Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Skógarafurðir á aðventunni
Á faglegum nótum 8. desember 2022

Skógarafurðir á aðventunni

Höfundur: Jólasveinarnir í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.

Nú þegar aðventan eða jólafastan gengur í garð fara áhugasamir jólaunnendur að huga að því að skreyta hús sín og híbýli fallega fyrir jólin.

Þá er nú ekki úr vegi að muna eftir því að víðs vegar um landið hafa vaxið upp ljómandi fallegir skógar sem eru mikilvæg uppspretta margvíslegra afurða.

Augljósasta skógarafurðin fyrir jólin eru auðvitað jólatré. Algengasta jólatréð úr íslenskum skógum er stafafura, enda stendur hún vel og lengi innanhúss yfir jólin, heldur barrinu og gefur frá sér ferskan skógarilm sem er upplífgandi innan um ilm af heitu súkkulaði og jólasmákökum.

Aðrar lykiltegundir jólatrjáa úr íslenskum skógum eru blágreni og rauðgreni. Blágrenið með sitt fallega bláleita og mjúka barr hefur verið að sækja í sig veðrið sem jólatré enda er einkar þægilegt að hengja jólakúlurnar á greinarnar. Rauðgrenið er fínlegt og formfagurt jólatré og ilmar mikið en þarf aðeins meiri umhirðu þegar heim í stofu er komið til að tryggja að trén haldi vel barrinu.

Skógræktin og skógræktarfélög um land allt bjóða þessi fallegu tré til kaups en einnig bjóða þessir aðilar fólki að fara út í skóg með sög og saga sitt eigið tré. Svo virðist sem þessir aðilar séu með sérsamninga við jólasveinana því oftar en ekki láta þeir sjá sig hjá skógræktarfólkinu og jafnvel er boðið upp á kakó og piparkökur. Það er því frábær skemmtun fyrir unga sem aldna að fara að sækja sér sitt eigið íslenska jólatré úr skóginum. Best er að fylgjast vel með auglýsingum um það hvenær skógarnir eru opnir.

Torgtré og vinabæjatré

Sá skemmtilegi siður hefur verið haldinn í heiðri um áratugaskeið að vinabæir í nágrannalöndum okkar sendi íslenskum vinabæ sínum jólatré fyrir jólin. Oft voru þetta ákaflega stór og mikil tré og vöktu mikla aðdáun hérlendis. Nú er svo komið að flest þessi vinabæjartré eru ekki lengur flutt milli landa með ærinni fyrirhöfn og háu kolefnisspori heldur eru þau höggvin í íslenskum skógum, enda eru þeir löngu vaxnir úr grasi

Fjölbreyttar skógarafurðir

Ýmsar aðrar afurðir sem nýtast til skreytinga á aðventunni koma einnig úr skógunum okkar. Þar eru fyrstar á blaði sígrænar greinar til skreytinga og eru þar oftast ýmsar tegundir í boði. Greinarnar eru gjarnan notaðar í kransa, krossa á leiði og í ýmsar minni skreytingar. Viðarplattar eða sneiðar af margvíslegum trjátegundum eru einnig skemmtilegt skreytingaefni, ekki síst ef börkurinn er fallegur og nýtur sín sem hluti af skreytingunni. Tröpputré eru mjög skemmtilegt fyrirbæri en það eru lítil tré sem hafa verið hoggin og neðri endinn festur í viðarhnall þannig að þau standa stöðug á tröppunum utanhúss. Þau geta staðið heillengi og jafnvel hægt að skella á þau nokkrum páskafjöðrum fyrir páskana, ef vill. Ekki má gleyma könglunum en þeir eru ótrúlega fjölbreytt og fallegt náttúruskraut sem má nota í margvíslegum skreytingum, hvort heldur sem er náttúrulega brúna eða úða þá með fallegum jólalit eða jafnvel glimmeri. Fyrir þá sem hafa kamínu eða arin í stofunni heima við er nauðsynlegt að eiga góðan eldivið og að sjálfsögðu kemur hann líka úr skóginum.

Aðventan er tími tilhlökkunar og fjölskyldusamveru. Hluti af upplifun jólanna er að njóta þess að ganga út í skóg og upplifa vetrarfegurð skógarins og svo er tilvalið að flytja lítinn hluta af þessari upplifun heim í stofu, í formi jólatrés, arinelds og fallegra skreytinga.

Njótum aðventunnar, gleðileg jól!

Skylt efni: Garðyrkja

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...