Þarf að haga áburðargjöf með öðrum hætti á næsta ári?
Árið 2025 verður í minnum haft fyrir góða sprettu túna og mikla uppskeru. Jarðræktin heppnaðist yfirleitt vel, spretta á grænfóðri var góð og korn mikið og gott. Heyforði er því víða vel yfir meðallagi og sums staðar það mikill að ekki er talin þörf á fullri heyuppskeru af öllum túnum á næsta ári. Það er þó vissulega undir því komið að veturinn verði skikkanlegur og túnin óskemmd í vor.
Sumir bændur sjá nú tækifæri í að auka endurræktun á næsta ári með það í huga að auka hlutdeild sáðgresis í uppskeru og þar með fóðurgæði. Aðrir stefna á að auka ræktun á korni og einhverjir sjá fyrir sér að minnka áburðarkaup. Breytingar sem þessar kalla allar að einhverju leyti á breytingar í áburðarkaupum og vali áburðartegunda.
Myndin sýnir að meðalheyuppskera túna er áberandi meiri 2025 en árin á undan. Á búum þar sem fyrningar verða miklar næsta vor gætu verið tækifæri til að auka endurræktun eða aðra jarðrækt.
Það er gott að huga tímanlega að því hvernig ætlað er að nýta tún og annað ræktunarland á næsta ári því fljótlega þarf að gera áburðaráætlun og huga að áburði fyrir næsta ár. Það sama á við um sáðvöru, mikilvægt er að panta hana tímanlega til að fá þær tegundir og yrki sem henta best.
Áður en byrjað er að gera áburðaráætlun er rétt að fara yfir túnalistann og athuga hvort eitthvað þurfi að laga eða breyta og hvort túnstærðir séu réttar.
Þegar spildulistinn er tilbúinn er gott að flokka spildurnar niður eftir notkun og ákveða þá áburðarþörfina fyrir hvern flokk. Það eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á áburðarþarfir.
Gerð jarðvegs hefur mikil áhrif á áburðarþörf og í túnum sem fá samfellda og góða áburðargjöf byggist upp aukin frjósemi jarðvegs, ekki síst ef um er að ræða árlega eða nær árlega notkun á búfjáráburði. Með tímanum ætti því áburðarþörf þeirra að minnka. Hafa þarf í huga að uppsöfnun næringarefna í jarðvegi er mest í efsta lagi jarðvegsins svo að þegar tún eru plægð upp verður þessi forði ekki aðgengilegur sáðgresinu í nýræktun fyrstu árin nema að vissu marki. Almennt þarf því meiri áburð á nýrækt en eldri tún bæði vegna þess að þær eiga að gefa meiri uppskeru en eldri tún og forði næringarefna í efsta jarðvegslaginu er minni. Reynsla bóndans og þekking hans á sínu ræktunarlandi vegur þungt við mat á áburðarþörf.
Til viðbótar er rétt að benda á að niðurstöður jarðvegssýna segja talsvert til um sýrustig og innihald jarðvegs af helstu næringarefnum og lífrænu efni. Niðurstöður heysýna segja til um það í hve miklu magni einstök næringarefni úr áburði skili sér í heyin.
Sé ætlunin að spara áburð ætti að byrja á að minnka eða sleppa áburðargjöf á tún sem gefa að jafnaði minnstu eða lökustu uppskeruna. Nýlega ræktuð tún og önnur tún í góðri rækt ættu að fá fullan skammt eða því sem næst. Eldri tún í góðri rækt sem hafa fengið góða áburðargjöf eru túnin sem ættu að þola minni áburðargjöf best.
Taka ætti mið af notkun búfjáráburðar við gerð áburðaráætlana. Mikilvægt er að vita hve mikið er borið á af honum og eins innihald hans. Notkun á töflugildum um efnainnihald búfjáráburðar getur gefið ranga mynd af því hvað er borið á af einstökum næringarefnum. Efnagreiningar á búfjáráburði hafa sýnt að breytileiki í innihaldi hans er mikill og hlutföll helstu næringarefna ólík. Þar sem kalí er viðvarandi lágt í heyjum er viðbúið að lítið sé af því í skítnum. Dreifingartími, aðstæður og aðferð við dreifingu geta haft áhrif á nýtingu næringarefna einkum þó nýtingu þess köfnunarefnis sem er á formi ammoníum.(NH4-N).
Í búfjáráburði er köfnunarefni bæði á auðleystu formi (NH4N) sem plöntur geta nýtt fljótt eftir dreifingu og formi sem losnar á lengri tíma. Meira er af því auðleysta í þunnum skít en þykkum og getur þessi eiginleiki skipt máli í sumum tilvikum. Á korn til þroska sem við viljum að hætti að spretta eftir mitt sumar og fari að mata korn hentar aðeins að nota þunna mykju. Hins vegar er þykkari mykja eða tað allt eins góð í grænfóðurflög þar sem sóst er eftir því að spretta sé góð fram á haust. Á tún sem fá mykju að vori eða milli slátta er betra að hún sé þunn og renni sem hraðast niður undir yfirborð túnsins.
Á síðustu árum hefur tíminn stundum verið stuttur til að ganga frá áburðarpöntun eftir að áburðarsalar birta framboð og verð á áburði. Fyrstu og tímafrekustu skrefin við gerð áburðaráætlunar má vinna áður en áburðarframboð og verð eru birt. Þegar þau svo liggja fyrir má ljúka gerð áætlunarinnar á skömmum tíma. Til að geta treyst á að fá þær tegundir af áburði sem henta getur verið mikilvægt að ganga fljótt frá pöntun því það hefur stundum gerst að áburðartegundir klárist.
Ráðunautar RML vinna árlega áburðaráætlanir fyrir marga bændur og aðstoða aðra við að gera sínar áburðaráætlanir. Sú aðstoð getur falist í að túlka gögn sem lögð eru til grundvallar áætlunum s.s. niðurstöður jarðvegs- og heysýna og sýna úr búfjáráburði en einnig að yfirfara áburðaráætlanir og val á áburðartegundum. Bændur sem vilja ráðgjöf um áburð eða áburðaráætlun á komandi mánuðum geta haft samband í síma 5165000 eða pantað þjónustu á heimasíðu RML.
