Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Smáspunaverksmiðjan Urður ull stendur á grunni gamalla fjárhúsa á bænum Rauðbarðaholti í Dölum.
Smáspunaverksmiðjan Urður ull stendur á grunni gamalla fjárhúsa á bænum Rauðbarðaholti í Dölum.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 9. maí 2025

Smáspunaverksmiðja tekin í notkun

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ný smáspunaverksmiða var tekin formlega í notkun í Rauðbarðaholti í Dölum á sumardaginn fyrsta, með viðhöfn.

Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Einar Hlöðver Erlingsson eiga og reka spunaverksmiðjuna, sem heitir Urður ull, en sauðfjárbúskapurinn á bænum er í höndum annarra ábúenda. Að sögn Ingibjargar verður sérstaðan í Rauðbarðaholti sú að mislit ull verður nýtt til jafns við þá hvítu, gráu, svörtu og mórauðu og greitt verður jafnhátt afurðaverð fyrir alla liti.

Ingibjörg ræðir við Arndísi Erlu
Ólafsdóttur (t.v.) á viðburðinum
sumardaginn fyrsta.
Jafnhátt afurðaverð fyrir alla liti

„Við auglýstum eftir samstarfi við bændur í haust í þetta verkefni og það voru 22 bændur sem seldu Urði ullarvinnslu ull í haust. Þeir flokkuðu ullina fyrir okkur eftir litum svo hægt væri að vinna ullina eftir lit. Við erum því að bjóða upp á eins fjölbreytt litaúrval og sauðkindin býður upp á. Engum litum er blandað heldur er bara notast við náttúrulega liti eins og hann kemur af sauðkindinni.

Við rekjum hverja framleiðslulotu niður á bæinn þaðan sem ullin kemur og stefnum á að geta greitt bændum hærra afurðaverð en gengur og gerist – og jafnhátt verð fyrir alla liti. Við erum með verslun í vinnslunni sjálfri og svo er vefverslun í vinnslu sem verður opnuð bráðlega á vefslóðinni urdurull.is en það er hægt að fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum líka,“ segir Ingibjörg

Verksmiðja á grunni fjárhúsa

Á sumardaginn fyrsta var húsfyllir í nýja húsnæðinu, sem stendur á grunni gamalla fjárhúsa.

Grunnstuðningur til verkefnisins fékkst úr Dala Auði og frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands, en það var svo fjármagnað með lántöku hjá Byggðastofnun en heildarkostnaður er metinn á um 60 milljónir króna. 

Skylt efni: Smáspunaverksmiðja

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f