Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Spádómsgáfa Bændablaðsins
Af vettvangi Bændasamtakana 24. mars 2025

Spádómsgáfa Bændablaðsins

Höfundur: Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.

Nú þegar Bændablaðið er orðið þrjátíu ára hef ég verið að rýna í eldri árganga blaðsins. Þrátt fyrir að það sé rannsóknarefni út af fyrir sig að hver greinin og fréttin á fætur annarri gæti hafa verið skrifuð í dag þá vekur það sérstaka athygli, og jafnvel furðu, hversu sannspár miðillinn hefur verið um áskoranir í íslenskum landbúnaði.

Margrét Ágústa Sigurðardóttir

„Sýklalyf í kjöti – Hættulegt fóður og kjöt“ en svona hljómar fyrirsögn í einu tölublaðinu árið 1995. Í fréttinni segir að sýklalyf í svína- og alifuglafóðri gæti leitt til þess að þarmaflóra þess fólks sem myndi neyta afurðanna yrði ónæm fyrir slíkum lyfjum. Þá sagði í framhaldi að þetta vandamál hefði verið óþekkt um fimmtán árum áður. Rannsóknir sýndu að heilbrigt fólk væri að verða ónæmt fyrir sýklalyfjum sem þýddi með öðrum orðum að sýklalyfin virki ekki á þau sem skyldi. Síðan þá hefur innflutningur landbúnaðarafurða aukist án þess að eftirlitið hafi verið eflt og í dag er sýklalyfjaónæmi ein helsta vá 21. aldarinnar samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

Í sama tölublaði er síðan að finna frétt með fyrirsögninni „Ólögleg hormónalyf notuð í löndum ESB – Ekki ljóst hvernig staðið verður að eftirliti með innflutningi“. Efni fréttarinnar er að komið hefði í ljós, í kjölfar stórrar rannsóknar, að fundist hefðu ólögleg hormón í alidýrum, allt frá 8% og upp í 70%, innan sumra ríkja Evrópusambandsins. Að endingu var vöngum velt yfir takmarkaðri getu hérlendra eftirlitsaðila til að sinna innflutningi á matvælum og hvað þá auknum innflutningi þar sem sýni væru ekki reglulega send til greiningar. Og viti menn – um þrjátíu árum síðar er eftirlitið með innfluttum landbúnaðarvörum enn undirmannað, virkar ekki sem skyldi og staðan lítið breytt. Slíkt var fullyrt í skýrslu ríkisendurskoðunar um tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða frá árinu 2022 þar sem segir meðal annars að möguleg misflokkun eða undanskot við innflutning á landbúnaðarafurðum geti varðað mikilvæga hagsmuni tengda heilbrigði manna, dýra og plantna.

Ég var enn stödd í lestri blaðsins árið 1995 þegar ein fréttin greindi frá hagræðingu í mjólkuriðnaði. Þar sagði að hérlendis væru um 100 milljónir lítra af mjólk framleiddir á ársgrundvelli og að hrámjólkin væri lögð inn hjá 14 mjólkurfyrirtækjum. Á sama tíma væru framleiddir 4,5 milljarðar lítra af mjólk í Danmörku, eða 45 sinnum meira magn. Miðað við framleiðsluna ættu því 630 mjólkurfyrirtæki að vera starfandi í Danmörku samanborið við Ísland. Hins vegar væru það nánast bara tvö mjólkurfyrirtæki sem hefðu um 90% markaðshlutdeild í Danmörku. Þá endaði umfjöllunin á því að eftir „fáein ár“ yrðu aðeins 5–10 mjólkurfyrirtæki eftir innan Evrópusambandsins vegna aukinnar þarfar á hagræðingu og hver er raunin – það eru um 8–10 mjólkurfyrirtæki innan sambandsins, sem nær til 27 aðildarríkja, með markaðsráðandi hlutdeild í mjólkurframleiðslu.

Þrátt fyrir að hafa bara lesið blaðið þangað til um mitt ár 1996, og hvimað yfir næstu árganga, þá var ekki hjá því komist að sjá að sífellt væri verið að benda á að bæta yrði hag bænda með því að lækka framleiðslukostnað við slátrun. Í áraraðir hefur verið fjallað um þetta á vettvangi blaðsins enda vitað mál að bændur hafa beðið alltof lengi eftir leiðum til hagræðingar sem skili sér í hærra afurðarverði til þeirra. Því vekur það furðu að í stað þess að gera breytingar á núgildandi ákvæði laganna ætli stjórnvöld sér að fella hið margþætta ákvæði búvörulaga úr gildi í heilu lagi og það án þess að hafa nokkuð fast í hendi með framhaldið. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnvöld ætli enn á ný að hunsa forspárgáfu Bændablaðsins og þar með í reynd völvu íslensks landbúnaðar. Lögin eru einfaldlega mannanna verk og séu þau ófullkomin, þarf að endurbæta þau og auka – rétt eins og sagði í tímaritinu Verkamanninum árið 1922.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...