Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sumarið er fyrir gróður- og jarðvegsmælingar
Á faglegum nótum 16. október 2025

Sumarið er fyrir gróður- og jarðvegsmælingar

Höfundur: Elva Björk Benediktsdóttir og Sigurlaug Birna Guðmundsdóttir, sérfræðingar hjá Landi og skógi

Ísland er aðili að Parísarsáttmálanum og því fylgja þær skuldbindingar að við þurfum að geta gert grein fyrir áhrifum landnotkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er koldíoxíð fyrirferðarmest, en einnig metan og hláturgas. Þekking okkar, á bæði kolefnisforða og því hvernig losun þessara gastegunda er fyrir mismunandi landgerðir, hefur verið brotakennd og ekki fullnægjandi til að uppfylla þær kröfur sem til okkar eru gerðar.

Land og skógur hefur umsjón með fjölda rannsókna sem hafa það að markmiði að bæta þetta. Þar er lögð áhersla á að safna gögnum um kolefnisforða í jarðvegi og losun gróðurhúsalofttegunda – eða bindingu. Frá árinu 2021 hafa staðið yfir viðamiklar rannsóknir til að afla þessarar þekkingar fyrir fjölbreyttar landgerðir, bæði beitilönd á mólendi og graslendi, einnig fyrir framræst og óraskað votlendi. Þessi vinna felst í gróðurgreiningum, gróður- og jarðvegssýnatökum í sérstökum mælireitum sem og beinum mælingum á gasflæði. Gasflæðimælingarnar fara nú fram á 43 stöðum um allt land og mælingar fara að jafnaði fram vikulega. Með þessu fæst góð yfirsýn yfir hvað á sér stað og hvernig umhverfisþættir á borð við veðurfar, gróðurfar, ástand gróðurs og jarðvegs hafa áhrif á t.d. kolefnisbúskap lands. Yfir 100 nýir mælireitir fyrir gróður- og jarðvegsmælingar hafa verið lagðir út í sumar og sýnum safnað. Þau gögn eru notuð til að meta kolefnisforða og breytingar á honum.

Í sumar hafa 12 aðilar sinnt þessum rannsóknum, bæði fast starfsfólk stofnunarinnar og svo 8 háskólanemar og nýútskrifaðir náttúrufræðingar í sumarstarfi. Land og skógur á einnig í miklu samstarfi við Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Austurlands og Náttúrustofu Suðausturlands í tengslum við þessi verkefni og áætlar að auka slíkt samstarf í framtíðinni enda mikilvægt að nýta og efla sérfræðinga utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi gögn veita okkur mikilvægar upplýsingar um ástand lands og breytingar á því. Þær geta nýst við skipulag landnýtingar og einnig til að forgangsraða landi þegar kemur að endurheimt. Aðalmarkmiðið er samt sem áður að safna gögnum til að uppfylla þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist vegna Parísarsáttmálans. Eftir því sem gagnasafnið eykst með hverju ári, skýrist myndin af ástandi landsins. Þetta hefur það meðal annars í för með sér að tölur fyrir landnotkun í loftslagsbókhaldinu breytast ár frá ári meðan á þessari vinnu stendur. Í sumum tilfellum kemur í ljós að losun hefur verið ofmetin en í öðrum hefur hún verið vanmetin. Þess má þó geta að við hverja breytingu í bókhaldinu er losun og binding bakreiknuð aftur til 1990, til að tryggja að breytingar í kolefnisbúskap í bókhaldinu stafi af raunverulegum breytingum, ekki bara bætingu á gögnum.   

Hver heildarniðurstaðan verður á eftir að koma í ljós en hafa verður í huga að náttúran er síkvik og því mun þurfa að endurskoða þessa þætti reglulega.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...