Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum
Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í byrjun mánaðar að MÓSA bakteríur hefðu greinst í skimunarsýnum við slátrun svína.
Er þetta í fyrsta skipti sem þessar sýklalyfjaónæmu bakteríur greinast í búfé á Íslandi, en þær eru mjög útbreiddar í búfé í Evrópu og víðar. MÓSA stendur fyrir Meticillín ónæmir Staphylococcus aureus og var bakterían af stofngerðinni CC398.
MÓSA er ekki matarborið smit og því ekki talin hætta á neyslu á svínaafurðum. Smit er almennt ekki talið valda veikindum í dýrum, heldur verða dýrin einkennalausir berar. Fólk sem starfar í mikilli nálægð við dýrin er í aukinni áhættu að verða fyrir smiti. Líkt og hjá dýrum veldur smit í fólki sjaldnast veikindum, nema ef það berst í einstaklinga með skert ónæmiskerfi eða veldur sárasýkingum. Þá getur verið erfitt að meðhöndla slíkar sýkingar með hefðbundnum sýklalyfjum og því mikilvægt að MÓSA berist ekki inn á heilbrigðisstofnanir.
Undanfarið hefur MAST skimað fyrir MÓSA við slátrun svína, en þær skimanir eru hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Jákvæð sýni komu frá svínum af þremur búum þegar tekin höfðu verið sýni frá þrettán af þeim fimmtán búum sem slátra grísum hérlendis. Þekkt er að MÓSA getur smitast á milli svína við flutning í sláturhús og því ekki hægt að útiloka krossmengun á milli svínanna, en þeim var öllum slátrað á svipuðum tíma í sama sláturhúsi.
Næstu skref eru að taka sýni á búunum til að sannreyna hvort MÓSA sé að finna á þeim búum sem svínin komu frá. Í framhaldi mun MAST fara í sýnatökur á öllum svínabúum landsins til að kanna frekari útbreiðslu, ásamt því að fara í viðeigandi aðgerðir til að hindra frekari smitdreifingu. Nánari upplýsingar um málið má finna á vef MAST.
