Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Fjóla Signý Hannesdóttir, rófubóndi í Stóru-Sandvík.
Fjóla Signý Hannesdóttir, rófubóndi í Stóru-Sandvík.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 25. mars 2025

Stöðug og skilvirk fræframleiðsla

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Íslenska gulrófan er gjarnan nefnd Sandvíkurrófan, eftir bænum Stóru-Sandvík – rétt vestan við Selfoss. Þar er eina fræframleiðslan sem eftir er sem þjónar gulrófnabændum á Íslandi.

Nýlega fékk Fjóla Signý Hannesdóttir rófubóndi þróunarstuðning til að betrumbæta aðstöðu sína til fræframleiðslunnar.

„Styrkumsóknin kom í kjölfar þess að tjón varð á gróðurhúsinu veturinn 2023 sem ég nota við fræframleiðsluna. Húsið í raun bara kramdist undan snjóþyngslunum. Ég ætla að reisa nýtt gróðurhús og bæta aðstöðuna alla.“

Fræræktunin færðist inn í gróðurhús
Hannes Jóhannsson að klippa niður rófufræ að hausti.

Fjóla kom inn í búskapinn með Hannesi Jóhannssyni, föður sínum, fyrir allnokkrum árum og tók alveg við af honum árið 2020, en hann féll frá árið 2023. „Pabbi ræktaði

fræin alltaf úti áður, en þegar við byrjuðum að framleiða þau inni í gróðurhúsi náðum við miklum framförum í bæði framleiðslumagni og gæðum,“ segir Fjóla, en faðir hennar hóf gulrófurækt og fræframleiðslu fyrir um 54 árum.

„Til að viðhalda gæðum á fræjunum og forðast úrkynjun þarf talsverða uppskeru og ég er að fá kannski í kringum 15–20 tonn af rófum ár hvert og úr því magni næ ég því úrvali sem ég þarf til framræktunarinnar. Ég handvel rófurnar sem ég vil nota til að rækta fræin af og það geta þá verið plöntur sem eru fljótsprottnar eða hafa aðra eftirsóknarverða eiginleika eins og útlit. Þessar plöntur vel ég og planta í gróðurhúsið í byrjun maí. Um haustið klippi ég þetta niður og set í taupoka. Þurrka svo fræið í nokkra mánuði og hreinsa það svo. Þá er uppskeran tilbúin næsta vor til að sá í moldina.“

Fjóla segir að Sandvíkurfræið hafi farið í gegnum hefðbundið ferli og verið metið sem sérstakt yrki af gulrófum. Það sé að finna í fræhvelfingunni á Svalbarða, þar sem fræ af mikilvægum nytjaplöntum eru varðveitt. 

Einstök íslensk gulrófa
Rófufræin má m.a. kaupa hjá Fjólu

„Já, gulrófan okkar þykir vera einstök hvað varðar bragðgæði og vegna þess hversu safarík hún er,“ segir Fjóla spurð um hvort það standist sem stundum heyrist að hún beri af í samanburði við önnur evrópsk yrki. „Við höfum verið að selja frá okkur meira af fræjum til nágrannalanda okkar; Noregs, Finnlands, Grænlands – og meira segja Búlgaríu. Þetta er ekki í stórum stíl, en spyrst út meðal bænda sem eru áhugasamir um svona ræktun. Það þótti merkilegt hjá Grænlendingi sem kom í fyrra til okkar að okkar rófur vaxi jafnvel í fjögurra stiga hita. Það verður merkilegt að fá fréttir þaðan af því hvernig ræktunin gekk, þar sem aðstæður eru mjög krefjandi.

Annars er ástæðan fyrir því að stundum er talað um rófur frá meginlandi Evrópu sem eingöngu skepnufóður, að í seinni heimsstyrjöld varð rófan mjög vinsæl vegna þess hversu næringarrík hún er og hversu vel hún geymdist yfir veturinn. Hún var svo í kjölfarið stimpluð sem eins konar fátækra manna matvæli, vegna krafna um lágt kílóverð, og ímynd hennar féll,“ segir Fjóla.

Vanrækt rófa í Evrópu

Upp úr því hafi rófan verið vanrækt sem nytjaplanta til manneldis, hvorki hugsað nægilega vel um hana í sjálfri ræktuninni né meðhöndluð rétt eftir uppskeru, en hún sé þrátt fyrir allt frekar viðkvæm þegar kemur að því að ganga frá henni til geymslu. „Það þarf að breiða vel yfir hana og hún þarf að vera í köldum kæli, ef ekki er gætt að þessum atriðum í ræktun og geymslu getur hún orðið beisk og þurr,“ bætir Fjóla við.

Hún telur að umfang rófuræktunar á Íslandi sé að aukast aftur. Hún merki það á því hversu mikið hún selji af fræjum og hversu mikið sé til af rófum í landinu. „Í ár klárast rófurnar snemma og bændurnir ætla að rækta meira. En almennt má segja að þróunin í þessu sé svipuð og í öðrum búgreinum, að bændum fækkar en umfang hvers og eins stækkar.“

Mynd af því þegar frærófum hefur verið plantað út í gróðurhús

Frærófurnar í blóma.

Blómin breytast í skálpa, eða fræbelgi, sem eru klipptir niður og settir í taupoka. Pokarnir eru svo hengdir upp inni til að þurrka skálpana í nokkra mánuði og að lokum hreinsað í febrúar til mars.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...