Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Kortasjá á vef Landssambands hestamannafélaga sýnir skráð slys, flokkuð eftir alvarleika. Hvatt er til skráningar slysa tengdum hestamennsku.
Kortasjá á vef Landssambands hestamannafélaga sýnir skráð slys, flokkuð eftir alvarleika. Hvatt er til skráningar slysa tengdum hestamennsku.
Viðtal 15. apríl 2025

Slys tengd hestamennsku verði skráð í gagnagrunn

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Talsvert er um slys tengd hestamennsku en engar tölulegar upplýsingar að fá um algengi þeirra. Unnið er að því að þau verði sérstaklega skráð og staðsett.

Öryggis- og ferðanefnd Landssambands hestamannafélaga (LH) er með gagnvirkt eyðublað á vef sambandsins, lhhestar.is, þar sem hægt er að skrá slys sem verða í hestamennsku. Tengist skráningin sjálfkrafa við kortasjá sem einnig er á vefsíðu LH og má þannig sjá hvar slys verða. Alvarleiki þeirra er litakóðaður á þrennan hátt; minni háttar óhapp, töluvert og alvarlegt.

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir,
formaður öryggisnefndar Landssambands hestamannafélaga,
segir sambandið nú undirbúa átak
til að efla öryggi og slysaskráningu hestamanna. Mynd/Aðsend

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, formaður öryggisnefndar LH, segir slysaskráningu á vegum sambandsins hafa farið af stað árið 2021 en efla eigi notkun hennar.

„Tilgangurinn með skráningu slysa er fyrst og fremst að hafa yfirsýn yfir atvik og staði þar sem óhöpp og slys hafa orðið, ásamt því að geta unnið að forvörnum, úrbótum og aukinni fræðslu,“ útskýrir Jóhanna. Hún segir töluvert um skráningar á síðunni. „Það sem þær skráningar eiga sammerkt er því miður að oft er um alvarlegri slys að ræða. Áverkar eru töluverðir, dæmi eru um bakbrot, lærbrot, ökklabrot og aðra áverka, þar sem hestamenn hafa verið frá vinnu og tómstundum um margra mánaða skeið,“ segir hún.

Tölur ófáanlegar

Í svari Andra Ólafssonar almannatengils við fyrirspurn til Landspítala um fjölda hestatengdra slysa og alvarleika þeirra, kom fram að ekki sé haldið utan um skráningar með slíkum hætti. Það er að segja að yfirleitt séu ekki skráðar orsakir eins og „datt af hestbaki“ í sjúkraskrá.

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni í Fossvogi, segir að því miður sé talsvert um þessi slys og nokkur af þeim alvarleg. „Illu heilli er hins vegar kóðunarkerfið, sem við notum til að halda utan um tegundir áverka, mjög ófullkomið og hefur tafist hjá Embætti landlæknis að uppfæra. Því höfum við ekki nákvæmar tölur um umfang þessara slysa né nánari upplýsingar um áverkana,“ segir Hjalti Már.

Því virðast slys tengd hestamennsku hvergi skráð sérstaklega sem slík, hvorki hjá sjúkrahúsum né heilsugæslum, og því ómögulegt að fá upplýsingar um algengi eða umfang slíkra slysa á landinu. Er það eitt af því sem öryggisnefnd LH hyggst beita sér fyrir að fá lagað og jafnframt er notkun slysaskráningaformsins á vef sambandsins talin mjög mikilvæg.

Kortasjá sýnir þekkt slysasvæði

Öryggisnefndin og fulltrúar LH hyggjast á næstunni eiga samtal við hestamannafélögin hringinn í kringum landið og kynna bæði kortasjána, slysaskráningu, sérstaka öryggisfulltrúa, sem eru nýmæli, og hlutverk þeirra á löglegum mótum.

Jóhanna útskýrir að koma eigi á fót öryggisnefndum inni í hestamannafélögum, sem tilnefna svo einstaklinga til að leiðbeina áfram um skráningu og viðbrögð við slysum í nærumhverfi hvers félags. „Með þessu viljum við hvetja fólk til að skoða reiðleiðir inni á kortasjánni og kynna sér hvort möguleg slysagildra leynist á leiðinni. Við hvetjum fólk líka til að skrá slys sem hafa orðið þrátt fyrir að langt sé um liðið.

Samhliða þessu langar okkur að eiga samtal við lögreglu og aðra viðbragðsaðila í hverjum landshluta, um skráningu og rannsóknir hestaslysa, ásamt því að fara yfir verkferla í útköllum ef slys verða. Hlutverk lögreglu er skýrt, henni ber að rannsaka slys og eiga hestaslys ekki að vera nein undantekning þar á,“ segir hún jafnframt.

Sérstök viðbragðsáætlun mótahalds

Öryggisfulltrúi er nýtt hugtak innan LH. Árið 2023 var samin viðbragðsáætlun fyrir mótahald og er hún samvinnuverkefni Jóhönnu og Jóhanns Más Andersen, læknis hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

„Viðbragðsáætlunin er samin með öryggi hestamanna í fyrirrúmi. Eins og dæmin sýna erum við hestamenn í hættu á að verða fyrir miklum áverkum sem bregðast þarf við skjótt og með réttum hætti hverju sinni. Áætlunin tekur fyrst og fremst á þremur þáttum; ef ekið er á gangandi vegfaranda með marktæku höggi; ef aðili fellur úr 3 metra hæð (eða meira); eða ef aðili fellur af hestbaki með marktæku höggi: þá skal í öllum tilfellum hringja í 112.

Áætlun sem þessi er leiðbeinandi fyrir atvik en vissulega ekki tæmandi og þurfa hestamenn allir að viðhafa heilbrigða skynsemi og láta einstaklinginn njóta vafans. Neyðarverðir 112 eru sérþjálfaðir í úrvinnslu og bráðaflokkun og vel hægt að treysta þeim fyrir frekari leiðbeiningum ef slys á sér stað,“ segir Jóhanna enn fremur.

Öryggisnefnd LH lét fyrir nokkrum misserum vinna sérstök myndbönd um öryggisbúnað og öryggi hestamanna

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...