Stefnir í metuppskeru
Ein umfangsmesta útiræktun grænmetis á landinu er á Böðmóðsstöðum 4 í Bláskógabyggð og þar stefnir í metuppskeru eftir ótrúlega hagstætt ræktunarsumar.
Auðunn Árnason og Maria Wang búa þar ─ og sonurinn Gabríel hefur látið æ meira til sín taka við ræktunina á undanförnum árum og hyggst taka alfarið við rekstrinum á næstu misserum.
50 tonn af blómkáli
Þeirra stærstu tegundir í ræktun eru blómkál og kínakál. Auðunn segir að misjafn eftir grænmetistegundum hvenær hægt sé að byrja að uppskera og hversu lengi fram á haust ráðlagt sé að bíða. „Við erum að skera blómkál núna til dæmis og það verður að klára það áður en frostið kemur. Þannig að við vonumst eftir að haustið verði gott svo við náum allri uppskerunni.
Annars er óvenjugóð uppskera í öllum tegundum hjá okkur – og þar sem svo langt er liðið á ræktunartímabilið þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það verði mesta uppskera hjá okkur frá upphafi. Við höfum verið með kannski í kringum 35 tonn af blómkáli í meðalári, en núna stefnir í um 50 tonn af blómkáli en reyndar var aðeins meira plantað út. Svo eru hausarnir ívið stærri en vanalega. Það á reyndar við um allt grænmetið og er kannski einu neikvæðu hliðaráhrifin af þessu tíðarfari, en markaðurinn vill síður hausa í stærri kantinum eins og á blóm- og hvítkáli. Þetta er reyndar ekki vandamál í rauðkálinu því þar verða hausarnir aldrei í yfirstærð.
Rauð- og hvítkál uppskorið í október
Auðunn á von á því að venju samkvæmt gangi markaðstími íslenska blómkálsins hratt yfir, því það sé viðkvæmt í geymslu og spretti fljótt úr sér á ökrunum. „Ég vona bara að við íslensku ræktendurnir fáum frið fyrir innflutningnum á meðan. „Reyndar sé ég í verslunum að það er enn verið að flytja inn kínakál í samkeppni við okkur og ég verð að segja að mér finnst það alveg ótrúlegt.“
Í kínakálinu stefnir uppskeran í um 40 tonn sem er nokkuð meira en vanalega á Böðmóðsstöðum. „Þetta er raunar svo mikið magn að ég á ekki von á því að það seljist allt,“ segir Auðunn.
Hann bætir við að ef veðurskilyrði verði áfram góð sé beðið með uppskeru í rauð- og hvítkáli þangað til í október – og reyndar blöðrukálinu líka. Þessar káltegundir þoli mun meira kulda en blóm- og kínakál til dæmis.
Ætla að auka framleiðsluna enn frekar
Á undanförnum fimm árum hefur aukning í framleiðslu verið um 20 prósent á hverju ári á Böðmóðsstöðum – mest í blómkáli og áætlar Auðunn að um helmingur alls blómkáls á íslenskum markaði sér frá þeim.
Ætlar Gabríel að auka heildarframleiðsluna enn meira á næstu árum og prófa fleiri tegundir.
