Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sólrún Þórðardóttir
Sólrún Þórðardóttir
Lesendarýni 15. október 2025

Skógarferð um Fljótshlíðina

Höfundur: Sólrún Þórðardóttir, sérfræðingur í skógrækt hjá BÍ.

Á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn tók starfsmaður Skóg-BÍ þátt í skógarferð um Fljótshlíðina á vegum Félags skógarbænda á Suðurlandi. Fjölbreyttur hópur skógarbænda, plöntufram leiðenda, kennara, nemenda og sérfræðinga frá Landi og skógi kom saman til að fræðast, miðla reynslu og efla tengsl.

Á leiðinni í Gunnarsholt rifjaði Björn Bjarndal upp fyrstu skref skógræktarverkefna á Íslandi fyrir um 30 árum, þegar hann og nokkrir aðrir áhugamenn um skógrækt hófu umræðu sem leiddi til stofnunar Suðurlandsskóga. Minnti hann á hversu langt skógarbændur hafa komið á þessum árum og mikilvægi þess að halda áfram að þróa greinina.

Við komuna í Gunnarsholt tók á móti hópnum hlýleg móttaka með kaffi og kleinum. Hrefna Jóhannesdóttir og Brynjar Skúlason kynntu starfsemi Lands og skógar og fjölluðu um stöðu mála eftir sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Hrefna greindi frá því að breytingarnar hefðu haft áhrif á verkefni og stuðning við skógarbændur. Fjármögnun væri áfram áskorun, og mikilvægt að Land og skógur og Bændasamtök Íslands vinni saman að því að tryggja framtíð skógræktar á Íslandi.

Brynjar, sviðsstjóri rannsókna, kynnti fjölmörg verkefni sem nú eru í gangi. Má þar nefna rannsóknir á plöntuframleiðslu og þróun aðferða til staðfestingar á kolefnisbindingu. Hann lagði áherslu á mikilvægi fjölbreytileika í plöntuklóm og að nýta nýjustu þekkingu til að hámarka árangur.

Í umræðum að kynningu lokinni kom fram áhugi á að efla skjólbeltaræktun. Slík ræktun er mest stunduð á Suðurlandi, en minna annars staðar á landinu. Þátttakendur voru sammála um að bæta þyrfti fræðslu, aðgengi að plöntum og búnaði, auk þess að hvetja til betri nýtingar á skjólbeltum.

Græn paradís í Múlakoti

Eftir heimsóknina í Gunnarsholti var haldið í Múlakot í Fljótshlíðinni þar sem Sigríður Hjartardóttir og Stefán Guðbergsson tóku á móti hópnum. Samson Harðarson, ráðgjafi hjá Landi og skógi, leiddi þátttakendur um fallega ræktaða garða þeirra hjóna, sem vöktu mikla athygli fyrir fjölbreyttan gróður og einstaka umhirðu. Mörgum fannst eins og þeir væru staddir í miðri Evrópu, umvafðir ilmandi trjám og litríkum plöntum.

Samson sýndi fjölbreytt úrval tegunda sem henta vel í bæði skjólbeltaræktun og skógrækt, meðal annars sýrenur, reyni og beyki. Að lokinni göngu var boðið upp á heita súpu og samveru áður en haldið var út á akur þar sem jólatrjáaræktun hjónanna vakti mikla athygli. Þar mátti sjá hvernig ungt greni barðist við grasið í uppvexti, sem er áþreifanleg áminning um þolinmæðina sem ræktun krefst og sérstaklega þá miklu umhirðu sem nauðsynleg er svo trén nái að vaxa og verða flott jólatré.

Sitkagreni og sjálfbær nýting á Tumastöðum

Næsta stopp var á Tumastöðum, þar sem Hrafn Óskarsson og Trausti Jóhannsson tóku á móti hópnum. Hrafn greindi frá starfseminni sem hefur dregist saman vegna fjárskorts, en minnti á mikilvægi þess að viðhalda og endurvekja áhuga á skógræktinni.

Trausti kynnti þátttakendum nytjaskógrækt með sitkagreni, sem reynst hefur einstaklega hagkvæmt. Það er hraðvaxið, sterkt og fjölnota, er það mjög hentugt í burðarvirki, hljóðfæri og jafnvel vindmyllublöð. Hann lagði áherslu á að rétt plöntun, grisjun og umhirða skipti sköpum fyrir gæði timbursins. Sitkagrenið sé veðurþolið og eitt mikilvægasta nytjatré landsins.

Skógarhljóð og framtíðarsýn á Uppsölum

Ferðin endaði á Uppsölum, þar sem Ísólfur Gylfi og Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir hafa byggt upp fallegt heimili og skógarland. Þau hafa áratugum saman lagt mikla vinnu í gróðursetningu og endurbyggingu gömlu húsanna þar. Í skógarrjóðri við bæinn tóku á móti gestum Hallur Björgvinsson og Helena Marta Stefánsdóttir frá Landi og skógi.

Hallur ræddi ábyrgð skógarbænda og mikilvægi skipulags og langtímaáætlana í ræktun. Hann hvatti skógarbændur til að hugsa um skóginn sem langtímaverkefni sem krefst umhyggju og þolinmæði, allt frá kortlagningu til grisjunar. Höfundur greinarinnar tekur undir það að samvinna og samstaða skógarbænda sé lykilatriði til að sigrast á þeim áskorunum sem skipulagsmál og fjármögnun er í dag.

Helena Marta sagði frá rannsóknum Lands og skógar á kolefnisbindingu og líffræðilegum fjölbreytileika. Rannsóknir sýna að ræktaðir skógar, sem ná nú yfir um fjórðung skógarlands á Íslandi, binda um 70% af allri kolefnisbindingu í skógum landsins. Þetta undirstrikar mikilvægi skógræktar í loftslagsmálum.

Hún greindi einnig frá nýju snjallforriti sem notað er til vöktunar á fuglalífi í íslenskum skógum. Forritið greinir fuglahljóð og skráir tegundir, sem hjálpar vísindamönnum að kortleggja fjölbreytni fuglalífs. Með þessu nýja verkfæri hafa meðal annars rjúpur, hrossagaukar og krossnefir verið skráðir víða í íslenskum skógum. Rannsóknir sýna að skógar veita mörgum fuglategundum skjól og vernd og stuðla að fjölbreyttu lífríki, í andstöðu við þá goðsögn að skógar geti dregið úr fuglalífi.

Samvinna og framtíð

Ferðin um Fljótshlíðina endurspeglaði áhuga, metnað og samstöðu þeirra sem vinna að skógrækt á Íslandi. Þrátt fyrir áskoranir í fjármálum og regluverki ríkir jákvæð sýn og sterk trú á framtíð greinarinnar.

Skógarbændur og ráðgjafar sem tóku þátt í deginum voru sammála um að nú sé rétti tíminn til að styrkja skógræktina og efla samstarf á milli stofnana og bænda. Skógrækt er ekki aðeins ræktun trjáa, hún er fjárfesting í loftslagi, líffræðilegri fjölbreytni og framtíð landsins.

Skylt efni: Skógrækt

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...