Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Guðný kynnti tilraunirnar á Ormsstöðum fyrir öðrum svínabændum og fulltrúum afurðastöðva á fundi í Bændahöllinni sl. mánudag.
Guðný kynnti tilraunirnar á Ormsstöðum fyrir öðrum svínabændum og fulltrúum afurðastöðva á fundi í Bændahöllinni sl. mánudag.
Mynd / HKr.
Fréttir 9. apríl 2015

Þróa aðferðir til að hætta geldingum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á svínabúinu á Ormsstöðum í Grímsnesinu hefur undanfarið ár verið unnið að því hvernig mögulegt er að hætta geldingum á galtargrísum og kanna hvort og hvað hefur áhrif á gæði og nýtingu kjötsins. 
 
Guðný Tómasdóttir, svína­bóndi á Ormsstöðum, kynnti þróunarverkefnið á fundi í Bændahöllinni á mánudaginn og segir að það hafi gefið það góða raun að ástæða sé til þess að halda því áfram. Enda sé til mikils að vinna bæði varðandi dýravelferð og hagræðingu í búskapnum. Matís og Sláturfélag Suðurlands hafa unnið með Guðnýju að verkefninu.
 
Mikilvægt skref fyrir dýravelferð
 
„Það er til mikils að vinna að kanna þetta til fulls. Í fyrsta lagi er það stórt dýravelferðarmál að geta hætt geldingum alfarið. Í öðru lagi þá felast í þessu tækifæri til hagræðingar í búskapnum, bæði vegna vinnusparnaðar og aukins vaxtahraða galtanna,“ segir Guðný. 
 
Hún segir að þau séu ekki að finna upp hjólið í þessum efnum því bæði Írar og Bretar hafi ræktað svín um árabil án þess að gelda með góðum árangri, auk þess sem bæði Hollendingar, Spánverjar og fleiri þjóðir hafi verið að prófa sig áfram í þessu á undanförnum árum. „Ég hef lengi haft áhuga á því að prófa að hætta geldingum og í ljósi þess að svínabændur hafa gert það í öðrum löndum, fannst mér rétt að láta á það reyna hjá okkur,“ segir Guðný.
 
Snýst um að koma í veg fyrir galtarlykt
 
Ástæða þess að geldingar eru stundaðar við nær allan svínabúskap í heiminum er að það kemur í veg fyrir að svokölluð galtarlykt komi af kjötinu sem getur fælt neytendur frá því að neyta þess. „Vinnan í þessu þróunarverkefni snýst um að finna leiðir til að koma í veg fyrir þessa galtarlykt,“ segir Guðný og bætir við: „Þær niðurstöður sem við höfum fengið benda til þess að með réttum aðferðum, sérstaklega í tengslum við fóðurgjöf, er hægt að ná þessu markmiði.“ 
 
Verkefnið hófst í maí í fyrra og fékk Guðný til samstarfs við sig Matís og Sláturfélag Suðurlands. „Við ákváðum að gelda ekki grísi sem fæddust á tveggja vikna tímabili og urðu þetta um 80 galtargrísir,“ segir Guðný. Matís sá um að rannsaka fituna úr dýrum til að greina galtarbragð, lyktin er eingöngu í fitunni. Sláturfélagið tók að sér slátrun en einnig var farið með hlut af grísahópnum til slátrunar hjá Stjörnugrís í Saltvík til að fá samanburð á því hvort það hefði áhrif hvar og hvernig grísunum væri slátrað. Þá voru einnig gerðar smá prufur frá öðrum búum sem hafa komið til slátrunar hjá Norðlenska til að fá þann samanburð.
 
Fóðurgjöf er lykilatriði
 
Þegar grísunum hafði verið slátrað voru unnar ýmsar afurðir úr kjötinu af þeim og gerðar bragð- og lyktarprófanir. „Niðurstöðurnar úr þeim prófunum voru að enginn þeirra sem smakkaði kjötið fann óbragð. Vandamálið virðist einkum liggja í fitunni og geymist hún ekki vel,“ segir Guðný. „Eftir bragðprófunina fórum við yfir málin og leituðum skýringa á hvaða þættir gætu verið að hafa áhrif. Eftir þetta teljum við að fóðurgjöfin sé algjört lykilatriði því að ógeltu grísirnir vaxa hraðar og hefðu líklega þurft meiri fitu og meira aðhald í fóðruninni þannig að hægt væri að koma þeim fyrr til slátrunar. Þeir grísir sem voru í tilrauninni voru á sömu fóðrun og við erum vön með aðra grísi, en á vissum tímapunkti uxu grísirnir svo hratt að við misstum þá niður í vigt. Því væri hægt að taka prufur á grísum mikið fyrr til að kanna hvort þeir séu ekki á einhverjum tímapunkti örugglega lausir við galtarlykt.“
 
Mikilvægt að halda áfram
 
Guðný segir að mikill áhugi sé á því að halda áfram með verkefnið enda sé til mikils að vinna. „ Það er óskastaða að geta hætt að gelda og geta slátrað á vissum tímapunkti þar sem hægt er að tryggja neytendum kjöt á diskinn sinn sem er laust við alla galtarlykt.“ 
 
Spurð um hver séu næstu skef í verkefninu segir Guðný að nú sé beðið eftir svari frá Framleiðnisjóði um hvort styrkur fáist til að halda verkefninu áfram og gera frekari prófanir byggðar á þeirri reynslu og þekkingu sem þegar hefur verið aflað. Þá standi einnig til að að halda fund til að kynna verkefnið fyrir bændum og matvælaframleiðendum.
 
 „Þá þurfum við að safna saman upplýsingum frá þeim löndum þar sem gerðar hafa verið rannsóknir til að sjá hvaða möguleika við höfum og jafnvel fá sérfræðing að utan í heimsókn. Við þurfum að vega og meta alla kosti og galla og í framhaldinu þyrfti kjötmatið að breytast til að gefa afurðastöðvum og bændum möguleika á að velja þessa leið ef þeim hugnast svo,“ segir Guðný.

1 myndir:

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...