Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / HKr.
Skoðun 5. mars 2020

Stjórnarskipti hjá Bændasamtökum Íslands

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson

Ágætu lesendur. Á nýafstöðnu Búnaðar­þingi, sem haldið var á Hótel Sögu 2. og 3. mars, var ég kjörinn formaður Bændasamtaka Íslands. Vil ég þakka þann stuðning sem ég hlaut við kosningu á þinginu. Við sama tækifæri var einnig kosin ný stjórn þar sem konur eru í meirihluta stjórnarmanna, alls þrjár af fimm.

Er þetta í annað sinn sem stjórn Bændasamtakanna er að meirihluta skipuð konum.

Innan nýju stjórnarinnar er tenging inn í mismunandi búgreinar sem gerir það að verkum að tenging við grasrótina verður betri. Einnig voru kosnir fimm fulltrúar til vara og mun stjórn nýta sér það að funda í upphafi með öllum varamönnum til að móta framtíðarskipulagið svo að flestar raddir heyrist og mismunandi sjónarmið komi fram. Ég vil þakka fráfarandi stjórn og formanni fyrir vel unnin störf fyrir Bændasamtökin.

Fram undan eru spennandi tímar að móta framtíðarfyrirkomulag á skipulagi Bændasamtakanna. Á þinginu var samþykkt að vinna að breytingum á félagskerfi bænda. Þar kemur fram að bændur munu eiga beina aðild að Bændasamtökunum. Það er von mín að við sem heild munum leiða þessa vinnu inn í framtíðina með hagsmuni bænda í fyrirrúmi.

Á Búnaðarþingi var einnig samþykkt að aðildargjald til samtakanna yrði veltutengt. Það var mikill samhljómur meðal bænda að tryggja fjármagn til að standa straum að rekstri samtakanna. Þar tel ég að bændur hafi sýnt með þeirri samþykkt að nauðsynlegt er að standa vörð um sameiginlega hagsmunagæslu. Mikilvægt er að kynna sem fyrst nýtt fyrirkomulag á skipuritinu og aðkomu bænda að samtökunum svo sem breiðust sátt verði um fyrirkomulagið til framtíðar. Búnaðarþingið gaf nýrri stjórn gott veganesti til næstu ára með fjölmörgum tillögum á ályktunum sem afgreiddar voru á þinginu.
Vinnum saman að framtíðarstefnu

Í ræðu Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við setningu Búnaðarþings kom fram að stefnt væri að mótun landbúnaðarstefnu fyrir íslenska þjóð. Það er nauðsynlegt að bændur fái að koma að þeirri vinnu svo sátt megi ríkja um þá stefnu. Jafnframt er unnið að gerð matvælastefnu sem er á forræði forsætisráðuneytisins, en aðkoma Bændasamtakanna hefur verið að henni. Nauðsynlegt er að landbúnaðarstefna sé í takt við matvælastefnuna. Það er von mín að með þessu samtali bænda og ráðherra megi standa vörð um matvælaöryggi og sjálfbærni þjóðarinnar í matvælum til framtíðar.

Umhverfismál sett á oddinn

Það er mikilvægt að horfa einnig til kolefnissporanna með framleiðslu innanlands á móti innflutningi búvara. Búnaðarþingið samþykkti umhverfisstefnu fyrir landbúnaðinn sem heild og þar sýna bændur að þeir láta umhverfismál sig varða. Í nýendurskoðuðum búvörusamningi er stefnt að því að landbúnaðurinn verði kolefnishlutlaus 2040.

Snerpum á leikreglum

Landbúnaður á oft í vök að verjast í umræðu um matvælaverð og tollamál. Nauðsynlegt er að taka upp viðræður við ríkisvaldið um stöðu tollverndar á landbúnaðarvörur og skýra þær leikreglur sem þar eru svo íslenskir bændur geti unnið að framtíðarstefnu í sínum rekstri. Í mínum huga eru gríðarleg sóknarfæri í íslenskum landbúnaði ef framtíðarsýnin er skýr. Nauðsynlegt er að skoða alla þætti sem tengjast landbúnaði svo hann fái tækifæri til að þróast til framtíðar með breyttum neysluvenjum og áherslum neytenda. Og þar er ekki síður nauðsynlegt að horfa til akuryrkju sem á mikla möguleika á Íslandi.

Tryggjum nýliðun í landbúnaði

Mér er mjög hugleikið hvernig við stöndum vörð um hinar dreifðu byggðir landsins. Ég tel nauðsynlegt að Bændasamtökin taki upp viðræður við ríkið um það hvernig við tryggjum nýliðun í landbúnaði. Ungt fólk þarf að geta tekið við eða hafið búskap. Þar er ekki eitt svar til en ég tel að þetta sé mál sem verði að taka á og það sem fyrst.

Eignarhald á bújörðum og meðferð á ríkisjörðum

Umræða um eignarhald einstaklinga á fjölmörgum jörðum í dreifbýli var rædd á Búnaðarþingi. Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem nú er í umsagnarferli þar sem á að taka á þeim málum. Ég tel ekki síður mikilvægt að ríkið skilgreini stefnu um hvað gera eigi við ríkisjarðir því þær eru fjölmargar og standa ósetnar og hafa mjög mikil áhrif á búsetumynstur í hinum dreifðu byggðum. Það er hverju byggðarlagi nauðsynlegt að hafa búsetu á jörðum með fjölbreyttri starfsemi sem eykur mannlíf og umsvif í dreifbýlinu. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...