Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Ragna Aðalsteinsdóttir.
Ragna Aðalsteinsdóttir.
Fréttir 11. nóvember 2014

Tómt rugl í Náttúrufræðistofnun að tófunni sé að fækka

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ragna Aðalsteinsdóttir, bóndi á Laugabóli við Ísafjarðardjúp, segist vera orðin langþreytt á afskiptaleysi stjórnvalda vegna ágangs refs á svæðinu. Hún segist á hverju ári tapa fjölda lamba og jafnvel fullorðinna kinda líka í refskjaft.

Þá sé hún nú með um tuttugu lömb sem séu afar smávaxin eftir sumarið og hafi dafnað illa eftir að refurinn hafi hrakið þau frá mæðrum sínum.

„Þetta er engu lagi líkt. Í sumar hefur tófa verið með greni hér rétt fyrir ofan laugina sem er í um 400 metra fjarlægð frá bænum. Þar var fullt af yrðlingum og fólk sem kom hingað í heimsókn í sumar sá þetta. Hér er orðið refurinn um allt og ekki lengur að finna fugla af neinu tagi hér í nágrenninu. Það er ömurlegt að þurfa að sitja uppi með þetta,“ segir Ragna.

„Það er tómt rugl í sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar þegar þeir segja að tófunni fari fækkandi. Þetta er svo mikil lygi að það hálfa væri nóg. Svo er það tóm vitleysa að tófur geri sér ekki greni í nálægð við önnur greni. Eftir því sem henni fjölgar verður þéttleiki grenjanna meiri. Þetta sér maður greinilega bara hér fyrir ofan túnin hjá mér.“

Fær engan frið fyrir þessum vargi

„Ég fékk heim nú í haust um 20 lömb sem voru að stærð eins og mánaðargömul lömb þrátt fyrir að hafa gengið úti í allt sumar. Þetta eru allt lömb síðan í vor sem tófan hefur fælt undan mæðrum sínum. Þá gátu þau ekki lengur verið á spena sem er nauðsynlegt til að þau nái að þroskast eðlilega. Þetta eru ekkert annað en píslir sem hafa villst undan. Þar sem meira er um tvílembt fé en áður getur rollan ekki passað bæði lömbin fyrir refnum. Svo eru dæmi um að rollurnar séu drepnar líka. Þetta fer versnandi ár frá ári og fólk getur rétt ímyndað sér hvernig er að reyna að vera með fé sem fær engan frið fyrir þessum vargi.“

Ragna segist hafa ráðið mann úr Kópavogi til að hjálpa sér við að fækka refnum, en honum hafi orðið lítið ágengt svo ekki sjái högg á vatni. Hún segist nú vera að svipast um eftir manni sem sé tilbúinn að vera þarna í nokkurn tíma samfellt til að reyna að vinna á refnum. Segir hún þó mikilvægt að veiðar séu stundaðar af fagmennsku og á eins mannúðlegan hátt og kostur er. Þótt tófan sé henni til ama segist hún engan áhuga hafa á að henni verði útrýmt með öllu.

Hefur misst yfir 20 kindur í sumar

− Hefur þú misst mikið fé í sumar?
„Já, ég er búin að missa yfir 20 í sumar. Þetta hefur farið versnandi í um 20 ár. Svo er farið að ala yrðlinga í búrum bæði í Súðavík og í Heydal sem síðan er sleppt út í haga. Hér hefur komið einn gæfur yrðlingur, líklega frá Súðavík, sem verið hefur að þvælast hér í girðingunni hjá mér í leit að æti. Þetta er ekkert annað en ill meðferð á dýrum  sem ég er búin að klaga til yfirvalda.“

Tófan útrýmir fuglinum

− Hvað með fuglalífið í Laugadal?
„Það sést ekki lengur mófugl og þar með er rjúpu ekki lengur að finna hér. Það voru tveir menn úr Reykjavík hér frammi í dal í leit að rjúpu á dögunum. Þeir fóru um allt en urðu hvergi varir við rjúpu. Það er verið að láta tófuna um að eyða rjúpu og öðrum mófugli rétt eins og menn útrýmdu geirfuglinum forðum. Yfirvöld láta þetta algjörlega afskiptalaust.

Þetta er alveg að gera mann vitlausan og er algjörlega ólíðandi. Hér er ekki lengur neitt fuglalíf og tófan drepur skepnurnar, sem maður ætlaði að reyna að lifa á, fyrir framan nefið á manni. Svo eru lömbin sem skila sér eins og afturkreistingar,“ segir Ragna sem hefur m.a. rætt málið við alþingismenn að undanförnu.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...