafa áhrif á stærð húfunnar með því að skipta um prjónastærð og/eða fjölga/fækka umferðafjölda á milli munstra og einnig með því að fækka munstureiningum ef prjónað er úr grófara bandi. Munstureining er 18 L og 53 umf.
Band:Dís frá Uppspuna (fínband) 100 % íslensk lambsull eða annað sambærilegt band.
Prjónar og aukahlutir: Hringprjónar 40 cm í stærðum 2 ½ og 3 mm. Sokkaprjónar í sömu stærðum. Prjónamerki, málband, skæri og nál.
Prjónfesta: 32 L = 10 cm í tvíbanda -prjóni á prjóna nr. 3 mm eftir þvott.
Stroff: Fitja upp með lit A 140 L á 40 cm hringprjóna nr. 2 ½ mm. Tengja í hring, SM (byrjun umf). *Prj 2 sl, 2 br*, endurt frá *-* út umf. Prj þar til stroff mælist 3 – 4 cm.
Húfubolur: Umf 1 – útaukningarumf. Prj sl og fjölga L úr 140 í 162 eða um 22 L. Útaukning - *prj 3 L, (auka út um1 L, prj 7 L) 4 x, (auka út um 1 L, prj 6 L) 13 x, (auka út um1 L, prj 7 L) 4 x, auka út um 1 L, prj 3 L* Skipta í prjónastærð 3 mm. Prj eftir Munstri 1, litum raðað að vild. Hægt er að fjölga sléttum umf í munstrinu til að hafa áhrif á hversu djúpur húfubolurinn verður.
Kollur:Þegar búið er að prj munstrið 1 x þá er byrjað að taka úr fyrir kollinum. Prj eftir Munstri 2. Í lokin þegar fáar L eru eftir eru prj 2 L sl sm þar til 9 eða 12 L eru eftir, þessar L eru prj í u.þ.b. 4 - 5 cm langa totu. Í lokin eru síðustu L prj saman og bandið dregið í gegn.
Frágangur: Fela alla enda, brjóta totuna þannig að hún myndi lykkju og sauma við húfukollinn. Lykkjan getur þjónað því hlutverki að hengja upp húfuna á snaga eða á bakpokann í göngutúrnum. Handþvo í heitu vatni með góðri ullarsápu, (passa að hreyfa ekki í vatninu svo húfan þæfist ekki), skola og þurrka.
Skammstafanir
- br – brugðin lykkja
- L – lykkja
- Litur A – aðallitur
- Litur B – munsturlitur.
- prj – prjóna
- óprj – óprjónuð lykkja.
- sl – slétt lykkja
- sm – saman
- SM – setja merki
- sty – steypa óprjónuðu lykkju/m yfir prjónaða lykkju.
- umf – umferð
- x – sinnum
Nánari upplýsingar um Ullarviku 2026 má finna á www.ullarvikan.is, er nær dregur, auk uppskrifta og fróðleiks frá Ullarvikum síðustu ára.

