Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Starfsleyfi Ísteka ehf. til blóðtöku úr fylfullum hryssum rann út 5. október
Starfsleyfi Ísteka ehf. til blóðtöku úr fylfullum hryssum rann út 5. október
Mynd / ghp
Fréttir 10. október 2025

Starfsleyfi Ísteka til blóðtöku runnið út

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Starfsleyfi Ísteka ehf. til blóðtöku úr fylfullum hryssum rann út 5. október. Önnur leyfi til starfsemi fyrirtækisins eru fyrir hendi og því ekki sérstakra áhrifa að vænta að svo stöddu, segja forsvarsmenn.

Ísteka ehf. hefur í áratugi haft leyfi til blóðtöku úr fylfullum hryssum. Fyrirtækið fékk síðast leyfi árið 2022 eftir útgáfu reglugerðar nr. 900/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum og gilti það til 5. október sl. Leyfið var gefið út á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar og með vísan til 20. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Í kjölfar þess að Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti íslenskum stjórnvöldum að starfsemin skyldi lúta tilskipun sem hafði áður verið innleidd hérlendis með reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni, felldi matvælaráðherra reglugerð nr. 900/2022 úr gildi.

Búgrein í afurðaframleiðslu

Ísteka höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna ákvörðunarinnar en ríkið hafði betur gegn líftæknifyrirtækinu í Hæstarétti seint á síðasta ári. Staðfesti Hæstiréttur þá fyrri dóma héraðsdóms og Landsréttar í málinu.

Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka, segir yfirstandandi dómsmál Ísteka gegn stjórnvöldum þó ekki til lykta leitt. „Það snýst um það hvert undirliggjandi regluverk starfseminnar skuli vera til framtíðar. Stjórnvöld tóku í tíð Svandísar Svavarsdóttur í embætti matvælaráðherra þann pól í hæðina að staðfesta álit ESA um að starfsemin, þ.e. blóðsöfnunin sjálf, skyldi felld undir Evrópureglugerð um tilraunadýr. Þetta var gert okkur mjög að óvörum en Ísteka, og raunar allir aðrir sem að greininni koma, telja hana til afurðaframleiðslu. Þessi ákvörðun stjórnvalda er í raun ekkert annað en tilraun til þess sem kalla má ofur-blýhúðun Evrópugerðar. En blýhúðun sem kölluð er, eða gullhúðun Evrópugerða, er nú þegar að valda miklu óhagræði í atvinnu- og raunar þjóðlífinu öllu hér á landi. Við vonumst eftir niðurstöðu úr því sem fyrst svo huga megi að leyfismálum blóðsöfnunar í kjölfarið,“ segir Kristinn enn fremur.

Ísteka hefur keypt blóð frá bændum sem halda stóðmerar. Blóði hefur verið safnað úr fylfullum hryssum á grundvelli leyfis frá Matvælastofnun, en dýralæknar á vegum Ísteka hafa séð um blóðtökurnar. Úr blóðinu er svo framleitt virkt lyfjaefni, PMSG, í verksmiðju Ísteka í Reykjavík, sem síðan er selt til lyfjaframleiðenda erlendis. Blóðmerar hafa til skamms tíma verið um 5.000 talsins.

Kristinn segir að blóðtökur hafi gengið vel sl. sumar og sé nú lokið. Heilsufar hafi verið gott í stóðunum og frjósemi sömuleiðis. „Vitaskuld hjálpar tíðarfarið til en fagmennska í búgreininni, sem og markvisst úrval blóðtökuhryssna (kynbætur) er einnig sívaxandi sem skilar sér í auknum árangri,“ segir hann.

Ekki verði veitt nýtt leyfi

Ísteka hefur orðið fyrir harðri gagnrýni m.a. dýraverndarsamtaka innanlands og erlendis, einkum vegna meintra brotalama á velferð hryssa við blóðtöku. Eurogroup for Animals, í samstarfi við þýsku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation og Dýraverndarsamband Íslands, sendi fyrir skemmstu erindi til fagráðs um velferð dýra þar sem óskað er eftir að ekki verði veitt nýtt leyfi fyrir blóðsöfnun úr fylfullum hryssum.

Skylt efni: Ísteka | blóðmerahald

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f