Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga
Mynd / Natalie B
Fréttir 6. nóvember 2025

Tillaga um að framlengja gildandi búvörusamninga

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á borði Bændasamtaka Íslands er nú tillaga frá stjórnvöldum um að gildandi búvörusamningar verði framlengdir um ár.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ), segir að tillagan hafi aðeins verið rædd óformlega í stjórninni og enn sé verið að skoða valkostina í stöðunni.

Spurður um hvort seinkun búvörusamninganna verði ekki til þess að setja sumar búgreinar í verri stöðu, í ljósi þess að dregið hefur úr heildarstuðningi við landbúnaðinn á samningstímanum og vægi tollverndarinnar sé nú talsvert minna, segir hann það rétt að samningarnir hafi ekki verið verðlagsuppfærðir og það sé brýnt verkefni.

„Burtséð frá því get ég ekki annað séð en að þetta geti verið skynsamleg leið, bæði fyrir stjórnvöld og BÍ, til að ná betri samningum en ella,“ segir Trausti, en ítrekar að ekkert liggi fyrir að svo stöddu.

Gott samtal við ráðherra

„Ég held að ásetningur stjórnvalda sé einfaldlega að vanda til verka og við höfum ekkert nema gott um viðræðurnar hingað til að segja, samtalið við ráðherra er gott,“ segir Trausti. Þegar hafi tveir samningafundir átt sér stað og er samtalið við þrjá ráðherra; atvinnuvegaráðherra, fjármálaog efnahagsráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Hann segir að BÍ þurfi bráðlega að taka ákvörðun um þessa tillögu og reiknar með að stjórnin komi saman strax þegar fundaröð samtakanna á landsbyggðinni lýkur, eftir miðjan mánuðinn, til að ræða sig niður á niðurstöðu.

Búvörusamningarnir eru um starfsskilyrði tiltekinna búgreina í landbúnaði, á milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands. Þeir sem nú eru í gildi voru undirritaðir árið 2016 og gilda til tíu ára, en svo langir búvörusamningar höfðu ekki áður verið gerðir. Þeir áttu því að óbreyttu að renna út í lok næsta árs. Um fjóra samninga er að ræða; í rammasamningi er kveðið á um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, en síðan eru sérstakir samningar um nautgriparækt, sauðfjárrækt og garðyrkju – sem samkomulag er um á milli samningsaðila að styðja sérstaklega við með beinum greiðslum til bænda.

Í samningunum var gert ráð fyrir tveimur endurskoðunum, fyrst árið 2019 og svo árið 2023. Sauðfjár- og nautgripasamningar voru endurskoðaðir árið 2019, garðyrkjusamningurinn 2020 og rammasamningur 2021. Seinni endurskoðunin, fyrir alla samningana, dróst fram í byrjun síðasta árs.

Fyrsti fundurinn í fundaröð BÍ á landsbyggðinni var haldinn á Hótel Borgarnesi í hádeginu 3. nóvember. Í ræðu Trausta kom fram að aðalkröfur BÍ í samningaviðræðunum fælust í því að skilyrði landbúnaðarins og tollverndarinnar yrðu tekin föstum tökum. Að tollverndin verði áfram viðurkennd sem hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins.

Staðan væri sú, samkvæmt yfirliti frá OECD, að Ísland væri eitt fárra landa þar sem opinber heildarstuðningur hefði minnkað frá 2016. Talsvert af tollum á matvæli væru fastir að krónutölu og lækki því að raungildi í beinu hlutfalli við innlenda verðbólgu, sem sé umfram viðskiptalönd Íslands.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f