Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Tígurskrúð, glæsileg og litrík inniplanta
Líf og starf 23. september 2025

Tígurskrúð, glæsileg og litrík inniplanta

Höfundur: Ingólfur Guðnason, kennari við Garðyrkjuskólann á Reykjum/FSu.

Tígurskrúð (Codiaeum variegatum), sem sumir nefna króton, getur orðið stórvaxin og glæsileg stofuplanta með litrík laufblöð. Þau eru oftast sporöskjulaga í grunninn en sum yrki hafa lensulaga eða dálítið sepótt, óreglulega löguð, jafnvel snúin lauf sem gefur plöntunum óvenjulegt yfirbragð. Laufblöðin eru skemmtilega margbreytileg að lit. Grunnliturinn er gjarnan grænn, en æðastrengir og jafnvel stórir hlutar blaðanna eru ýmist gulir, rauðir, bleikir, fjólubláir eða allt í senn sem gerir útlitið enn sérkennilegra. Litirnir verða skærari þar sem plönturnar vaxa í nægilegri birtu.

Þessi tegund er af mjólkurjurtaætt eins og td. jólastjarna, sem fer að birtast í blómaverslunum í októbernóvember. Upprunann má rekja til Indónesíu, Malasíu og Kyrrahafseyja. Auk þess vex hún villt í Ástralíu. Víða þar sem hún þrífst utanhúss er hún notuð sem garðplanta og getur þá orðið býsna stórvaxin, um 3 metrar á hæð. Hundruð afbrigða tígurskrúðs hafa orðið til í gegnum tíðina, bæði í upprunalegum heimkynnum og við kynbætur. Munurinn felst aðallega í hæð plantnanna, blaðlögun og blaðlit.

Hitabeltistegund

Eins og uppruninn gefur til kynna þarf tígurskrúð heitt loftslag til að þrífast vel. Venjulegur stofuhiti hentar ágætlega, eða jafnvel upp undir 30 °C. Hægt er að rækta hana í upphituðu gróðurhúsi en þá þarf að gæta þess að plantan verður fyrir skemmdum fari hitinn niður í 10–13 °C.

Stundum tekur plantan upp á því að mynda langa blómklasa út úr greinaendum með hvítum blómum. Þessi blóm sölna fljótt og teljast ekki vera sérlega eftirsóknarverð. Algengt er að klippa klasana af þegar til þeirra sést.

Umhirða

Best er að rækta tígurskrúð í rúmgóðum potti sem hafður er á skál. Vökvað er í skálina þannig að plantan nái vatninu upp. Umframvatn er fjarlægt svo hún standi ekki lengi í bleytunni. Þegar vöxturinn er mestur á sumrin er gott að vökva með áburðarlegi á 1–2 vikna fresti og oftar með hreinu vatni þegar þörf er á vökvun. Dregið er úr vökvun og áburðargjöf hætt frá hausti og fram eftir vetri. Æskilegt sýrustig jarðvegs er fremur lágt, 4,5–6,0. Súr blómaáburður mætir þeim þörfum vel.

Ofvökvun, þurrt loft og of mikið beint sólarljós er algeng orsök blaðfalls. Þess vegna þarf að finna réttan stað fyrir tígurskrúð. Staðsetning í suðurglugga getur orðið henni ofviða en hún þarf samt að njóta góðrar birtu í 4–6 klukkutíma á dag til að litskrúðið njóti sín sem best.

Þegar frá líður þarf að umpotta. Það er einfalt mál alla jafna en þegar plantan er orðin há og mikil þarf hún að vaxa í stórum potti. Pottamoldina ætti ekki að bæta með kalki.

Græðlingar

Stundum þarf að stytta greinar ef þær verða óþarflega langar eða ef plantan hefur misst mikið af blöðum. Hægt er að nota þær sem græðlinga. Þeim er stungið í potta með vikri við háan hita og mikinn loftraka. Rótunin tekur nokkrar vikur. Þá er rótuðum græðlingunum komið fyrir í blómapotti.

Tígurskrúð er ertandi

Eins og títt er með tegundir af mjólkurjurtaætt seytlar hvítleitur safi úr sárum sem myndast á plöntunni. Öll plantan, bæði safinn og laufblöðin, geta valdið ertingu á húð og ef hennar er neytt geta komið fram slæm eitrunaráhrif. Það sama gildir fyrir hunda og ketti. Þess vegna ætti að fjarlægja öll lauf sem falla af plöntunni og farga þeim. Sem betur fer mun plantan vera afar bragðvond. Þegar unnið er við klippingar og græðlingatöku er skynsamlegt að nota hanska.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...