Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
T137-uppsprettuhjarðir í nærmynd
Mynd / Karólína Elísabetardóttir
Á faglegum nótum 19. september 2025

T137-uppsprettuhjarðir í nærmynd

Höfundur: Karólína Elísarbetardóttir, sauðfjárbóndi og meðlimur í alþjóðlega rannsóknarhópnum um riðuveiki á Íslandi.

Í dag eru ýmiss konar rannsóknir á erfðaefni í boði á viðráðanlegu verði. M.a. er hægt að athuga 50.000 eiginleika hjá hverjum greindum grip samtímis og flokka gripina samkvæmt því eða bera saman. Á þennan hátt er hægt að skoða erfðatengsl langt umfram venjulegan skyldleika; í rauninni er borið saman hversu líkt erfðaefnið er, óháð því hvort gripirnir eru skyldir í hefðbundinni meiningu. Aðferðin kallast SNP-chip genotyping, eða flögugreining á íslensku. Í samvinnu við Gesine Lühken prófessor og Olusegun Adeniyi, doktorsnemann hennar, voru núna skoðuð erfðatengsl á milli T137-uppsprettuhjarðanna, sem eru þekktar í dag.

Hægt var að nýta sér gögn sem vísindamennirnir unnu í RMLverkefni frá 2022. Þá var íslenski sauðfjárstofninn og ekki síst nýfundnu ARR-gripirnir bornir saman við grænlenskar kindur (af íslenskum uppruna) og við erlend kyn sem voru flutt til landsins áður fyrr. Auk þess er annað flögugreiningarverkefni í gangi um þessar mundir sem snýst um litaafbrigðin kolótt og gult, þess vegna var hægt að skoða T137-hjarðirnar á mjög hagstæðan hátt, svo að segja sem hliðarafurð litarannsóknarinnar. Núverandi verkefni er styrkt af erfðanefnd landbúnaðar.

Helstu niðurstöður sem liggja núna fyrir koma í grófum dráttum fram í meðfylgjandi mynd. Á bak við myndina liggja svokölluð PCAplot, sem eru punktarit. Hver og einn punktur táknar einn grip. Meginreglan við túlkun þessara punktarita er: Því nær sem punktarnir (gripirnir) liggja saman og mynda eins konar ský, þeim mun líkara er erfðaefni þeirra, og öfugt – gripir sem eru langt frá hver öðrum í ritinu, eru ólíkir.

Í daglegu lífi þýðir það: Ef við ætlum að rækta gripi með fjölbreyttan erfðagrunn, ættum við að para saman gripi sem eru langt frá hvor öðrum. Burtséð frá því er forvitnilegt að sjá hvar T137-uppsprettuhjarðirnar, sem við þekkjum í dag, eru staddar í punktaritinu.

Dæmi: Forfeður og -mæður T137- kindanna á Sunnuholti í Seyðisfirði komu 1989 frá Núpsstað í VesturSkaftafellssýslu. 1998 voru tekin 10 sýni á Núpsstað, þar af reyndust 6 með T137. Flögugreiningin leiddi núna í ljós að nútímagripirnir eru augljóslega enn nátengdir gamla Núpsstaðastofninum. Þeir voru á mjög svipuðum stað – en á sama tíma langt frá öllum hinum T137- uppsprettuhjörðum. Hins vegar eru þeir frekar stutt frá hjörðinni á Höfða í Borgarfirði, sem er einn af þeim örfáu „gamaldags“ stofnum sem eftir eru í dag. 

Rannsóknin leiddi líka í ljós að engin tengsl eru á milli T137 á Ólafsfirði og á Brúnastöðum í Fljótum – þrátt fyrir að það væri ekki útilokað við fyrsta sýn, því gripir fóru á milli þessara bæja á liðnum áratugum, það er stutt á milli ef farið er yfir fjöllin. En gripirnir eru á mjög ólíkum stað í punktaritinu og þar með var þessi kenning úr sögunni.

Í stuttu máli skera sig eftirfarandi hjarðir úr „meginklasanum“ þar sem flestar T137-hjarðir eru staðsettar:

  • Stóru-Hámundarstaðir (Austri sæðingahrútur er jafnvel yst af öllum)
  • Núpsstaður 1998/Sunnuholt
  • gömlu sýnin, geymd á Keldum (frá 1993–97): Enni, Neðra-Vatnshorn, Hesjuvellir
  • Engihlíð (Árskógsströnd) að hluta til – en á allt öðrum stað en StóruHámundarstaðir
  • Holt (Ásum)
  • Ólafsfjörður
  • Straumur (Hróarstungu)

Á óvart kemur hversu líkar hinar hjarðirnar eru, alveg óháð staðsetningu. Þess vegna eru þessar hjarðir kallaðar „meginklasa“. Ekki var hægt að tengja þetta fyrirbæri t.d. við fjárskiptin eftir niðurskurð út af mæðiveiki. En athygli vekur að þrjú líflambasölusvæði – Snæfellsnes, Öræfin og Norðausturhólfið – eru einnig „staðsett“ þar á meðan Strandir eru hinum megin að finna, svo að segja til hægri. Frá þessum þremur svæðum komu einnig margir sæðingahrútar. Að minnsta kosti hluti hjarðanna í „meginklasanum“ rekja ættir T137- gripanna til svæðanna þriggja. Í meginklasanum eru þessar hjarðir:

  • Sveinsstaðir (Þingi)
  • Syðri-Hagi (Árskógsströnd)
  • Engihlíð (Árskógsströnd) að hluta til
  • Reykir (Hjaltadal)
  • Möðruvellir (Hörgárdal)
  • Grímsstaðir 4 (Mývatnssveit)
  • Vogar 3 (Mývatnssveit)
  • Flaga 1 (Skaftártungu)
  • Snæbýli/Jórvík (Skaftártungu/ Álftaver)

Við jaðir „meginklasans“ eru:

  • Brúnastaðir (BR á myndinni)
  • Kirkjubæjarklaustur að hluta til (KI)
  • Hrútatunga (HR) (Hrútafirði – upphaflega frá Bergsstöðum)

Staðsetning Stóru-Hámundarstaða er sérstaklega áberandi, þar sem þessi hjörð liggur meira að segja alveg fyrir utan íslenska meginstofninn. Líklegasta skýringin er sú að það var mjög lítil blöndun við aðra stofna fram yfir 1990 – sem hefur greinilega meiri áhrif en umfangsmikil notkun sæðinga sem hefur átt sér stað á bænum síðustu tuttugu ár. Þessi „fjarlægð“ er kostur fyrir bændur sem hafa notað t.d. Austra eða Tjald frá Stóru-Hámundarstöðum eða keypt líflömb þaðan.

Ekki voru með í rannsókninni sýni frá Gröf í Skaftártungu og Stóra-Dal undir Eyjafjöllum, sem uppgötvuðust of seint, og heldur ekki frá LitlaÁrskógi, hér var einungis um einn grip að ræða sem er ekki lengur lifandi og einmitt þetta DNA reyndist ekki nothæft til flögugreiningar.

Fleiri rannsóknir – smitsýni frá Austur- og Suðurlandi

Í lokin má nefna að fleiri rannsóknir alþjóðlega vísindamannahópsins eru í gangi þessa mánuði sem munu leiða að mikilvægum niðurstöðum, líka fyrir bændur. M.a. náðist í vor að finna nothæf smitsýni frá Austurlandi og Suðurlandi í geymslunum á Keldum – til þessa voru til skoðunar eingöngu smitsýni frá Norðurlandi. Það er lykilatriði að sjá hvernig mismunandi arfgerðir koma út gagnvart þessum nýju smitsýnum í PMCA-næmisprófum.

Eingöngu arfgerðir sem reynast með mótstöðu gagnvart öllum íslenskum smitefnum koma til greina til framtíðarræktunar fyrir landið allt. Til þessa lítur það áfram vel út fyrir T137.

Svo er stofngreining fjölda smitsýna úr öllum þessum landshlutum í gangi. Fljótlega kemur í ljós hversu líkir íslensku riðustofnarnir eru þekktum erlendum riðustofnum, hversu líkir eða ólíkir stofnarnir eru hér á landi og hvort mögulega einhver sérstök aðlögun að ákveðnum arfgerðum hefur átt sér stað.

T137 bestur af „ljósgrænu“ breytileikunum – listi yfir T137- sölubú

Þar sem T137 er enn mjög sjaldgæfur, en á sama tíma besti valkosturinn af „ljósgrænu“ (mögulega verndandi) breytileikunum, er gott að nýta sér sérstakan lista yfir sölubú með T137. Umsóknarfresturinn til líflambakaupa er að vísu runninn út, en innan hólfa þar sem fjárflutningar á milli hjarða eru leyfilegar, þarf ekki að sækja sérstaklega um. Á listanum koma fram ræktunarmarkmið viðkomandi búa og hvers konar gripir eru í boði, t.d. varðandi liti, horn eða forystueiginleika. Tæplega 50 bú eru á listanum til þessa. Listinn hefur verið mest lesna síðan á heimasíðunni riduvarnir.is undanfarna mánuði. Beina slóðin að listanum er ridaneitakk.net/t137-listi – bændur geta skráð sig þar hvenær sem er.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Þýskar heimsbókmenntir
3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Laufey
3. desember 2025

Laufey

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
4. desember 2025

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu

Þúsund ár og þúsund enn
4. desember 2025

Þúsund ár og þúsund enn

Góður árangur náðst
4. desember 2025

Góður árangur náðst

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f