Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sólboði er af ættkvíslinni Osteospermum og tilheyrir körfublómaætt. Myndir / Ingólfur Guðnason.
Sólboði er af ættkvíslinni Osteospermum og tilheyrir körfublómaætt. Myndir / Ingólfur Guðnason.
Á faglegum nótum 20. júní 2019

Sólboði – færir okkur sumarið

Höfundur: Guðríður Helgadóttir

Fá sumarblóm bera með sér eins góðar óskir um hagstætt veðurfar að sumarlagi eins og sólboðinn. Nafn þessarar fallegu plöntu ber með sér sól og sumaryl og því ætti hún að sjálfsögðu að vera skylduplanta í öllum alvöru görðum.

Sólboði er af ættkvíslinni Osteos­permum og tilheyrir körfublómaætt. Í heim­kynnum sínum eru þetta fjölærar plöntur en hér á norðurhjara veraldar ná þær ekki að lifa af veturinn og eru því ræktaðar sem sumarblóm. Til er fjöldi yrkja af sólboða og er hæð þeirra mjög mismunandi, hægt er að fá yrki sem eru einungis 25–30 cm há og allt upp í yrki sem verða ríflega metri á hæð. Yfirleitt eru nú lágvaxnari yrkin vinsælli á Íslandi.  

Blómgunartími sólboða er langur. 

Litrík körfublóm

Blóm sólboðans eru klassísk körfublóm, pípukrónur í miðju og tungukrónur í röð í kring. Pípukrónurnar eru yfirleitt dökkar á litinn, gjarnan með fjólubláum blæ en tungukrónurnar geta verið í ýmsum litum, hvítum, gulum, appelsínugulum, bleikum, fjólubláum og jafnvel vínrauðum. Sum yrki eru með tvílitar tungukrónur og til eru yrki þar sem hver tungukróna er í laginu eins og skeið. Blöð sólboða eru lensulaga og blómstönglarnir grannir en seigir og sveigjanlegir. Eitt blóm er á hverjum blómstöngli. Sólboðinn lokar blómum sínum í rigningu en opnar þau þegar birtir og hlýnar, jafnvel þótt ekki sé full sól. 

Hentar bæði í beð og blómaker

Sólboði hefur verið ræktaður á Íslandi um árabil og kom fljótlega í ljós að þessar blómfögru plöntur eru mun harðgerðari en ætla mætti, miðað við uppruna þeirra á afrískum slóðum. Blómgunartíminn er langur, plönturnar byrja að blómstra í upphafi sumars og standa langt fram á haust, þola jafnvel dálítið næturfrost að haustlagi. Fyrst í stað þorðu garðeigendur ekki annað en að gróðursetja sólboða á skjólbestu staði en raunin er sú að þetta eru mjög vindþolnar og duglegar plöntur sem þarf ekki að dekra sérstaklega við. Þó er rétt að gæta þess að hafa sólboða á sólríkum og sæmilega hlýjum stað, skuggsælir staðir henta honum ekki. 

Blóm sólboðans eru klassísk körfublóm, pípukrónur í miðju og tungukrónur í röð í kring.  

Auðveld í umhirðu

Til að tryggja blómgun sem best allt sumarið er rétt að gróðursetja sólboða í frjóan og rakaheldinn jarðveg. Ef plönturnar lenda í ofþornun að sumarlagi er hætt við því að þær haldi að vetur sé genginn í garð og þær ljúka blómgun hið snarasta. Sérstaklega þarf að gæta að vökvun plantna í pottum og kerum og þarf vökvunin að vera hófleg, þessar plöntur eru heldur ekki hrifnar af því að standa í bleytu. Plöntur í kerum og pottum þarf jafnframt að vökva reglulega með áburði til að þær dafni sem best. Hægt er að nota venjulegan pottablómaáburð á fljótandi formi og blanda hann eftir meðfylgjandi leiðbeiningum. Rétt er að miða við að vökva með áburði um það bil tvisvar sinnum í viku. 

Sólboðinn er mjög blómviljugur en hvert blóm stendur bara í ákveðinn tíma. Það er því sjálfsögð umhirða að klippa í burtu þau blóm sem eru fölnuð og þá er blómstilkurinn klipptur með. Þessar plöntur framleiða sjaldnast mikið fræ en með því að fjarlægja dauðu blómin lítur plantan betur út og nýju blómin fá pláss til að láta ljós sitt skína í sólinni.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur hjá LbhÍ.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...