Sláttur mun fyrr en vant er
Sláttur er hafinn á suðvestan- og vestanverðu landinu. Einnig í Skagafirði og styttist í slátt víðar um land. Þetta er óvenjusnemmt.
Laust eftir miðjan maí var sláttur hafinn í Borgarfirði, á NorðurReykjum í Hálsasveit. Segir í Skessuhorni að bændur þar á bæ, þau Kolbrún Sveinsdóttir og Bjartmar Hannesson, hafi oft verið með þeim fyrstu á landinu til að hefja slátt að vori. Þau hafi þó aldrei í sinni búskapartíð hafið slátt svo snemma sem 19. maí.
Ekki er farið að slá tún í Öræfum né í kringum Hornafjörð. Öðru máli gegnir um vestanvert Suðurland.
Slegið var á Syðra-Hóli undir Eyjafjöllum 24. maí. Sagði Konráð Gehringer Haraldsson, bóndi á SyðraHóli, í samtali við Morgunblaðið þetta vera í annað sinn í hans tíð sem heyskapur hæfist í maímánuði, en vanalega væri fyrsti sláttur ekki fyrr en um miðjan júní.
Svo sem kunnugt er eiga bændur undir Eyjafjöllum í óformlegri keppni um hver fyrstur verði til að slá og taldi Konráð sig fyrstan þetta vorið.
Einnig var haft eftir Hauki Marteinssyni, bónda á Kvíabóli í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu, að verulega styttist í að sláttur gæti hafist í Þingeyjarsýslum. Staða gróðurs nú væri á við miðjan júní í meðalári.
Sláttur er hafinn í Skagafirði, m.a. á Páfastöðum.
Ekki er farið að slá tún á Austurlandi en tíðin hefur verið góð þar eins og víðar. Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði, segir þó að sláttur verði fyrr en venjulega. „Já, það er alveg klárt, ég hef aldrei séð túnin eins og þau eru núna á þessum tíma, en við vorum fegin að fá smá vætu síðustu daga.“ Sömu sögu sögðu bændur á Úthéraði og í Fossárdal á Mið-Austurlandi.
Þá sagði Ari Páll Ögmundsson, bóndi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi, í samtali við Sunnlenska, að ef ekki snöggkólnaði á næstu dögum byggist hann við að fyrsti sláttur yrði í maí. Vanalega væri sláttur í fyrsta lagi um miðjan júní. Tíðin hefði verið slík í Flóanum að kúnum var hleypt út 18. maí og sé það fyrr en elstu menn muni.
Á Norðurlandi vestra er lambfé víða komið út en ekki fer sögum af slætti enn sem komið er. Gróður er þar þó mikið fyrr á ferðinni en verið hefur og því sýnt að sláttur hefjist óvenjusnemma. Bændur horfa til þess að fara að koma fé á afrétt.
Á Ströndum er sauðburður á seinni sprettinum en talsvert í slátt.
Jón Skúlason, bóndi á Gemlufalli í V-Ísafjarðarsýslu, segir eitt og eitt tún að verða slægt þar um slóðir en þó sé eitthvað í slátt enn.
