Snæfellsnes verður vistvangur UNESCO
Snæfellsnes verður fyrsti vistvangur UNESCO ( Biosphere Reserve) á Íslandi. Í tilkynningu á vef Grundarfjarðarbæjar segir að vistvangur nýti náttúru- og félagsvísindi sem grunn til að auka lífsgæði íbúa og stuðla að sjálfbærri þróun, með farsælu samspili umhverfis, mannlífs og menningar.
Á Snæfellsnesi er Snæfellsjökulsþjóðgarður, sem stofnaður var 2001. Landsvæði þjóðgarðsins verður kjarnasvæði fyrir nýja vistvanginn á Snæfellsnesi og verða þjóðgarðurinn og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, samstarfsaðilar í verkefninu.
Um 759 svæði teljast til vistvanga
„Að frumkvæði sveitarfélaganna á Snæfellsnesi var hafin skoðun á því árið 2020 hvað fælist í aðild að UNESCO vistvangi. Niðurstaða þeirrar vinnu var að Snæfellsnes félli vel að þeim viðmiðum sem UNESCO vistvangar setja. Með því að gerast vistvangur fengi Snæfellsnes aðgang að dýrmætri þekkingu og reynslu annarra slíkra svæða á því hvernig hægt sé að flétta sjálfbæra þróun, þekkingu á átthögum, umhverfi og menningu við markvissa uppbyggingu atvinnulífs,“ segir í tilkynningunni.
„Auk þess fælist í því aðild að „vörumerki“ UNESCO, sem er eitt það þekktasta í heiminum. Í framhaldinu var unnið að gerð umsóknar á vegum stýrihóps sem skipaður var af umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, undir stjórn fulltrúa Snæfellinga, og var henni skilað í september 2024,“ segir þar enn fremur.
Um 759 svæði teljast til vistvanga í heiminum í 136 löndum. Þar af eru 25 sem liggja á milli landa.
Þessi svæði ná yfir meira en 5% af yfirborði jarðar og þar búa um 300 milljónir manna. Vistvanga er að finna á hinum Norðurlöndunum, flestir þeirra eru í Svíþjóð.
