Hér eru þau frá vinstri, Reynir Grétarsson, eigandi InfoCapital, Auður Daníelsdóttir, forstjóri Dranga og Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, á svæðinu þar sem nýi verslunar- og þjónustukjarninn á Blönduósi mun rísa.
Hér eru þau frá vinstri, Reynir Grétarsson, eigandi InfoCapital, Auður Daníelsdóttir, forstjóri Dranga og Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, á svæðinu þar sem nýi verslunar- og þjónustukjarninn á Blönduósi mun rísa.
Mynd / aðsend
Fréttir 11. nóvember 2025

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Á dögunum voru kynnt áform um opnun þjónustumiðstöðvar, sem Drangar ehf. ætla að byggja á Blönduósi en þar verður meðal annars lágvöruverðsverslun, fjölorkustöð, sem er stöð, sem sameinar marga orkugjafa eða orkuframleiðsluaðferðir á einum stað. Nokkrum dögum síðar voru fyrstu skóflustungurnar teknar vegna framkvæmdanna.

Mikil spenna er á svæðinu vegna þessa og af því tilefni var Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, fenginn til að svara nokkrum spurningum.

Hvernig er stemningin á Blönduósi og í sveitarfélaginu vegna þessara frétta með Orkustöðina og nýju lágvöruverðsverslunina?

„Stemningin er ótrúlega góð, það var húsfyllir í félagsheimilinu á Blönduósi þegar um 200 manns mættu á upplýsingafund um málið. Það var góð og jákvæð orka þegar búið var að kynna verkefnið og íbúar fengu tækifæri til að spyrja spurninga. Eðlilega eru margar spurningar sem brenna á fólki þegar svona stórt mál rekur á fjörur okkar. Fólk er forvitið um hvaða lágvöruverðsverslun kemur, hvenær, hvar o.s.frv. Það vakti einnig mikla lukku að Drangar hafa hug á því að opna Löður bílaþvottastöð, en það eru margir orðnir langeygir eftir slíkri þjónustu hér á svæðinu,“ segir Pétur.

Kemur sveitarfélagið eitthvað að þessari framkvæmd, eða hvað?

„Sveitarfélagið hefur verið á hliðarlínunni allan tímann, en þetta verkefni hefur verið í pípunum í meira en tvö ár. Við útvegum lóðina, sjáum um skipulagið og þurfum t.d. að sjá til þess að allir nauðsynlegir innviðir sem við berum ábyrgð á séu til staðar þegar framkvæmdir hefjast. Sveitarfélagið kemur ekki að verkefninu að öðru leyti og verkefnið er að öllu leyti í eigu Dranga.“

Þetta er risaverkefni og hver er kostnaðurinn við þessa miklu uppbyggingu?

„Það er rétt, þetta er stórt verkefni og það stærsta, sem hefur komið inn á svæðið í langan tíma. Nú er ekki búið að hanna verkefnið og því liggur ekki fyrir hvert endanlegt umfang og útlit þess verður. Svona verkefni mun hlaupa á milljörðum mundi ég giska á en þetta verður ljóst þegar hönnunin er tilbúin,“ segir Pétur.

Hvaða lágvöruverðsverslun mun koma til ykkar og hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið að fá slíka verslun?

„Um þetta spurðu íbúarnir á upplýsingafundinum og svör Dranga við þessari spurningu er á þá leið að því sé erfitt að svara á þessari stundu. Drangar er tiltölulega nýtt fyrirtæki eins og allir vita og samrunar fyrirtækisins á smásölumarkaði eru nýyfirstaðnir. Drangar eru því í stefnumótun hvað framtíð þessa hluta starfseminnar varðar og þetta mun koma í ljós þegar þeirri vinnu lýkur,“ segir Pétur mjög var um sig og vill ekkert gefa upp þrátt fyrir ítrekaða beiðni hvaða lágvöruverðsverslun mun opna á Blönduósi.

Engin lágvöruverðsverslun á Norðurlandi vestra

Og Pétur heldur áfram að ræða lágvöruverðsverslun á staðnum. „Já, hvað varðar þýðingu þess að það sé að koma lágvöruverðsverslun á svæðið þá er erfitt að útskýra það fyrir öðrum íbúum þessa lands sem flestir hafa aðgengi að lágvöruverðsverslunum á sínu svæði. Norðurland vestra er eini landshlutinn þar sem engin lágvöruverðsverslun er. Fyrir ykkur hin þá er þetta eins og að hafa ekki aðgengi að heitu vatni, þetta eru ákveðin lífsgæði sem við erum nú loksins að fá. Við höfum að sjálfsögðu mismunandi kosti í dag á svæðinu hvað varðar verslun en með lágvöruverðsverslun kemur aukið úrval og lægra verð sem gjörbreytir stöðunni og fólk þarf ekki lengur að fara til Akureyrar, í Borgarnes eða til Reykjavíkur hvað þetta varðar. Þetta er því einnig stórt byggðarfestumál og mun hafa mikla þýðingu fyrir byggðaþróun Húnabyggðar og svæðisins alls í framtíðinni,“ segir Pétur og leggur áherslu á að verkefnið snúist ekki bara um lágvöruverðsverslun heldur heildstæða uppbyggingu á þjónustu við þjóðveginn sem mun styrkja Blönduós, sem miðpunkt ferðamennsku um svæðið. „Að lokum mun þessi uppbygging kalla á mikil umsvif á framkvæmdatímanum og fjölda starfa þegar verkefnið er komið í rekstur og því eru áhrif þess mikil. Við sjáum fyrir okkur að ruðningsáhrif þessa verkefnis verði mikil og að svipuð og einnig ólík þjónusta muni fylgja í kjölfarið þannig að verkefnið styrki það sem fyrir er og bæti einnig við,“ segir Pétur spenntur fyrir verkefninu.

Hvenær byrja framkvæmdir og hvenær á allt að verða klárt?

„Núna er skipulagsvinnan í gangi hjá okkur og hönnunin hjá Dröngum. Skipulagsvinnan mun taka nokkra mánuði og því er ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdir hefjist á næsta ári. En Drangar hafa ekki gefið út formlega tímalínu og hvort verkefninu verði áfangaskipt. Í verkefninu er um að ræða lágvöruverðsverslun, fjölorkustöð, veitingaaðstöðu, lúguapótek og bílaþvottastöð og því ljóst að þetta verður ekki allt gangsett á sama augnablikinu. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og segja að öllum framkvæmdum geti verið að mestu lokið á árinu 2027,“ segir Pétur alsæll.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...