Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
 „Utan Skagfirðinga, Húnvetninga og Eyfirðinga þekkti nánast enginn til Bólu-Hjálmars sem skálds.“
„Utan Skagfirðinga, Húnvetninga og Eyfirðinga þekkti nánast enginn til Bólu-Hjálmars sem skálds.“
Líf og starf 18. september 2025

Svanasöngur á Brekku

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Fyrir rétt rúmum 150 árum andaðist skáldið Hjálmar Jónsson. Hann lést á beitarhúsunum á Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði 25. júlí 1875, „helvítis greni“ eins og hann mun hafa kallað þau híbýli. Hann var svo jarðsettur skömmu síðar á Miklabæ í Blönduhlíð við hlið Guðnýjar konu sinnar. Hjálmar fæddist á Hallandi á Svalbarðsströnd í Eyjafirði (rétt sunnan við munna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin) einhvern tíma árs 1796, það er ekki alveg vitað upp á hár hvenær það var. Hann vantaði því ár í áttrætt þegar hann lést.

Skáldið óþekkta

Þegar Hjálmar dó höfðu engin hans helstu kvæða (nema með einni mikilvægri undantekningu!) birst á prenti. Raunar höfðu aðeins átta kvæði hans verið prentuð. Öll birtust þau nema eitt í Akureyrarblöðunum og megnið af þeim erfikvæði, ort að beiðni annarra. Utan Skagfirðinga, Húnvetninga og Eyfirðinga þekkti nánast enginn til Bólu-Hjálmars sem skálds. Raunar er orðið „skáld“ hér full hátimbrað því hann var fyrst og fremst þekktur af alþýðu manna af níðskældni og hagmælsku, en það átti svo sem við um marga fleiri. Lausavísur hans voru fleygar og kvæði gengu einnig milli manna í uppskriftum, en þær voru að mestu bundnar við fyrrnefndar sveitir.

Það er ekki fyrr en að honum látnum að kvæði hans koma út. Fyrsta útgáfan kom út á Akureyri 1879 og henni fylgdi síðan úrval í útgáfu Hannesar Hafstein 1888. Það var þá fyrst að almenningur uppgötvaði perlur á borð við Feig Fallandason eða Fagur er hann fjörður Eyja og Hjálmar varð að viðurkenndu skáldi og pósti í bókmenntasögunni.

Dáið við kröm

Bólu-Hjálmar fer að Brekku framan úr Lýtingsstaðhreppi á fardögum 1875. Á Brekku bjuggu þá hjónin Bjarni Bjarnason og Rannveig Sigurðardóttur. Hjálmar hafði þá verið á Starrastöðum í um tvö ár og liðið vel. Í sögu hans sem Símon Dalaskáld og Brynjólfur frá Minna-Núpi settu saman er sagt að hann hafi þá „grátið eins og barn“, en fara varð hann því hjónin á Starrastöðum höfðu brugðið búi og enginn þar í nánd vildi taka við honum.

Hjálmar reiddi handritin sín í poka á skjóttri meri sem Guðrún dóttir hans teymdi. Þá var orðið svo um mælt, og mun velgjörðamaður hans, Jón Sveinsson, prestur á Mælifelli (sonur Sveins Pálssonar náttúrufræðings og læknis), hafa beitt sér fyrir því í félagi við fleiri norðanlands, að kostuð yrði útgáfa á verkum hans. Annan ágúst 1874 hafði verið undirritaður samningur þess efnis á Mælifelli. Hjálmar hafði hafist handa um veturinn við hreinritun kvæða sinna og þátta og var þrátt fyrir að vera krepptur af gigt og elli kominn vel áleiðis.

Á leiðinni að beitarhúsunum sem eru í brekkunni neðan við Vatnsskarð, niður og austur undan minnisvarðanum um Stephan G. Stephansson á Arnarstapa og allir sem aka um þjóðveginn sjá, kom Hjálmar í Víðimýri, næsta bæ við Brekku og þá í þjóðbraut því gamla leiðin um Vatnsskarð lá þar um hlað, talsvert sunnar en núverandi þjóðvegur.

Þar bjó þá Jón Árnason, nafnkunnugt skáld á sinni tíð. Jón heilsaði Hjálmari með þessari nöturlegu vísu:

Hugsaðu þér að hafa dvöl
í húsunum frá Brekku
og deyja þar við kröm og kvöl
kjörin við óþekku.

Hjálmar mun ekki hafa látið sér neitt bregða, en svaraði með annarri vísu. Lokalína hennar er: „Ekki getur Hjálmar dáið.“

Eitthvert sannleikskorn er í þessu vísuorði. Jón Árnason var það mikið númer að hann átti kvæði í stærstu sýnisbók íslenskrar kvæðalistar þessa tíma, þriðju útgáfu Snótar sem kom út 1877 (fyrsta útgáfa 1865 þar sem Jón Thoroddsen sýslumaður og skáldsagnafrömuður var aðalspaðinn). Auðvitað var ekki eitt einasta kvæði eftir Hjálmar Jónsson þar og hans að engu getið. Ekki þarf að orðlengja að nú man enginn Jón Árnason á Víðimýri.

Mótbyr

Öll þekkjum við sögur af „erfiðu fólki“ og hvernig samferðamenn þeirra sem þann stimpil fá geta tekið sig saman um andróður gegn því. En það mótlæti sem Hjálmari mætti í því sem nú er kallað „nærumhverfi“ sýnist nú einni og hálfri öld eftir andlát hans vera nokkuð keyrt fram úr hófi.

Þegar Hjálmar bjó á Nýjabæ í Austurdal í Skagafirði andskotuðust nábýlingar hans stöðugt í honum, ekki síst bændurnir á Ábæ og á Merkigili. Raunar hélt Hjálmar því fram að Guðmundur á Ábæ hefði elt sig með það í hyggju að drepa sig, þótt sú atburðarás sé nokkuð málum blandin. En hámarki náði samstuð Hjálmars og nábýlinga þegar hann var sakaður um sauðaþjófnað og húsleit gerð á Bólu á jólaföstu 1838 í rannsóknarskyni vegna þeirra ásakana. Þar virðist hafa verið gengið lengra um skör fram en löglegt var og að lokum sannaðist heldur ekkert á Hjálmar eða heimilisfólk hans. Í kjölfar húsleitarinnar kviknaði svo í bænum á Bólu, sem Hjálmar kenndi því að húsleitendur hefðu farið óvarlega með eld. Það voru því ansi nöpur jól í brunarústunum á Bólu 1838.

Akrahreppur grey

Eina kvæði Hjálmars sem ekki var ort að beiðni annarra og birtist á prenti á meðan hann var enn á lífi er hið kunna kvæði um hreppsnefnd Akrahrepps sem síðar hlaut titilinn Umkvörtun, þótt upphaflegi titillinn hafi raunar verið „Svo er að segja sögu sem tilgengur“. Það birtist í Norðanfara á Akureyri 12. nóvember 1870. Akrahreppur er nú ekki lengur við lýði og er minning ein en ætli nokkur hreppur hafi fengið yfir sig álíka skammir nokkru sinni. Kvæðið var ort af því tilefni að eftir morðtilaun (meinta) og ásakanir um þjófnað (sem aldrei sannaðist) hafnaði hreppsnefndin beiðni Hjálmars um sveitastyrk.

Illa mig bar á óláns stund
í þenna hrepp á fyrri árum,
hvar nú finnast engin mannleg mund
mínum sem líkni gráum hárum.
Í eymd minni ég svo út af dey
ei skal tefjast við kveðjur vina:
enn haf þú nú Akrahreppur grey,
heila þökk fyrir meðferðina.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f