Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tveir blóðtökubásar eru á Sólvöllum. Hanna Valdís lætur höfuð hryssu síga eftir að blóðtaka hefst. Starfsmaður Ísteka aðstoðaði við blóðtöku og stendur hjá annarri meri við blóðtöku. Faðir Hönnu Valdísar, Guðjón, aðstoðar einnig í starfseminni.
Tveir blóðtökubásar eru á Sólvöllum. Hanna Valdís lætur höfuð hryssu síga eftir að blóðtaka hefst. Starfsmaður Ísteka aðstoðaði við blóðtöku og stendur hjá annarri meri við blóðtöku. Faðir Hönnu Valdísar, Guðjón, aðstoðar einnig í starfseminni.
Mynd / ghp
Fréttaskýring 30. ágúst 2022

Tamdar til reiðar og notaðar í blóðtöku

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Hanna Valdís Guðjónsdóttir og Illugi Breki Albertsson eru ungir bændur á Sólvöllum í Rangárþingi ytra. Þar stunda þau sauðfjárbúskap ásamt því að halda hóp blóðmera. Bændablaðið fékk að fylgjast með blóðtöku á Sólvöllum.

Í ár eru 31 hryssa í blóðtökum á Sólvöllum. Í fyrra voru þær helmingi fleiri og hugðust Hanna Valdís og Illugi stækka stóðið enn frekar. Járngrind af húsakosti sem er í byggingu við hlið annarra útihúsa búsins var í reynd ætlaður til að uppfæra og stækka aðstöðu þeirra til að sinna starfsemi blóðmerarhalds enn betur.

En þær ætlanir breyttust í vetur. Myndband dýraverndarsamtakanna kom út á sama tíma og verð á aðföngum voru að hækka gífurlega. Þar sem rekstraráætlun bændanna gekk ekki upp miðað við forsendur og mikil óvissa ríkti um framtíð blóðmerarstarfseminnar tóku þau ákvörðun um að fækka ásettum merum um helming. Nýi húsakosturinn mun þó vonandi nýtast sem heimasláturhús og kjötvinnsla í náinni framtíð.

Þetta er þriðja ár Hönnu Valdísar og Illuga Breka í blóðbúskap en þau tóku við Sólvöllum af bónda sem var þegar með blóðmerastóð. Hún hafði einnig aðstoðað bóndann við blóðtökur í nokkur ár og hún þekkti því vel til starfseminnar.

Hanna Valdís er hestafræðingur að mennt og þau Illugi stunda sína hestamennsku samhliða störfum. Hún temur og mikill hluti reiðhrossa þeirra eru í reynd undan blóðgefandi hryssum. Einnig nota þau tamdar reiðhryssur frá sér í blóðtöku þegar þær eru í folaldseignum og sjá ekkert að því.

Hún bendir á að sú mikla umræða og gagnrýni sem starfsemi blóðbúskapar hefur orðið fyrir sé leidd áfram af fólki sem hefur ekki komið nálægt starfseminni. Hún fagnar umræðum um blóðmerarbúskap en vill að hún byggi á þekkingu. Hún segist í raun sama um gagnrýni fólks sem þekkir ekki til hrossahalds en sárnar þegar aðrir hestamenn fordæma starfsemina á forsendum dýraníðs.

Hún nefnir að ef blóðmerarhald og starfsemi blóðtöku, eins og hún er starfrækt á Sólvöllum, sé á gráu svæði vegna meðferðar hryssnanna þá geti tamningar á hrossum verið það líka. Álagið sem hryssurnar geta orðið fyrir sé almennt minna en í tilfelli reiðhrossa.

Hanna og Illugi hugðust stækka blóðmerastarfsemina og voru að reisa húsnæði til þess arna þar til í fyrra. Þau eru nú að endurhanna húsnæðið með heimasláturhús og kjötvinnslu í huga.

Velferð og heilsa meranna sé í fyrirrúmi enda sé það grundvöllur þess að hægt sé að nýta hryssurnar í hlutverk sitt. Mikilvægt sé að öll meðhöndlun hryssnanna sé gerð af yfirvegun og hún kjósi að hafa sama fólk í verkinu í hvert sinn, enda eru merarnar rólegri með mönnum sem þær þekkja.

Við val á blóðmerum skiptir geðslagið mestu máli, auk þess að vera með góða hormónastarfsemi. Hanna Valdís og Illugi tóku við stóði en hafa síðan þá verið að halda áfram með ræktun þess. Einnig hefur Hanna Valdís tamið nokkur hross undan blóðmerum undanfarin ár og segir þá upp til hópa hafa reynst traustir og yfirvegaðir reiðhestar.

Stefna þeirra er að allar hryssur verði fortamdar á þann hátt að þær séu bandvanar, hægt sé að teyma þær og taka upp fætur enda leiði það til enn betri framgangs við meðhöndlun þeirra. Hanna Valdís bendir á að nokkrar merar í hópnum séu tamin sem reiðhross en aðrar séu eldri merar sem fylgdu jörðinni og minna bandvanar. Þær eru þó vanar meðhöndluninni og eru yfirvegaðar við blóðtökur.

Aðstaðan á Sólvöllum var innanhúss. Hryssunum er safnað saman í tvö hólf, en frá þeim er þeim hleypt inn á gang þar sem tveir blóðtökubásar eru staðsettir. Líkt og á Álftarhóli er hlið að framan og stöng sett fyrir aftan til að aftra ferð merar, svo strappi yfir. Múllinn settur á og merin staðdeyfð á stungustað. Þá er hausinn settur í stöðu, dýralæknirinn kemur nál fyrir og höfðinu síðan leyft að síga svo merin standi eðlilega. Eftir blóðtöku er hryssunni hleypt út.

Sumar merar og folöld sækja í húsnæðið eftir að meðferð þeirra er lokið, aðrar ganga niður í haga þar sem þær hafa aðgang að vatni og steinefnum.

Öll handtök þeirra sem meðhöndluðu merarnar voru nokkuð fumlaus og framkvæmdin öll gerð af yfirvegun. Líkt og í blóðtökunni á Álftarhóli sýndu hryssurnar á Sólvöllum engin merki þess að vera hræddar við manninn eða þá aðstöðu þar sem framkvæmd blóðtökunnar fer fram. Þvert á móti sóttu sumar hryssur, og folöld þeirra, í að koma aftur inn.

Við blóðtökuna voru viðstödd Hanna Valdís, Illugi Breki, dýralæknir sem framkvæmdi blóðtökuna, til aðstoðar voru Guðjón, faðir Hönnu, og Sebastian sem starfar hjá Ísteka. Eftirlitsmaður frá MAST fylgdist einnig með blóðtökunni.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...