Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Sveit allra tíma
Mynd / Unsplash - John Wayne Hill
Lesendarýni 16. maí 2025

Sveit allra tíma

Höfundur: Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur

Síðastliðið sumar lá leið mín aftur í sveitina sem ég hafði dvalið í sumarlangt sem drengur.

Tilefnið kom að vísu ekki til af góðu því hjónin sem réðu búi í Birtingarholti féllu bæði frá með skömmu millibili þá um sumarið; tengdaforeldrar bróður míns. Frá þessu fólki hef ég margar af mínum skýrustu sveitaminningum. En eins og verða vill um minnið þegar líður frá atburðum og lífið dregur það fleiri dráttum hefur eitt og annað frá þessari sumardvöl skolast til – eða öllu heldur hafa atburðir sem alls ekki áttu sér stað þarna gert sveitina að vettvangi sínum í minninu. Ástæðan getur í raun ekki verið önnur en sú að dvölin í Birtingarholti er mín skýrasta minning af hvers kyns sveitalífi, og þannig er það fyrirmynd alls sveitalífs sem ég get hugsað mér, líka þess sem ég les um í bókum.

Í Birtingarholti þótti ekki sæmandi ungum drengstaula að liggja mikið í herbergi sínu á sumardegi og lesa. Húsfreyjan Sigga, blessuð sé minning hennar, hafði ekki við að ýta við mér svo ég gæti orðið að einhverju gagni. Að kenna mér einhvers konar vinnusiðferði og rækta úr mér leti kaupstaðardrengsins var líklega talsvert meiri vinna fyrir hana en gagnið af mér var nokkru sinni. Ég fékk leiðsögn í mjöltum, lærði að reka kýrnar og róta í einhverjum mykjuhaug sem ég held að mér hafi verið bent á svo ég gerði frekar eitthvað en ekki neitt. En bækurnar kölluðu alltaf. Tár, bros og takkaskór og fleiri stórvirki unglingabókmenntanna kölluðu eins og síreneður sama hve glatt sólin skein og hve mörgu þurfti að huga að á býlinu.

Seinna – ekki löngu seinna – fékk ég óskaplegan áhuga á bókmenntum fyrir fullorðna og byrjaði þá meðal annars að lesa bækur Halldórs Laxness, sem ófáar gerast í sveit. Og viti menn? Baðstofan í Heimsljósi varð samstundis að borðstofunni í Birtingarholti; öll holt og allar heiðar sem Ólafur Kárason gekk sín bernsku- og manndómsár voru kambarnir ofan bæjarins í Hrunamannahreppi, og það var í raun ekki fyrr en á síðari árum að mér tókst með einhverjum hætti að skilja á milli sögusviðs skáldsögunnar og staðhátta sveitabæjarins sem ég dvaldi á sem drengur.

Ætti ég að draga af þessu einhverja ályktun – aðra en þá að fyrir mér lá líklega alltaf að grúska frekar í bókum en verða bóndi – þá er hún sú að íslenska sveitin er sjálfstætt og mikilvægt menningarfyrirbrigði út af fyrir sig. Jafn íkónísk fyrir gildi okkar sem þjóðar og menningarsamfélags og sá menningararfur sem við teljum hvað merkastan, eins og skinnhandritin. Íslenska sveitin er nefnilega ekki bara nokkur hús og fullt af túnum á víð og dreif heldur ber hún í sér eitt stærsta frásagnarafl sögu okkar og er óumdeildur kjarni Íslandsbyggðar allt frá upphafi. Fyrir Siggu og Gústa, þess sómafólks sem ég nota hér tækifærið til að minnast með hlýju og þakklæti, var að koma í Birtingarholt bara að koma heim. Fyrir mér var það að koma í alla sveit allra tíma, þetta Ísland sem ég fyrir vikið var svo lánsamur að kynnast ekki bara af bókum, heldur í sambýli með fólkinu sem bjó það til.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...