Evrópa tapar náttúru- og landbúnaðarsvæðum mun hraðar en áður var talið undir m.a. vegi, hús og golfvelli. Ný rannsókn sem náði til 30 landa, yfir 96% af 39 löndum EES-svæðisins, sýnir þetta.
Evrópa tapar náttúru- og landbúnaðarsvæðum mun hraðar en áður var talið undir m.a. vegi, hús og golfvelli. Ný rannsókn sem náði til 30 landa, yfir 96% af 39 löndum EES-svæðisins, sýnir þetta.
Mynd / Pixabay
Utan úr heimi 26. nóvember 2025

Steypt yfir Evrópu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á hverju ári tapar Evrópa 1.500 km² af náttúru og ræktarlandi undir manngerð svæði svo sem vegi, golfvelli, húsbyggingar og verslanamiðstöðvar.

Á tímabilinu janúar 2018 til desember 2023 tapaði Evrópa um það bil 9.000 km² af náttúru og ræktarlandi. Þetta jafngildir tæplega 30 km² sem eyðileggjast í hverri viku, sem jafngildir 600 knattspyrnuvöllum á dag.

Eyðilegging náttúru er meirihluti þessa taps, um 900 km² á ári. Rannsóknir sýna jafnframt að um 600 km² landbúnaðarlands hverfa árlega, með alvarlegum afleiðingum fyrir fæðuöryggi á meginlandi Evrópu.

Þessar tölur sýna einnig að óbyggt land í Evrópu er að hverfa allt að einum og hálfum sinnum hraðar en áður var talið. Þannig missir álfan hratt græn svæði sem áður veittu dýralífi skjól, voru fæðuuppspretta og bundu kolefni úr andrúmslofti. Ekki aðeins glatast dýrategundir og upprunalegar plöntur heldur jafnframt mikilvægar náttúrulegar varnir gegn öfgakenndu veðurfari og hækkandi hitastigi. Fleiri byggingar valda meiri hita og meiri flóðahættu, á sama tíma og Evrópa, ásamt norðurslóðum, hlýnar hraðar en nokkur önnur heimsálfa.

Rannsóknin sem leiddi þetta í ljós var gerð af The Guardian (Arena for Journalism in Europe), norsku náttúrurannsóknastofnuninni (NINA), norsku sjónvarpsstöðinni NRK og öðrum fréttastofum í ellefu löndum um alla Evrópu. Með því að nota gervitunglamyndir, gervigreind og fréttaskýrslur af vettvangi magngreindi rannsóknin hversu mikið land væri að tapast.

Ekkert Evrópuland undanskilið

Þó að tapið nái yfir alla Evrópu, þá eru mynstur í gögnunum, að því er kemur fram í umfjöllunum Guardian og EUObserver um málið. Í Skandinavíu verða skógar sérstaklega fyrir barðinu á náttúrueyðingu. Í Suður-Evrópu eru strandsvæði að hverfa. Tap á ræktarlandi er algengara í MiðEvrópu, í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku, þar sem náttúran hefur hartnær verið fullnýtt vegna fyrirliggjandi eða þegar unninna framkvæmda.

Rannsakendur komust að því að fjögur af hverjum fimm tilfellum byggingarframkvæmda áttu sér stað innan þéttbýlissvæða sem þegar höfðu umbreyst vegna athafna manna. Þar á meðal eru almenningsgarðar og græn svæði í þéttbýli, sem eru nauðsynleg fyrir afþreyingu, flóðastjórnun og skugga þegar sumarhiti hækkar.

Þeir fundu einnig mörg dæmi um dýrmæta náttúru sem var hagnýtt í þágu atvinnustarfsemi, undir lúxushús og ferðaþjónustu. Langalgengasta íhlutunin var þó að byggja húsnæði eða vegi.

Tyrkland og Pólland tapa mestu

Öll Evrópulöndin eru að missa náttúruog landbúnaðarsvæði sín, en sum tapa meiru en önnur. Tyrkland er langefst á listanum með 1.860 km² af náttúru og ræktarlandi sem tapaðist á milli 2018 og 2023, svæði sem er stærra en allt stórborgarsvæði London og um fimmtungur af heildarnáttúrutapi Evrópu á umræddu tímabili. Pólland er næst með yfir 1.000 km² tap, þar næst koma Frakkland sem tapaði 950 km² og Þýskaland 720 km².

Ef leiðrétt er út frá stærð landa koma Holland og Belgía, sem eru minni en þéttbýlli, verst út. Þessi lönd byggja á hærra hlutfalli af heildarflatarmáli sínu á hverju ári samanborið við stór lönd með færri íbúa, eins og Noregur, Svíþjóð eða Finnland.

Sé hins vegar leiðrétt út frá fjölda íbúa, þá standa Skandinavíulöndin sig verr. Byggingarframkvæmdir Noregs þýða t.d. tap um það bil sex fermetra af náttúru og ræktarlandi á hverju ári á hvern íbúa. Í Sviss er tap á mann tífalt minna. Ísland er sagt hafa tapað 8 km² á tímabilinu.

Í Portúgal mátti sjá dæmi um hvernig 300 ha af vernduðum sandöldum rétt sunnan við Lissabon höfðu verið teknir undir nýjan lúxus-golfvöll sem auglýstur er sem dvalarstaður á „síðustu ósnortnu Atlantshafsströnd Suður-Evrópu“. Í Tyrklandi hefur votlendið Çaltılıdere í Izmir-héraði við Eyjahafsströndina, mikilvægt svæði fyrir farfugla, verið sett undir meira en ferkílómetra af steinsteyptum grunni fyrir smábátahöfn til að gera við og byggja lúxussnekkjur.

„Landtap vegna þróunar er einn helsti drifkrafturinn fyrir tapi óbyggða og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. En við erum líka að missa ræktarland og afkastamikið land þegar borgir okkar stækka út í græna beltið og landbúnaðarland,“ segir Steve Carver, prófessor í óbyggðafræði við Háskólann í Leeds, í samtali við Guardian.

Kerfið keyrt í hrun

„Ef við leyfum stöðugt þessum smærri töpum á náttúru að eiga sér stað, eigum við á hættu að keyra kerfið til algjörs hruns. Við erum bókstaflega að stofna heilsu okkar og öryggi í hættu,“ sagði Guy Pe’er, náttúruverndarlíffræðingur hjá Helmholtz-miðstöðinni fyrir umhverfisrannsóknir og þýsku miðstöðinni fyrir samþættar rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, í samtali við EUObserver.

Árið 2021 setti ESB fram það markmið að vega upp á móti landi sem tekið væri undir uppbyggingu með jafnmiklu svæði til endurheimtar náttúrunnar annars staðar. Stefnan; „engin nettó landtaka fyrir árið 2050“ er ekki bindandi og, eins og rannsóknin sýnir, hefur enn ekki tekist að draga sem neinu nemur úr byggingarframkvæmdum á áður óbyggðu landi.

Hingað til hefur mat á náttúrutapi Evrópu byggst á opinberum tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA), þar sem notuð er aðferðafræði sem aðeins greinir stórfelld byggingaverkefni út frá gervitunglamyndum. Aðferðafræði sem NINA þróaði og kallast Frá grænu til grás, getur hins vegar greint mun minni mannvirki, svo sem þrönga vegi og járnbrautir.

Greiningin náði til 30 landa, sem ná yfir 96% af 39 löndum EES-svæðisins. Öll lönd sem skoðuð voru eru að missa náttúru- og landbúnaðarsvæði. Sjá nánar á vefnum greentogrey.eu. Til stendur að halda rannsókninni áfram og þá á heimsvísu. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f