Togstreita milli ríkja á COP30
COP30, þrítugasti aðildarfundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) fer fram í Belém, í Brasilíu dagana 10.–21. nóvember 2025.
COP30 mun að miklu leyti snúast um fjármagn, aðlögun að loftslagsbreytingum og orkuskipti. Viðurkennt er að ginnungagap er á milli þess sem þarf til að halda hlýnun jarðar innan 1,5 °C og þess fjármagns og aðlögunar sem er þörf.
Fulltrúum Íslands á COP hefur hríðfækkað, voru um 50 í fyrra og rúmlega 80 árið áður, en eru nú innan við 20 manns, þar af er sjö manna opinber sendinefnd. Hátt í 200 ríki senda fulltrúa á COP30. Ríkin áttu að skila inn uppfærðum markmiðum vegna loftslagsbreytinga í síðasta lagi í september en aðeins tveir þriðju hlutar þeirra gerðu það í raun, þ.á m. Ísland.
Leiðtogar aðildarríkja Loftslagssamningsins hafa lagt áherslu á að með því að hraða orkuumskiptum séu sköpuð störf, hagvöxtur leystur úr læðingi og orkuöryggi tryggt. Á sama tíma hafa þróunarríki hvatt til forgangsröðunar aðlögunar innan landsáætlana og bent á brýna þörf fyrir að styrkja mjög fjármögnun til að ná markmiðum samningsins.
Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér þrjár lykilskýrslur um loftslagsbreytingar í aðdraganda COP30. Eru þær sagðar sýna að Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 virki, en þörf sé á hraðari og víðtækari aðgerðum. Skýrslurnar varpi ljósi á hvar framfarir eigi sér stað og hvar enn sé þörf á meiri hröðun. Er m.a. um að ræða samantektarskýrslu sem fjallar um þær þjóðir sem innleitt hafa Parísarsamkomulagið á kerfisbundinn hátt sem knýr raunverulegar framfarir. Í annarri kemur fram yfirlýsing framkvæmdastjóra SÞ um að viðbótarútreikningar sýni að losun á heimsvísu minnki greinilega í fyrsta skipti, um 10% fyrir árið 2035. Þetta sé þó ekki nærri nóg og er hvatt til að aðgerðum verði hraðað til að halda markmiðum Parísarsamkomulagsins innan seilingar.
Í þriðju skýrslunni segir að leiðbeiningar, undirstöður og rammi fyrir uppbyggingu loftslagsþols séu nú í auknum mæli til staðar. Þar er einnig lögð áhersla á brýna þörf fyrir hröðun og að mikils stuðnings sé þörf, sérstaklega fyrir viðkvæm lönd og þróunarríki.
