Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Stærsta jarðýta landsins er í eigu Ingileifs Jónssonar ehf. og er hún í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli fyrir Fossvélar ehf.
Stærsta jarðýta landsins er í eigu Ingileifs Jónssonar ehf. og er hún í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli fyrir Fossvélar ehf.
Mynd / ÁL
Á faglegum nótum 19. ágúst 2022

Stærsta jarðýta landsins

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni var jarðýta af gerðinni Liebherr PR 776 tekin í prufuakstur sem myndi flokkast sem mjög stór jarðýta. Sambærilegar jarðýtur hvað varðar stærð eru Caterpillar D10T, en báðar þessar ýtur eru yfir 70 tonn að þyngd.

Þegar tíðindamaður komst á snoðir um að nýlega hefði verið flutt inn stærsta jarðýta landsins þá kom strax sú hugmynd að hún ætti vel heima í prufuaksturshorni Bændablaðsins. Ég var búinn að ímynda mér að um væri að ræða ferlíki á stærð við einbýlishús en þegar ég gekk að þessari Liebherr PR 776 í hlíðum Ingólfsfjalls þá sá ég að hún er sannarlega stór, en í stað þess að umfangið sé eins og einbýlishús þá er hún frekar á stærð við tveggja herbergja sumarbústað með svefnlofti.

Sterklegt útlit

Tönnin framan á ýtunni er í kringum eina og hálfa mannhæð og er jarðýtan öll mjög sterklega byggð með þykku stáli hvert sem litið er.

Það er skemmtileg tilbreyting að sjá jarðvinnutæki sem er hvítt og grátt að lit, en gulur hefur verið ráðandi litur á vinnusvæðum undanfarna áratugi.

Hvað hönnunina varðar þá myndi hinn almenni leikmaður ekki átta sig á því að þetta sé Liebherr frekar en Komatsu eða Caterpillar án þess að lesa merkingarnar. Hönnuðir flestra jarðýta horfa greinilega til nytsamlegs útlits þar sem aðgengi til að sinna viðhaldi er óskert.

Það hefur líklegast leitt af sér að jarðýtur eru mjög einsleitar að lögun með flatar hliðar og skörp horn. Ekki það að þetta er hin stílhreinasta vél.

Vinnustaður með útsýni.


Gott aðgengi

Liebherr hefur greinilega séð fyrir því að prílið upp í vélina sé eins áhyggjulaust og hægt er, en fótstig eru með grófu yfirborði og handföng alla leið. Fyrir utan ökumannshúsið er stór pallur með háu handriði og því létt að athafna sig þegar búið er að klöngrast upp á pallinn. Hægt er að ganga inn í vélina frá báðum hliðum og opnast hurðirnar vel út.

Ökumannssætið snýr aðeins til hægri til að auðveldara sé að líta aftur á riftönnina. Tveir stjórnpinnar stýra flestum hreyfingum.
Notalegt ökumannshús

Ökumannshús vélarinnar er viðkunnanlegur staður til að vera á og rétt svo nógu stórt til að rúma ýtustjórann. Rýmið er vel hljóðeinangrað frá umheiminum þar sem allir gluggar eru með tvöföldu gleri. Þrátt fyrir að búið sé að skrúfa upp í tólf strokka dísilmótornum þá er gnauðið ekki meira en svo að heyrnarhlífar eru óþarfar. Greinilegt er að mikið hefur verið lagt í sætið, en það er mjúkt með fjöðrun og stillanlegt á ótal vegu. Þegar hamagangurinn er hvað mestur veltur ökumaðurinn til í sætinu og skarkali frá brotnandi bergi berst inn í húsið. Það er samt ekki við neinu öðru að búast, enda er þetta jarðýta.

Útsýnið úr vélinni við vinnu er að mestu óhindrað og stjórnun hennar það lipur að það gleymist fljótt að setið er uppi í ferlíki. Ókostur er þó að erfitt er að ná beinni sjónlínu að rippernum sem gerir notkun hans erfiðari.

Ýtan er útbúin bakkmyndavél sem horfir yfir ripperinn, en myndin er óskýr og kemur fram á smáum skjá þannig að erfitt er að notfæra sér hana.

Nokkuð skert útsýni aftur á riftönnina.


Lipur í hreyfingum

Flestum hreyfingum vélarinnar er stjórnað með tveimur stjórnpinnum sem eru haganlega staðsettir fyrir framan armhvílurnar. Stjórnpinnarnir falla vel í hendi og getur hver ökumaður stillt afstöðu þeirra að sínu vaxtarlagi. Með hægri pinnanum stjórnar maður hæð og halla tannarinnar og með þeim vinstri er beltunum stýrt. Að auki eru hnappar á stjórnpinnunum þar sem hægt er að velja á milli hraðaþrepa, flauta o.fl. Hægra megin við sætið er handfang sem er tileinkað rippernum.

Handfangið sjálft hreyfist ekkert, en á því eru takkar sem stjórna hæð og halla riftannarinnar. Snúningshraða vélarinnar er stjórnað með einfaldri skífu.

Vökvastýring gefur sérstöðu

Ólíkt öðrum jarðýtum í þessum stærðarflokki þá hefur Liebherr PR 776 þá sérstöðu að ganghraða beltanna er stjórnað með vökvadælu og koma gírar þar hvergi nálægt. Ökumaðurinn skrúfar því vélina upp í hámarkssnúning og heldur henni þar á meðan aksturshraðanum og stefnunni er stjórnað með vinstri stjórnpinnanum. Á hefðbundnum jarðýtum þarf að nota fótstig til þess að slá af vélinni áður en skipt er á milli fram- og afturgíra. Fyrir þá sem nota fótstigið af gömlum vana þá hefur Liebherr útbúið þessa vél með slíku þó það sé óþarfi.

Skilvirkni vélarinnar við að ýta jarðvegi er samsvarandi öðrum vélum í þessum stærðarflokki en afköstin þegar kemur að notkun riftannarinnar nokkuð meiri. Þessi auknu afköst nást þar sem öllu er stjórnað í gegnum vökvadælur. Eyðsla vélarinnar er á bilinu 60-70 lítrar á klukkutíma. Olíutankurinn rúmar 1.100 lítra af dísilolíu og því er nauðsynlegt að fylla á tankinn á hverjum degi.

Heildarþyngd vélarinnar er 75 tonn og getur tönnin ýtt á undan sér 22 rúmmetrum. 24,2 lítra V12 dísilmótorinn skilar hann 768 hestöflum og er hámarkshraðinn 10,5 km/klst. Hámarkslengd vélarinnar er 10.094 mm, mesta breiddin er 4.830 mm og er hún 4.350 mm á hæð.

Vel er gætt að öryggi með handriðum. Sigvaldi Emilsson ýtustjóri.


Samantekt

Liebherr PR 776 er verðugur valkostur fyrir hvern þann sem vantar afkastamikið tæki í námuvinnslu. Ökumannshúsið er friðsæll staður og má ekki búast við öðru en að gott sé að dvelja þar á löngum vöktum.

Stjórnun vélarinnar er fyrirhafnar- laus og eru stjórntækin sett upp með hámarks þægindi í huga. Liebherr vinnuvélar hafa orðspor fyrir gæði og má búast við því að það sama muni eiga við um þessa vél. Áhugasamir geta fengið frekari upplýsingar og verð hjá Rúkó vinnuvélum. Sérstakar þakkir fá starfsmenn Ingileifs Jónssonar ehf. og Fossvéla ehf.

Skylt efni: vélabásinn | prufukeyrsla

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...