Skortir talsvert á vöruþróun lambakjöts
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárbænda, segist taka undir þau orð Hafliða Halldórssonar í Útvarpi Bændablaðsins að það skorti á vöruþróun lambakjöts, það megi alltaf gera betur.
„Það hefur verið auðvelt að markaðssetja lambkjöt fyrir neðstu hilluna í stórmarkaði. Samfélagið hefur hins vegar þróast hratt síðustu ár og fólk vill meira fá vöru sem er fljótlegt að elda og þar hefur skort talsvert á vöruþróun. Það hefur margt jákvætt gerst á síðustu árum með tilkomu Icelandic Lamb. Innkoma Costco á markaði hefur líka haft jákvæð áhrif á ýmsa framsetningu lambakjöts. Ef fleiri myndu síðan taka þátt í „Íslenskt staðfest“ með einu sameiginlegu upprunamerki myndi margt meira jákvætt gerast,“ segir Ejólfur Ingvi.
Í Útvarpi Bændablaðsins vitnaði Hafliði í rýnikönnun þar sem fram kemur að lambakjöt sé ekki á innkaupalista ungs fólks, meðal annars vegna þess að það vanti lambakjöt í einungum sem henti til eldunar á skömmum tíma. Ertu sammála þessu?
Mögulega ekki gert nógar kröfur til afurðarstöðvanna
„Já, ég er sammála þessu og þetta er sama þróun og hefur verið í löndunum í kringum okkur. Þegar ég var við nám í Noregi fyrir 15 árum var lambakjöt sérstaklega markaðssett á haustin, kringum jól og um páska – þess á milli hafði það ekki mikið hillupláss. Því þurfa úrvinnslu aðilar að gera betur í að ná til yngri kynslóða með því að bjóða vöru sem er fljótlegt að elda og henta í ýmsa rétti sem eldri kynslóðin vill ekki.“
Hafið þið bændur gert kröfu um aukna vöruþróun af hálfu afurðastöðvanna?
„Já, en mögulega ekki nógu mikla. Sem bændur erum við fyrst og fremst góðir í því að framleiða lambakjöt. Afurðastöðvarnar eru síðan í mismikilli vinnslu afurða en þeirra sérfræðiþekking liggur í því að slátra. Síðasta púslið er síðan úrvinnsla og markaðssetning og þar má gera betur í sýnileika og þróun á vörum.“
Markaðsstaðan veikari
Hvernig telur þú markaðsstöðu lambakjöts vera almennt?
„Hún hefur orðið veikari á síðustu árum en það er enginn vafi í mínum huga að lambakjöt á enn stóran sess í hugum og hjörtum Íslendinga á öllum aldri. Við þurfum að gæta þess að missa ekki tengslin við ólíkar kynslóðir.“
Hvaða möguleika telurðu vera á vöruþróun lambakjöts?
„Með frekari vöruþróun á vörum sem eru fljótlegar í eldun og henta ýmist einar sér eða sem hluti af öðrum réttum. Af hverju eru t.d. marineruð lambahjörtu á grillið eða í mínútugrillið ekki til í öllum búðum. Fljótlegur og frábær réttur.“
Mætti byggja upp sérstöðu
Hafliði bendir einnig á að gæðaflokkun lambakjöts í verslunum og fyrir veitingastaði. Hvað stendur í vegi fyrir því að boðið sé upp á gæðaflokkað lambakjöt fyrir neytendur og veitingastaðarekendur?
„Nú hef ég aldrei verið sjálfur þátttakandi í samtali milli sölumanna kjöts og veitingastaða en líklegast er það skortur á samtali sem stendur í vegi fyrir því. Hér mætti kannski gera meira af því að fara í samstarf við einhverja bændur og byggja upp sérstöðu til að ýta undir upplifun neytenda. Það þekkist víða erlendis en lítið hér á landi – þannig mætti líka lengja þann tíma sem hægt er að bjóða ferskt lambakjöt í búðum og á veitingahúsum. Sauðfjárbóndi sem ég kannast við í Svíþjóð er þar í samstarfi við heildsala og hefur sett upp framleiðslukerfi sem miðar að því að bjóða ferskt lambakjöt inná veitingahúsamarkaðinn í kringum Stokkhólm yfir stóran hluta ársins en til þess að svo sé er sauðburður tvískiptur og hluti gripanna alinn á hágæðafóðri inni yfir vetrartímann.“
Treysta ekki merkingum matvæla í búðum
Telurðu að það mætti bæta upplýsingagjöf um lambakjöt til neytenda og veitingahúsa?
„Já, það má alltaf bæta upplýsingagjöf til neytenda og veitingahúsa. Að hluta held ég að vandamál við markaðssetningu tengist trúverðugleika allra þeirra aðila sem starfa á þeim markaði. Sjálfur hef ég verið þátttakandi í Beint frá býli síðustu ár og skynja á hluta þeirra aðila sem versla við mig að þeir vilji versla beint við bónda vegna þess að þeir treysta ekki merkingum matvæla í búð – það er hlutur sem við verðum að taka alvarlega því ýmislegt í merkingu matvæla virkar á mig eins og villta vestrið.“
Tækifæri í betur greiðandi neytendum
Eyjólfur telur ekki vera möguleika á auknum útflutningi á íslensku lambakjöti í miklu magni þótt tækifæri séu til staðar.
„Fé í landinu hefur fækkað það mikið að við rétt framleiðum nóg til að selja hér innanlands. Markaðir erlendis eru kvikir og ef við viljum flytja meira út verður það að vera á forsendum þess að um takmörkuð gæði er að ræða. Því við höfum ekki magnið til að flytja út á markað þar sem stór hópur fólks verslar. Verðum að einblína á markað sem tekur gæði umfram magn og vill greiða fyrir gæðin.“
Hver telurðu vera helstu sóknarfærin fyrir íslenskt lambakjöt?
„Sérstaða lambakjöts er sú að gripirnir eru grasfóðraðir og aukinn hluti neytenda vill frekar kjöt af þannig gripum en þeim sem eru aldir í þauleldi á kornfóðri. Aukin vöruþróun með minni einingum er eitthvað sem neytendur kalla eftir – vissulega kostar það allt aukna vinnu en á endanum er hópur neytenda tilbúinn að greiða hærra verð fyrir þannig vöru sem vonandi skilar sér að einhverju leyti í vasa bóndans. Því í enda dags þá verður enginn matur til ef það er enginn bóndi.“
Sóknarfæri í vöruþróun
Sigurður Bjarni Rafnsson, sláturhússtjóri KS, segir að það megi gera betur í vöruþróun lambakjöts.
„Varðandi vöruþróun á lambakjöti þá má alltaf gera betur og vissulega eigum við sóknartækfæri þar.“
Hafliði vitnar í rýnikönnun þar sem fram kemur að lambakjöt sé ekki á innkaupalista ungs fólks, meðal annars vegna þess að það vanti lambakjöt í einungum sem henti til eldunar á skömmum tíma. Ertu sammála þessu?
„Já, ég er nokkuð samála Hafliða um að það séu tækifæri í að útbúa meira af fullbúnum eða ½ elduðum réttum úr lambakjöti.“
Hafið þið hjá KS hugleitt að bjóða til dæmis upp á mínútusteikur úr lambakjöti eða jafnvel enn minni bita?
„Við hjá Kjötafurðarstöð KS erum fyrst og fremst í slátrun og grófúrvinnslu, einnig erum við að framleiða sérstaklega fyrir vinnslur og stóreldhús. Við höfum sérhæft okkur í frostvöru í dagvöruverslunum og erum við með mjög mikið vöruúrval í þeim flokki. Það eru aðrir að framleiða rétti sem eru í minni pakkningum eða í svo kölluðum neytendapakkningum bæði, ferskt og frosið, einnig í fullunum vörum, en þar eru mikil sóknartækifæri í vörum úr lambakjöti.“
Hvernig telur þú markaðsstöðu lambakjöts vera almennt?
„Markaðsstaða lambakjöts er mjög sterk á íslandi samanborið við stöðu lambakjöts í öðrum löndum, þó að hún hafi verið að gefa eftir hér á landi undanfarin ár.“
Sérðu aðra möguleika á vöruþróun lambakjöts?
„Ég tel að við eigum mikið inni varðandi vöruþróun og í markasetningu og þar eigum við mikið að tækifærum.“
Erum ekki að fullnýta möguleikana
Hafliði bendir einnig á að gæðaflokkun lambakjöts í verslunum og fyrir veitingastaði. Hvað stendur í vegi fyrir því að boðið sé upp á gæðaflokkað lambakjöt fyrir neytendur og veitingastaðarekendur?
„Varðandi gæðaflokkun þá erum við ekki að fullnýta þá möguleika sem hægt væri, en ég hef áhyggjur af því að ef sú leið sé farin þá hljótist af því umtalsverður auka kostnaður sem fylgir sérpökkun sem dregur þá úr ávinningnum.“
Telurðu að það mætti bæta upplýsingagjöf um lambakjöt til neytenda og veitingahúsa?
„Allveg klárlega, sérstaklega til yngri neytenda.“
Telurðu vera möguleika á auknum útflutningi á íslensku lambakjöti?
„Það eru hugsanlega að opnast tækifæri til útflutnings á lambakjöti með hækkandi verði á alþjóðamarkaði og minnkandi framleiðslu lambakjöts í Nýsjálandi. Þetta verður alltaf erfiður markaður þar sem íslenskt lambakjöt er mjög dýr vara inn á alþjóðlegan markað, en að sjálfsögðu verðum við að vera mjög vakandi yfir þessu markaði.“
Tækifæri í „gurme“-vörum
Hver telurðu vera helstu sóknarfærin fyrir íslenskt lambakjöt?
„Við verðum að leita leiða til að hámarka virði á aukaafurðum svo sem gærum, beinum og fleiru en það er mjög misjafnt á milli ára hvernig sá markaður virkar. Við erum að gera tilraunir með framleiðslu á vörum úr aukaafurðum í gæludýrafóður, sem verður spennandi að sjá hvernig virkar. Helstu sóknartækfæri í lambakjötssölu felast í því að vera með fulleldaðar vörur sem þarf bara að hita upp. Við verðum að vera með lambakjötið í heppilegum stærðareiningum og svo er sóknartækifæri í svokölluðum „gurme“-vörum, þar held ég að við höfum möguleika.“
