Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Frá  einum af opnum samráðsfundum sem innviðaráðherra hélt í öllum landshlutum í ágúst.
Frá einum af opnum samráðsfundum sem innviðaráðherra hélt í öllum landshlutum í ágúst.
Mynd / Stjórnarráðið
Skoðun 2. október 2025

Sterkir innviðir — sterkt samfélag

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson

Í nýliðnum ágúst átti ég milliliðalaust samtal við íbúa og sveitarstjórnarfólk á opnum samráðsfundum í öllum landshlutum. Þar var fjallað um þá málaflokka sem eru á mínu borði: samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál, fjarskipti og stafræna innviði.

Fundirnir voru vel sóttir og umræðurnar voru líflegar, hreinskiptar og afar gagnlegar. Þetta voru samtöl um tækifæri og áskoranir eins og þær blasa við íbúum og sveitarstjórnarfólki dags daglega.

Skýrt ákall  

Ákallið á fundunum var skýrt. Landsmenn vilja öfluga og áreiðanlega innviði. Þeir eru grunnstoðir nútímasamfélags og nauðsynleg forsenda fyrir búsetu og atvinnuþróun í dreifðum byggðum. 

Það kom ekki á óvart að samgöngumál voru ofarlega á baugi. Rætt var um vegakerfið, sem víða er komið til ára sinna. Fólk talaði um slitna vegi sem verða ófærir í leysingum, um einbreiðar brýr sem eru hættulegar og þola ekki þungflutninga og hamla atvinnulífi, og um nauðsyn þess að fá bundið slitlag á fjölfarna malarvegi. Krafa um áreiðanlega vetrarþjónustu var hávær. Á landsbyggðinni er ekki sjálfgefið að komast á milli staða yfir vetrarmánuðina og það hefur bein áhrif á öryggi íbúa, skólasókn barna, atvinnusókn og rekstur fyrirtækja.

Þá komu fram ýmsar tillögur frá heimamönnum. Ein þeirra fólst í því að hætta alfarið snjómokstri á höfuðborgarsvæðinu í heilan sólarhring, til þess að kanna hvernig borgarbúum líkaði það fyrirkomulag. Þótt hugmyndin hafi verið sett fram á léttu nótunum speglar hún þann aðstöðumun sem fólk upplifir oft á milli landshluta.

Fjarskiptamál voru annað stórt umræðuefni. Nútímasamfélag, og ekki síst nútíma landbúnaður og atvinnulíf, krefst stöðugra háhraða fjarskiptatenginga. Bent var á að ófullnægjandi farsímasamband á vegum þar sem skólabílar aka daglega skapar augljósa öryggisáhættu. Einnig kom fram að íbúar þurfa í einhverjum tilvikum að ferðast á milli staða til að tengjast grunnþjónustu á borð við rafræn skilríki.

Þótt staða Íslands sé góð í alþjóðlegum samanburði dugar það skammt fyrir þá sem búa ekki við tryggt samband. Þess vegna er markmiðið að ljúka fulldekkun farnets á stofnvegum á láglendi á þessu kjörtímabili og tryggja stöðugt samband þar sem það er nú slitrótt. Það er mikilvægt öryggismál.

Þessir fundir eru dýrmætir. Þeir eru bein tenging við hversdagsleikann sem stefnumótun stjórnvalda þarf að taka mið af. Að heyra reynslusögur og sjónarmið íbúa af eigin raun gefur málum aukið vægi. Ég tók með mér fjölmargar ábendingar og góð ráð sem nú eru til skoðunar í ráðuneytinu. 

Áskoranir í innviðamálum

Eins og heimamönnum á samráðsfundunum leiddist ekki að benda mér á, það er ekki nóg að tala um vandamálin. Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins heyrir ákallið og hefur sett fram skýra stefnu um uppbyggingu innviða í landinu.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ríkisstjórnin muni auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt. Fjárfesting í innviðum er öruggasta leiðin til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarinnar sem er undirstaða íslenska velferðarkerfisins. 

John F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, komst vel að orði þegar hann sagði: „Bandaríkin eru ekki rík þjóð með góða vegi, heldur eru Bandaríkin rík þjóð vegna góðra vega.“

Því miður hefur þessi málaflokkur verið vanræktur hér á landi. Við blasir vegakerfi sem fámenn þjóð í stóru landi byggði af krafti á sínum tíma en er víða komið til ára sinna. Fjárfesting í samgönguinnviðum hefur verið einna minnst meðal OECD-ríkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Árlegt framlag hefur verið um 0,5-0,6% af VLF en þyrfti að lágmarki að vera 1%.

Í samkeppnishæfnisskýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins voru íslenskir samgönguinnviðir metnir einn veikasti hlekkurinn í samkeppnishæfni landsins. Stöndum við þar öðrum Norðurlandaþjóðum töluvert að baki.

Afleiðingin er uppsöfnuð viðhaldsskuld sem nemur hundruðum milljarða króna. Samkvæmt mati Vegagerðarinnar eru aðeins um 35% burðarlaga og 37% slitlaga í vegakerfinu í góðu ástandi. Á sama tíma hefur álag á vegakerfið stóraukist hin síðari ár, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna og stóraukinna þungaflutninga.  

Þetta er mikið áhyggjuefni, enda er þjóðvegakerfið ein verðmætasta eign þjóðarinnar og er metið á um 1.200 milljarða króna að endurstofnvirði og endurstofnvirði sveitarfélagaveganna er um 250 – 310 milljarðar króna. Það er dýrkeypt stefna að fjársvelta og vanrækja viðhald á einni stærstu eign þjóðarinnar, því vandinn vex undir yfirborðinu. Það er eins og að hunsa leka heima hjá sér. Á endanum ertu ekki að fást við leka, heldur fúnar sperrur, ónýta einangrun og myglu. Einfalt viðhaldsverkefni getur allt í einu orðið gríðarlega kostnaðarsamt.

Horft fram á veginn

Ríkisstjórnin samþykkti í sumar að veita strax þriggja milljarða króna viðbótarframlag til viðhalds á vegakerfinu. Það er um 25% aukning miðað við meðalframlög síðustu ára. Framkvæmdir hafa tekist vel og þegar hefur borist jákvæð endurgjöf frá íbúum um land.

Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 er gert ráð fyrir enn frekari sókn í málaflokknum. Áætlað er að árleg hækkun framlaga til viðhalds muni nema allt að 5,5 milljörðum króna. Þetta jafngildir um 45% aukningu frá því sem verið hefur. Með þessu munum við í fyrsta skipti í langan tíma ná því viðmiði sem Vegagerðin telur nauðsynlegt til að stöðva frekari uppsöfnun viðhaldsskuldar, eða um 20 milljarða króna á ári.

Ég hef skipað starfshóp um strandsiglingar sem mun leggja fram aðgerðaáætlun um leiðir til að efla strandflutninga. Markmiðið er að minnka álag á vegi landsins. Ísland er eyja og mikilvægt að við nýtum þann kost til hins ítrasta.  

Við horfum til stærri verkefna sem munu gjörbreyta samgöngum. Framkvæmdir við nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót eru á lokametrunum og stytta Hringveginn þar um tólf kílómetra. Undirbúningur nýrrar Ölfusárbrúar er í fullum gangi. Til lengri tíma litið horfum við til risaverkefna sem munu móta framtíð íslensks samfélags. Þar stendur upp úr bygging Sundabrautar sem er þjóðhagslega hagkvæmasta framkvæmd Íslandssögunnar.

Þá hefur ríkisstjórnin sett sér það markmið að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur verið í jarðgangagerð frá því að Dýrafjarðargöng voru opnuð árið 2020. Að öllu óbreyttu er stefnt er að því að nýjar jarðgangaframkvæmdir hefjist árið 2027 af fullum þunga. Forgangsröðun þeirra verður kynnt í nýrri og metnaðarfullri samgönguáætlun á haustþingi.

Metnaðarfull markmið kalla einnig á nýja nálgun í fjármögnun og í vor hófst stefnumótunarvinna um mögulega stofnun innviðafélags. Markmiðin með slíku félagi eru skýr. Við viljum tryggja aukna samfellu og fyrirsjáanleika í útgjöldum ríkisins til málaflokksins. Við stefnum að því að lágmarka áhættu og fjárhagskostnað ríkissjóðs og um leið efla gæði í ákvarðanatöku og verkefnaþróun. Og síðast en ekki síst viljum við opna á fjármögnun frá langtímafjárfestum, á borð við lífeyrissjóði, þar sem það er fýsilegt.

Strandveiðar og 5,3% potturinn

Eitt af þeim málum sem snertir byggðarlög víða um land er hið svokallaða byggðakerfi í sjávarútvegi, oft nefnt 5,3% potturinn. Þessi málaflokkur var færður yfir til innviðaráðuneytisins um mitt sumar og við hófum strax vinnu við að taka kerfið til gagngerrar skoðunar.

Markmið mitt er að skapa einfaldara, gagnsærra og skilvirkara kerfi til framtíðar. Eins og Ríkisendurskoðun benti á í skýrslu sinni á síðasta ári hafa markmiðin með pottunum (línuívilnun, rækju- og skelbótum og almennum byggðakvóta) verið óljós. Við þurfum að tryggja að þær aflaheimildir sem ráðstafað er í þessum tilgangi skili raunverulegum árangri í viðkomandi byggðarlögum. 

Ég hef átt góða fundi með hagaðilum víðsvegar um land til að skilja betur þeirra stöðu og áhrif kerfisins á rekstur þeirra og samfélögin. Greiningarvinna á kerfinu er í fullum gangi og ég vænti þess að niðurstöður liggi fyrir í síðasta lagi um áramót. Við munum hraða vinnunni eins og kostur er. Ég geri mér fulla grein fyrir því að óvissa er erfið fyrir þau fyrirtæki og það starfsfólk sem treystir á þessar heimildir.

Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar er að tryggja strandveiðar í 48 daga. Við erum að skoða hvernig hægt er að ná því markmiði samhliða því að tryggja byggðaleg áhrif annarra þátta kerfisins. Þetta er flókið viðfangsefni. Annars vegar er mikilvægi heilsársstarfa og hins vegar er grundvöllur strandveiða sem byggir á jafnræði og atvinnufrelsi, eins og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna undirstrikar. Við þurfum að greina ábatann af núverandi kerfi og tryggja að nýtt fyrirkomulag þjóni markmiðum um eflingu byggða og strandveiða.

Sterk sveitarfélög og ný byggðaáætlun

Öflug uppbygging innviða er forsenda fyrir jákvæðri byggðaþróun, stærri og sterkari sveitarfélögum og bættum lífskjörum í landinu öllu. Efling sveitarstjórnarstigsins er eitt mikilvægasta byggðamálið. 

Ný lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem samþykkt voru í sumar, eru stórt skref í átt að markvissari og réttlátari úthlutun. Á næstu dögum mun ég svo birta í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp til endurskoðunar á sveitarstjórnarlögum, með það að markmiði að styrkja sveitarfélögin enn frekar.

Samráðsfundirnir í ágúst mörkuðu einnig upphafið að endurskoðun á byggðaáætlun, einu mikilvægasta stjórntæki okkar til að efla byggðir landsins. Núgildandi byggðaáætlun felur í sér fimmtán ára framtíðarsýn ásamt fimm ára aðgerðaáætlun um hvert skuli stefna í byggðamálum. Allar 44 aðgerðir núgildandi áætlunar eru komnar til framkvæmda og tíu þegar lokið. Ég mun leggja nýja fimmtán ára áætlun fyrir Alþingi haustið 2026. Í þeirri vinnu verður lögð rík áhersla á víðtækt samráð. Hægt er að taka þátt í því samráði á vef Byggðastofnunar og síðar í samráðsgátt stjórnvalda.

Verkefnið er hafið

Ferðalagið um landið í ágúst var upphafið á samtali sem mun halda áfram. Samtali um hvernig við byggjum upp innviði framtíðarinnar, styrkjum byggðir um allt land og tryggjum öllum landsmönnum jöfn tækifæri, óháð búsetu.

Krafan frá þjóðinni er skýr: Þjóðarátak í uppbyggingu innviða. Ríkisstjórnin mun svara því ákalli. Við erum hér til að bretta upp ermar, sýna árangur í verki og fjárfesta til framtíðar í innviðum sem eru ein verðmætasta eign þjóðarinnar.

Ég vonast til þess að landsmenn upplifi að nú sé sleginn nýr tónn í málefnum innviða á Íslandi.  

Höfundur er innviðaráðherra.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...