Teikning af laxagarðinum sem fyrirhugað er að reisa við Reykjanesvirkjun.
Teikning af laxagarðinum sem fyrirhugað er að reisa við Reykjanesvirkjun.
Mynd / Samherji
Fréttir 20. nóvember 2025

Tvö fyrirtæki bætast við landeldisdeild BÍ

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Landeldisfyrirtækin Samherji fiskeldi og Aurora fiskeldi eru nú formlega orðin hluti af landeldisdeild Bændasamtaka Íslands.

Fyrir voru fjögur fyrirtæki innan deildarinnar; First Water, GeoSalmo, Thor Landeldi, sem öll eru í Þorlákshöfn, og Laxey í Vestmannaeyjum. Deildin var stofnuð sumarið 2022 og var þá einungis eitt félag þar innanborðs sem hét Landeldi en skipti um nafn ári síðar og heitir síðan First Water. Á því ári fékkst styrkur úr Umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins, sem samsvaraði tæpum milljarði íslenskra króna, til samstarfsverkefnisins Terraforming LIFE sem Bændasamtök Íslands eru aðili að. Markmið þess var að þróa nýja aðferð hér á Íslandi við áburðarog lífgasframleiðslu úr lífrænum úrgangi, sem fellur til við fiskeldi á landi og í landbúnaði.

Mikil samlegð með öðru fiskeldi

Samherji fiskeldi hefur komið að landeldi á laxi og bleikju í yfir 20 ár. Aurora fiskeldi hins vegar er enn á undirbúningsstigi framkvæmdaráætlunar, en þar er gert ráð fyrir að byrjað verði að reisa landeldisstöð á Grundartanga í Hvalfirði á næsta ári og fyrsta slátrun verði á árinu 2027. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið á árabilinu 2031 til 2032 – og þá mun stöðin skila árlega 28 þúsund tonnum af laxi til slátrunar.

Jón Kjartan Jónsson.

Að sögn Jóns Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis, eru þrjár landeldisstöðvar reknar undir merkjum Samherja og þrjár seiðastöðvar. „Öll landeldisfyrirtækin þurfa að safna mykju og koma fyrir með sem minnstum kostnaði. Þar er áherslan hjá okkur og mikil samlegð með öðru fiskeldi – og jafnvel bændum. Þetta er stærsta málið í dag.“

Útflutningsverðmætið verði 10 milljarðar

Spurður um núverandi fyrirkomulag varðandi meðhöndlun fiskeldismykjunnar, segir Jón að verið sé að safna mykju og nota í landgræðslu frá þeirra stærstu stöð sem sé Silfurstjarnan í Öxarfirði.

„Síðan erum við að byggja laxagarð á Reykjanesi, sem verður staðsettur í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun. Við gerum ráð fyrir að hún verði tekin í notkun á fyrri hluta ársins 2027. Þar verðum við líka með hreinsun frárennslis og frumvinnslu á mykju,“ segir Jón.

Hann gerir ráð fyrir að landeldi Samherja muni skila alls 7.500 milljónum í útflutningstekjur á næsta ári. „Síðan vex okkar útflutningur með nýrri stöð 2028 og með 2029 viðbótinni er verða áætluð útflutningsverðmæti um 10 milljarðar á ári.“

Skylt efni: landeldi