Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
„Ég held það sé nokkuð til í ævintýri dýranna í Hálsaskógi. Það eru margir vinir í þessum skógi,“ segir Hlynur Gauti.
„Ég held það sé nokkuð til í ævintýri dýranna í Hálsaskógi. Það eru margir vinir í þessum skógi,“ segir Hlynur Gauti.
Mynd / ál
Viðtal 4. september 2025

Skógrækt með tilgang

Höfundur: Sturla Óskarsson

Hlynur Gauti Sigurðsson hefur síðustu ár starfað sem sérfræðingur í skógrækt hjá Bændasamtökum Íslands, þó sjálfur kynni hann sig sem sérvitring á því sviði. Í haust færir hann sig á ný mið og hefur störf hjá Skógræktarfélagi Íslands. Bændablaðið spjallaði við Hlyn um Kolefnisbrúna, loftslagsbreytingar og framtíðarhorfur skógræktar á Íslandi.

Gæfuríkur tími með skógarbændum

Hvað hefurðu starfað lengi hjá Bændasamtökunum?

„Ég hóf störf hjá Landssamtökum skógareigenda í byrjun árs 2018. Um mitt ár 2021 varð til búgreinadeild skógarbænda undir hatti BÍ og við það urðu nokkrar breytingar. Allt mitt starf og öll mín verkefni snéru samt áfram að því að vinna að framgangi skógræktar á bújörðum með skógarbændum vítt og breitt um landið. Þetta hefur verið góður og gæfuríkur tími að vinna með skógarbændum, sem og öðrum bændum sem alla jafna hafa sýnt skógrækt áhuga. Auk þess er skemmtilegt og kraftmikið starfsfólk sem vinnur hér hjá BÍ, svo ég tala nú ekki um blaðamenn Bændablaðsins, en þar er auðvitað eðalfólk líka. Ég finn það samt hjá mér að það er kominn tími á að breyta til og ég er um þessar mundir að hefja störf hjá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ). Það er tilhlökkunarefni, þó ég muni að sjálfsögðu sakna margs úr fyrra starfi. Ég treysti því að nýr starfsmaður komi sterkur inn í starfið.“

Hvað munt þú fást við hjá Skógræktarfélagi Íslands?

„Mitt meginhlutverk hjá SÍ er að vinna að verkefnum Landgræðsluskóga og ýmsum sérverkefnum sem forveri minn, Jón Ásgeir Jónsson, hefur haft umsjón með síðustu ár. Það má kannski til gamans geta að það er mikill áhugi hjá SÍ að vinna meira með deild skógarbænda á næstu misserum og það sama má segja um stjórn skógarbænda hjá BÍ. Framtíðin veit svo hvert þetta tilhugalíf mun leiða.

Ég menntaði mig í borgarskógfræði í Danmörku og Svíþjóð. Í náminu var lagt mikið upp með að gera annars vegar borgir grænar og hins vegar að gera skóga aðgengilega fyrir fólk. Ég held að nýtt starf geti leitt mig aftur á þá braut.“

Kolefnisbrúin tryggir búsetu

Landssamtök skógareigenda og Bændasamtökin reka fyrirtæki sem nefnist Kolefnisbrúin. Geturðu útskýrt út á hvað Kolefnisbrúin gengur?

„Hugmyndin að Kolefnisbrúnni er fengin frá Skógarkolefni, sem er kröfusett Skógræktarinnar. Hún byggir fyrst og fremst á því að rækta tré sem binda kolefni í stofni. Við mælum trén, þá getum við sagt að hér erum við að binda ákveðið mikið. Í framhaldinu má selja kolefniseiningar sem verða til. Við viljum búa til tekjustreymi með því fyrir skógareigendur. Það er samfélagslega styrkjandi að við séum með tekjuöflun og fæðuöflun um allt land. Eitt af því sem Kolefnisbrúin gengur út á er að tryggja búsetu.

Með Kolefnisbrúnni viljum við efla atvinnu. Þú ert með miklu meiri framlegð í skóglendi heldur en rýru landi svo sem móum eða melum. Við eigum fullt af melum og rýru landi á Íslandi sem væri upplagt að skella í stafafuru, lerki og lúpínu, eitthvað sem virkar vel á Íslandi og glæðir það lífi.

Næsta áhersluatriði með Kolefnisbrúnni er fæðuöryggið. Því meiri skógur, þeim mun auðveldara er að rækta. Til dæmis ef við, sem þjóð, ætlum að stuðla að öryggi í kornrækt, þá eru skjólbelti grundvallaratriði. Timburöryggi er forsenda að uppbyggingu sjálfstæðrar þjóðar. Þegar við notum land gagngert fyrir timburnytjar þurfum við að rækta skóginn rétt. Það er ekki nóg að gróðursetja, við þurfum að sinna skóginum, svo sem að uppkvista hann, snyrta, millibilsjafna og grisja á réttum tímum. Vanræksla á skógaumhirðu gerir skóga ekki bara fráhrindandi fyrir fólk og ferfætlinga heldur rýrir það tekjumöguleikana með framleiðslu á lökum viði.

Við viljum búa til útivistarsvæði. Ef við fáum fólk í skóginn okkar þá eflum við lýðheilsu. Japanir fundu upp á hugtaki sem heitir skógarböð. Við Íslendingar erum alveg búin að fatta þetta. Okkur líður vel í skógi. Það er svo margt að sjá í skógi.

Það síðasta með Kolefnisbrúnni og kannski það mikilvægasta er gegnsæið. Við stöndum saman sem bændur, styðjum við hvert annað, erum saman í loftslagsaðgerð, erum ekki að fela neitt og með öll gögn uppi á borði, hvort sem það eru taxtar eða eltingaleikur við raunbindingu.

Við erum að búa til kerfi í nafni skógræktar. Til þess að efla skógrækt. Við erum að skapa klassískar timburnytjar þannig að einn daginn verðum við komin með auðlind og hún á að vera augljós. Ísland er á barrskógarbeltinu, skilgreint í heimshnattarins skilningi. Við erum með fullt af tækifærum í skógrækt samhliða landbúnaði og þar með fyrir samfélagið.“

Varðandi kolefniseiningarnar. Heldurðu að bændur gætu lifað af sölu þeirra eða að slík sala geti orðið stór hluti af þeirra tekjum í nánustu framtíð?

„Þarna hittirðu á viðkvæman streng. Þegar við vorum að hugsa þetta fyrst þá sáu sumir tækifæri í svo mikilli sölu á einingum að bændur myndu bregða búi og selja landið sitt til einhvers þriðja aðila. Landið yrði ekkert notað undir neitt annað en kolefnisbindingu, stór landsvæði þess vegna. Bóndi myndi kannski búa áfram á jörðinni en ekki með neina matvælaframleiðslu af því að það yrðu svo miklar tekjur í einingunum. Þetta er þó óraunhæft fyrir flestar jarðir. Líklegra er að bóndi geti aukið árlegar tekjur sínar umtalsvert en ekki nóg til að lifa á eingöngu. Kolefnisbrúin byggir á því að við erum að efla samfélagið með því að efla gjöfulleika jarða.

Við getum haft fyrirtæki sem styðja bændur með kaupum á kolefniseiningum og þar með jafna sinn kolefnisbúskap. Bóndinn getur þá aðstoðað við að kolefnisjafna það sem fyrirtækið mengar. Bóndinn fær tekjur fyrir kolefnisbindinguna. Fyrirtækið getur notað það í markaðssetningu. Það er ákveðin efnahagshringrás sem myndast og styrkir bæði fyrirtæki og bændur. Við höfum til dæmis séð að sjávarútvegsfyrirtæki hafa keypt land til þess að fara í kolefnisskóga, sem er í sjálfu sér hið besta mál. Þau eru að sinna sínu ábyrgðarhlutverki í loftslagsmálum. Einnig gætu þau séð tækifæri í því að efla útivist inni í skóginum. Í nálægri framtíð þá gætu þau haft þar sumarhúsasvæði fyrir starfsmenn fyrirtækjanna. Þetta getur ríkið gert og fleiri fyrirtæki líka.“

„Framtíðarsýnin er sú að ég vil að við séum öflugt matvælaland, við séum sjálfbær og séum með gott lambakjöt. Og ég vil alveg sjá fjallalamb eins mikið og skógarlamb í búðum.“
Skógrækt allra hagur

Eru einhverjir fjárhagshvatar fyrir bændur til þess að stunda skógrækt?

Já, fullt af þeim, en nýting möguleikanna er háð útsjónarsemi, dugnaði og þolinmæði bóndans eins og flest annað í lífinu. Þú getur gert betra fæði í skjóli trjáa. Þú getur tryggt betra næringarframboð í skjóli trjáa og vatnsbúskap og tryggt jafnara vatnsflæði frá snjó úr fjöllum. Í ferðaþjónustu eru líka miklir möguleikar. Svo kemur sala á timbri eftir fáa áratugi. Fyrst og fremst þurfa stjórnvöld að átta sig á því að með skógrækt er gríðarlegt tækifæri til að efla landbúnað, skógrækt, búsetu, gjaldeyrissparnað, lífsviðurværi og fyrst og fremst til að efla sjálfbærni landsins.

En þetta er lífsstíll, að vera bóndi. Það á líka við um skógarbóndann. Þetta er umhyggja fyrir landinu. Skógarbóndinn er fyrst og fremst að reyna að gera landið betra.“

Eru einhverjir skógar hérlendis orðnir nógu gamlir til að fella tré og hefja timburvinnslu?

„Það má skipta skógum landsins í þrennt. Það eru þjóðskógarnir: Hallormsstaður, Þjórsárdalur og fleiri, þar eru stærstu trén. Og stærstu trén þýðir ekki endilega að þau séu elst heldur eru tré valin sem henta hérlendis. Sitkagreni er gríðarlega öflugt í Skorradal til dæmis. Það er hægt að nýta þessar tegundir í dag, fyrstu trén voru gróðursett í kringum 1950. Þá voru meira og minna tilraunir í gangi. Þau tré voru ekkert endilega vel snyrt. Ef við hefðum snyrt tvístofna og fleira, þá værum við komin með meira af góðum trjám.

Næst eigum við skógræktarfélögin um allt land, þau eru stofnuð um 1930–70. Það er mikil skógrækt á vegum skógræktarfélaga við þéttbýli og víðar. Þarna eru sennilega umfangsmeiri landsvæði heldur en þjóðskógar í heildina, fleiri hektarar. Og það eru margir nytjaskógar í dag, jafnvel á stöðum þar sem engum datt í hug að timburframleiðsla væri möguleg þegar gróðursett var fyrir fáum áratugum. En vinnslan okkar er komin svo stutt og umhirðan ekki nægileg. Ég vil kalla það gróðursetningu þegar þú ert að byrja, eftir það hefst umhirðan sem er að sinna skóginum og í lokin kemur uppskeran við grisjun og seinna við lokafellingu og endurnýjun. Allt er þetta skógrækt.

Svo er þessi síðasti kafli sem er langstærstur að flatarmáli, það eru skógarbændur. Þeir byrja um 1990 og eru með yngstu skógana. Þeir detta sumir inn í umhirðu núna, aðrir á næstu áratugum. Í dag erum við að klikka í umhirðumálum. Við erum með blússandi tækifæri núna því að fyrstu skógarnir okkar, t.d. á Héraði, eru farnir að gefa borð og planka úr grisjunum. Nú er tími til að sanna sig. Þetta er mikilvægur tími fram undan af því að ef við gerum ekkert núna næsta áratug, þá vaxa trén misæskilega á meðan.“

Íslenskt landslag

Margir hafa sterkar skoðanir á hvernig íslenskt landslag eigi að vera. Hvar eigi að vera tún, mói, skógur eða annað. Er eitthvað til sem heitir íslenskt landslag?

„Ég er bara staddur hérna á þessari öld. Forverar mínir, afi og amma, þau þekkja kannski ekkert gróður í þeirri mynd sem við höfum í dag, þó að tækifærin hafi verið þar, menn áttuðu sig kannski ekki á því. Svo spilar tíðarfarið ábyggilega inn í líka. Íslenskt landslag nútímans er mest mói og annað rýrt land. En ég er ekkert viss um að menn vilji hafa það þannig. Menn vilja hafa gjöfular gresjur eða fallega skóga í bland. Við erum farin að sækja nám miklu meira erlendis, þekkjum orðið skandinavískt umhverfi til dæmis. Fólk er farið að átta sig á því að það er hægt að rækta skóg hér. Heiðmörk er í næsta nágrenni við borgina. Þar er fallegur skógur og kynslóðirnar sjá tækifærin sem eru í skógrækt. Þannig náum við að búa til landslag með opnunum og lokunum, bæði sjónrænt og líka veðurfarslega.

Skógurinn bindur líka jarðveg. Þannig að ef við erum með einhverjar snjóflóðavarnir þá hafa menn þegar beitt þeim í hlíðum. Þetta er m.a. á Norðfirði, Siglufirði og á Vestfjörðum. Þeim mun öflugra rótakerfi, þeim mun meiri binding, þeim mun meiri framleiðni. Náttúran mundi hvort sem er gera það sjálf. Reynum að aðstoða náttúruna og ef við aðstoðum náttúruna, þá borgar náttúran til baka.

Ég sé fyrir mér að íslensk náttúra þróist í sjálfbæra átt með skógi. Þó ég vilji ekki þekja landið algjörlega í skógi, enda eru ýktar áhyggjur sumra um það gjörsamlega óraunhæfar í okkar landi sem er 98% skóglaust.“

Hefur íslensk náttúra breyst mikið af mannavöldum í gegnum tíðina?

„Það var þarna í kringum árið 900, þá byrjar þetta. Þá voru flutt inn ýmis dýr og maður heyrir það á örnefnunum. Það er til Sauðafell, Galtarlækur og Hafravatn. Skógurinn sem var fyrir var ruddur, mest til að skapa bithaga fyrir það búfé. Svo rýrnuðu þeir bithagar smám saman með tímanum og urðu að móum og melum dagsins í dag. Eitthvað hefur orðið til þess að við höfum ekki flutt inn trjátegundir með okkur frá Noregi. Við hefðum bara átt að gera það strax með landnámsmönnum. Ég skil ekki hvers vegna það var ekki gert. Ég hefði viljað vera þarna til þess að sjá hvað klikkaði.

Samtímamenn hafa alltaf haft rangt fyrir sér með skógrækt. Bjartsýnustu menn í skógrækt á hverjum tíma hafa alltaf efast um möguleika skógræktar. Skilyrðin hafa alltaf þótt það uggvænleg að menn hafa ekki trúað því að hér gætu vaxið tré. Svo kom bara í ljós að þetta vex ágætlega. Þessar helstu trjátegundir okkar í skógrækt eru búnar að sanna sig. Þær eru frá norðlægum slóðum þar sem aðstæður svipa til þeirra sem hér eru. Skógarnir vaxa og dafna og þá eru meiri tækifæri fyrir aðrar tegundir að koma. Fuglar og því miður fyrir mannskepnuna, skordýr. En fuglarnir sem eru komnir, þeir eru fallegir og auðga landið. Við þurfum bara fleiri glókolla til að tína pöddurnar.“

Birki er gjarnan talið heppilegt til ræktunar hérlendis. Er þetta fagurfræði eða eru góð vistfræðileg rök fyrir því að við ættum að leggja áherslu á birki?

„Birkið er úrvalstegund því að hún hefur aðlagast Íslandi yfir aldirnar og sumpart hefur hún þróast í það að vera krækla eða skógviðarbróðir. Á einstaka stöðum á landinu, eins og Bæjarstaðarskógi og fleiri skógum hér, er beinvaxið birki vegna þess að það hefur verið látið í friði frá bitvörgum, væntanlega fé oftast nær. Birkið er traust. Það vex ekkert hratt samt í samanburði við hinar tegundirnar sem við erum að tala um en er nokkuð öruggt og sáir sér miklu meira en innfluttu tegundirnar. Það er því gott til landgræðslu, ekki síst í meiri hæð yfir sjávarmáli en við höfum hingað til yfirleitt ræktað skóg. 

Landið hefur ekki breyst svo mikið vegna skógræktar. Þessir ræktuðu skógar sem eru komnir í dag eru fyrst og fremst nálægt vegi. Við eigum fullt af öðru landi þar sem ekki eru tré. En það er svo skrýtið, við erum bara með hálft prósent lands í innfluttum tegundum og 1,5% í birki. Alls, ekki nema tvö prósent.“

Oft er sauðfjárrækt og trjárækt stillt upp sem andstæðum. Eru þetta greinar sem geta unnið hlið við hlið?

„Það á alls ekki að stilla þeim upp sem andstæðum. En vandamálið er tímafaktor. Við getum ekki beitt svæði fyrstu árin. En eftir að trén ná um fjögurra m hæð og börkurinn er orðinn þykkur má nota skóga til beitar. Það er bara nýgræðingurinn og nýja brumið sem dýrin eru að éta og skemma eða jafnvel eyðileggja í nýskógrækt.

Það er búin að vera leiðinleg hjöðnun eða hnignun í kvikfjárrækt. Varðandi rolluna þá vil ég ekki að við göngum að henni dauðri. Við þurfum að halda henni í landinu. Við getum gert það með alls konar aðstoð og samhliða skógrækt. Þetta er bara spurning um að beitin sé þar sem hún má vera, ekki á landi nágranna sem kæra sig ekki um hana og ekki á landi sem er óhæft til beitar.

Skógræktin þverar allar búgreinarnar. Hún styður við þær allar ef við skipuleggjum okkur vel. Byrjum á hlíðunum því það er yfirleitt landið sem er ekki í notkun fyrir kornrækt eða akuryrkju. Þar safnast snjórinn, snjórinn bráðnar lengur inn í vorið. Þannig að ef við höldum vatninu lengur í brekkunum, þá er vatnsbúskapurinn í túninu betri, ræktunin líka.“

Framtíðarhorfur

Skógrækt er langtímaverkefni. Hvaða verkefni myndir þú setja í forgang næstu fimmtíu til hundrað árin?

„Framtíðarsýnin er sú að ég vil að við séum öflugt matvælaland, við séum sjálfbær og séum með gott lambakjöt. Og ég vil alveg sjá fjallalamb eins mikið og skógarlamb í búðum. Og sennilega myndi ég kaupa skógarlambið. Ég held að ef að kolefnismálin nái einhverri samfélagslegri lendingu þá séum við á grænni grein.

Góður vinur minn sagði: „Besta leiðin til að rækta birki er að rækta fyrst lerki.“ Það er ótrúlega mikil speki þarna á bak við. Til þess að skýla og af því að lerkið er svo oft gróðursett í rýrt land. Þú getur gróðursett birki í rýrt land en það vex aldrei, það tórir bara. En með lerki glæðirðu landið lífi, og allt sem kemur undir lerkinu, mosinn, sveppurinn og barrið sem fellur til á hverju ári. Þá eru allt í einu komin svo góð skilyrði fyrir birki að það getur vaxið með lerkinu.

Ég vil að við séum að minnsta kosti sjálfbær í timburframleiðslu. Og það væri ekkert leiðinlegt að geta stutt við þá sem eru í neyð í kulda erlendis og sent þeim timbur.“

Áhrif loftslagsbreytinga

Hvaða trjátegundir myndir þú vilja leggja áherslu á hérlendis?

„Það eru deyjandi tegundir vegna loftslagsbreytinga í Ölpunum til dæmis. Eru aðstæður á Íslandi þannig í dag að við getum tekið þessar tegundir í fóstur og sinnt þeim með því hugarfari? Ekki að þetta sé besti gagnviðurinn, heldur erum við að þessu til þess að vernda og koma í veg fyrir útrýmingu. Það væri ein leið og ég veit að okkar helstu trjáræktarfræðingar eru með þetta í huga.

Með tilliti til loftslagsbreytinga, þá er gert ráð fyrir meiri öfgum í aðstæðum á Íslandi. Til þess að draga úr þessum öfgum, þá stillum við þeim í hóf með skógrækt. Hér hjaðna jöklar eftir því sem við förum inn í öldina. En í einhverjum tilfellum getur skógrækt stuðlað að því að þessir jöklar geta verið hér lengur. En það á ekki að gróðursetja bara til að gróðursetja. Heldur á að gróðursetja með einhvern tilgang. Og ef menn eru bara að gróðursetja til þess að fara í kolefnisbindingu, þá geta menn bara gróðursett afkastamestu trén. Og það mun ekkert endilega vera best fyrir fólkið, fyrir landslagið eða fyrir búpeninginn nema að fleiri þættir séu teknir með í dæmið. Þannig að við verðum að hugsa um fjölbreytni, fólkið og náttúruna. Því að ef að það verður uppskerubrestur af einni tegund, segjum sem svo ef kæmi barkarbjalla í miklum faraldri til Íslands, þá geta þær tegundir sem verða undir dáið út. Ef við erum bara með allt í mónókúltúr þá er engin tegund til að taka yfir ef slíkt gerist. Við verðum að hafa fjölbreytnina.“

En varðandi fjölbreytni lífríkisins á landinu, hefur trjáræktin áhrif á þann fjölbreytileika sem er til staðar, eins og fuglalíf?

„Þetta er náttúrlega inngrip í landið. En við erum bæði stórt og lítið land. Það er mjög langt í að aukin útbreiðsla skóga hafi neikvæð áhrif á fugla sem fyrir eru, ef það gerist þá nokkuð. Skógrækt eflir líffræðilega fjölbreytni. Við þurfum að hafa þetta skipulagt, ekki of ferkantað og ákveðna óreiðu. Ég vil sjá þetta sem fjölbreyttast. Við getum svo gert miklu meira með skógi. Tala nú ekki um eftir hundrað ár. Þá verður hér komin milljón manns á Íslandi.

Heldurðu að það sé tilviljun að Svíþjóð, Noregur og Finnland séu svona sterkar þjóðir? Það er fyrst og fremst trjáiðnaðurinn. Síðan í maí er búgreinadeild skógarbænda innan BÍ meðlimur í evrópsku skógarbændasamtökunum. Þar er skemmtilegt tækifæri til þess að fræðast og efla kynni.

Ég held það sé nokkuð til í ævintýri dýranna í Hálsaskógi. Það eru margir vinir í þessum skógi.“

Skylt efni: Skógrækt

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...