Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Tillögur starfshópsins um endurskoðun eignarhalds á bújörðum gera meðal annars ráð fyrir að landeigandi skuli hafa þar lögheimili (fasta búsetu) eða haft hér á landi um tilgreindan tíma og að lögfest verði skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum.
Tillögur starfshópsins um endurskoðun eignarhalds á bújörðum gera meðal annars ráð fyrir að landeigandi skuli hafa þar lögheimili (fasta búsetu) eða haft hér á landi um tilgreindan tíma og að lögfest verði skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum.
Mynd / smh
Fréttir 1. nóvember 2018

Tengsl jarðaeigenda við Ísland og byggðalögin verði tryggð

Höfundur: smh
Undanfarin misseri hefur talsvert borið á umræðu um lagaumgjörð eignarhalds á bújörðum, gjarnan í tengslum við kaup erlendra auðmanna á fjölda íslenskra jarða á undanförnum árum. Starfshópur um eignarhald á bújörðum hefur skilað skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að tryggja efnahagsleg tengsl þeirra við Ísland, sem eiga bújarðir hér á landi. 
 
Einnig að tryggja tengsl eignar­halds á bújörðum við hlutaðeigandi byggðalög, svo og að bújarðir séu nýttar til landbúnaðar í þágu matvæla­framleiðslu.
 
Í skipunarbréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var starfshópnum falið að bera kennsl á og gera tillögu um úrræði til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Var vinna starfshópsins nánar afmörkuð við þau úrræði sem væru til þess fallin að ná því markmiði og unnt væri að lögfesta í ábúðarlög og jarðalög. 
 
Hægt að ráðast í lagabreytingar til að ná markmiðunum
 
Starfshópurinn telur fært að ráðast í lagabreytingar í því skyni að ná markmiðum skipunarbréfsins. Tillögur starfshópsins til ráðherra eru eftirfarandi:
 
  • Lögfesta búsetuskilyrði í ábúðarlög; skilyrði um byggingu lands í landbúnaðarnotum á þann veg að landeigandi eða ábúandi skuli hafa þar lögheimili (fasta búsetu), og/eða að lögfesta þar skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum.
  • Lögfesta búsetuskilyrði í jarðalög; skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi í landbúnaðarnotum skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafi áður haft hér lögheimili um tilgreindan tíma, til dæmis fimm ár.
  • Lögfesta takmarkanir á stærð lands og/eða fjölda fasteigna (lands í landbúnaðarnotum) í jarðalög.
  • Að áskilnaður um fyrirfram samþykki hins opinbera fyrir aðilaskiptum að landi í landbúnaðarnotum verði lögfestur í jarðalögum. 
  • Að víðtækari forkaupsréttur ábúenda og/eða bænda verði lögfestur í jarðalög.
  • Að verðstýringarheimild verði lögfest í jarðalög.
  • Að lögfest verði í jarðalög reglur um sameignarland til að treysta fyrirsvar og liðka fyrir ákvarðanatöku.
  • Að breyta reglum jarðalaga um stjórnsýslu við landskipti og lausn lands úr landbúnaðarnotum og skilgreina í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hlutlæg viðmið í þágu slíkrar ákvarðanatöku.
Í skýrslunni kemur fram að starfshópurinn hafi kannað eldri og gildandi ábúðarlög og jarðalög – auk löggjafar í Danmörku og Noregi – í því skyni að bera kennsl á þau úrræði sem væru til þess fallin að ná áðurgreindu markmiði og samræmdust jafnframt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-rétti. Hafði starfshópurinn meðal annars hliðsjón af leiðbeiningum sem Framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins hefur gefið út varðandi aðilaskipti og eignarhald á landbúnaðarlandi.
 
Starfshópurinn leggur áherslu á að við val á takmörkunum og nánari útfærslu þeirra, til breytinga á jarðalögum nr. 81/2004 og ábúðarlögum nr. 80/2004, verði að gæta að sjónarmiðum um eignarréttarvernd og skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-rétti, svo og að takmarkanir taki til einstaklinga, lögaðila og raunverulegra eigenda þeirra. Starfshópurinn leggur einnig áherslu á að við útfærslu einstakra takmarkana þurfi að huga að því að tengja þær raunhæfum og virkum réttarúrræðum og eftirlitsheimildum.
 
Nýr starfshópur til að meta lögmæti leiða
 
Eftir að tillögum starfshópsins var skilað, gaf forsætisráðuneytið út tilkynningu um að í framhaldinu yrði nýr starfshópur skipaður um endurskoðun laga og reglna er varða eignarhald á landi og fasteignum. Meginmarkmið þeirrar endurskoðunar yrði að meta lögmæti mismunandi leiða til að setja almennar takmarkanir á stærð landareigna og/eða fjölda fasteigna sem einn og sami aðili, sem og tengdir aðilar, geta haft afnotarétt yfir.  
 
Þá er verkefni hópsins að skoða leiðir til að sporna gegn því að land í landbúnaðarafnotum sé tekið til annarra nota og tryggja að búseta á jörð haldist, ef ekki telst vera grundvöllur fyrir áframhaldandi landbúnaðarafnot, í því skyni að hamla gegn íbúafækkun og viðhalda byggð á viðkomandi svæði.
 
Starfshópurinn mun vera skipaður fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk fulltrúa forsætisráðherra sem mun stýra vinnu hópsins.
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...