Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tækniframfarir
Leiðari 4. nóvember 2022

Tækniframfarir

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Í ritinu Ræktum Ísland! sem grundvallar landbúnaðarstefnu Íslands, kemur fram að nýir straumar verði ráðandi kraftar í landbúnaði framtíðarinnar.

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Í þessum straumum falla landnýting, umhverfisvernd og tæknivæðing í einn farveg. Því fyrr sem íslenskur landbúnaður fellur að þessum straumum, þeim mun betur tekst að efla hann og styrkja. Þar segir einnig að árangursrík landbúnaðarstefna krefjist þess að tekið sé mið af þróun nýrrar tækni og áhrifum hennar á störf bænda. Virkja beri þá þekkingu sem þegar er fyrir hendi með notkun hátækni í ýmsum greinum landbúnaðar og leggja áherslu á að kynna bændum hvað hér sé í húfi.

Við eigum öll að vita hvað er í húfi, hvort sem við erum bændur eða ekki. Miðað við spár um fjölgun mannkyns telur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) að auka þurfi matvælaframleiðslu um 70% fram til ársins 2050. Um leið er því spáð að landbúnaðarland muni minnka og að takmarkaðar náttúruauðlindir verði fullnýttar. Við þessar aðstæður skiptir sköpum að afrakstur af landbúnaðarframleiðslu aukist án þess að gengið sé of nærri því sem nýta má.

Því er það þjóðþrifamál að auka og bæta landbúnaðarframleiðslu hér á landi á grundvelli vísinda og tækniframfara. Í tölublaðinu er snert á tveimur dæmum beintengdum þessum áherslumálum landbúnaðarstefnunnar.

Nýtt erfðamengisúrval sem nú hefur verið innleitt í kynbótastarf íslensku mjólkurkýrinnar markar þáttaskil í íslenskri nautgriparækt. Um er að ræða gjörbyltingu kynbótakerfisins sem mun stórauka og hraða erfðaframförum. Ávinningurinn er gríðarlegur og nemur tugum milljóna á ári, bætir okkar frábæra mjólkurkúakyn og minnkar framleiðslukostnað. Tryggir enn fæðuöryggi landsins. Annað skref í framförum nautgriparæktarinnar snýr að kyngreiningu sæðis. Sú tækni getur bætt enn frekar kynbótastarf búgreinarinnar, sér í lagi með tilkomu erfðamengisúrvalsins. Heyrst hefur að innan Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sé unnið að því að skoða þá framþróun sem hefur átt sér stað í þeirri tækni og verið sé að leggja mat á kostnað og ávinning þess að taka slíkt upp hér á landi. Yrði það til þess að bæta enn nákvæmni í kynbótastarfi og framlegð búgreinarinnar.

Íslandi gefst kostur á að taka þátt í framsæknu sænsku plöntukynbótaverkefni sem snýr að því að kynbæta plöntur á háhraða svo þær verði aðlagaðar að einangruðum umhverfisaðstæðum. Í fréttaskýringu blaðsins kemur fram að Ísland er langt á eftir nágrannaþjóðunum í kornrækt, að því er virðist vegna andvaraleysis. Fyrir tilstilli framsækinna eldhuga gefst okkur nú kostur á að stíga inn í einhvers konar tímavél, tæknibyltingu, sem gæti orðið til þess að á innan við áratug yrðum við með í höndunum frambærileg kornyrki fyrir séríslenskar aðstæður. Þetta er ekki síður brýnt umhverfismál en grundvallar fæðuöryggismál að láta raunverulega verða að því að efla kornrækt. Hik er það sama og tap ef ekkert verður gert núna.

Í fregnum af tækninýjungum, eins og háhraðahvelfingu fyrir plöntukynbætur og skilvindu sem kyngreinir sæði, kristallast fyrir okkur að landbúnaður sem framleiðslugrein byggir á beinhörðum vísindum, sem taka ber mark á. Mun minna rými er fyrir tilviljanir og rómantík í heiminum eins og hann er í dag. Fæðuöryggi okkar og komandi kynslóða er í húfi. Umhverfisaðstæður breytast, við því þarf að bregðast. Fólki fjölgar, allir þurfa að nærast. Við verðum að framleiða mat. Vísindasamfélagið og tækniframfarirnar eru lykilþættir í að láta hlutina ganga upp.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...