Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Nýleg frístundahúsabyggð í Beitostølen, Jötunheimum í Suður-Noregi.
Nýleg frístundahúsabyggð í Beitostølen, Jötunheimum í Suður-Noregi.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 16. október 2024

Skipulagning frístundahúsabyggða á tímum náttúru- og loftslagskreppu

Höfundur: Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði við LbhÍ og Jin Xue, prófessor í skipulagsfræði við NMBU í Noregi.

Nýverið fór norræna skipulags rannsóknarráðstefnan PLANNORD fram á Íslandi, en um er að ræða stærsta viðburðinn á Norðurlöndum um skipulagsmál og miðlun rannsóknaafurða.

Á ráðstefnunni kemur saman fræðafólk við háskóladeildir í skipulagsfræði á Norðurlöndunum. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Skipulag í norrænu samhengi – tækifæri og áskoranir“ en tilgangur hennar var að fjalla um á hvaða hátt skipulag á Norðurlöndum stendur frammi fyrir sérstökum áskorunum tengdum staðbundnum aðstæðum eða hvort þær bjóði upp á tækifæri sem skoða ætti í auknum mæli til að mæta markmiðum um sjálfbæra og lífvænlega framtíð. Þessar staðbundnu aðstæður gætu varðað samfélag, menningu, réttarkerfi, skipulagsaðferðir, hnattræna stöðu, náttúrufar sem og byggt umhverfi.

Ógnvænleg þróun í Noregi

Eitt af umræðuefnunum varðaði frístundahúsabyggð og sjálfbærni svæða sem fara undir frístundahús, en Jin Xue, prófessor í skipulagsfræði við norska umhverfis- og lífvísindaháskólann (NMBU), leiddi málstofu um efnið og greindi frá mjög alvarlegum áskorunum sem Norðmenn standa frammi fyrir vegna ógnvænlegrar þróunar. En Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði við LbhÍ, hefur um árabil unnið með Jin að rannsóknum um frístundabyggð í Noregi. Þar sem málefnið hefur lítið verið rannsakað hérlendis, er mikilvægt að staldra við og velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að læra af Norðmönnum áður en í óefni er komið. Á Íslandi hefur nefnilega notkun frístundahúsa færst í vöxt og uppbygging verið hröð ekki síður en í Noregi.

Frístundahús eða sumarbústaðir hafa langa hefð á Norðurlöndunum. Í Noregi er litið á ferðir í sumarbústaði staðsetta uppi í fjöllum, í skógum og meðfram ströndum, sem órjúfanlegan hluta af þjóðerniskennd Norðmanna. Að hafa tækifæri til að upplifa og njóta náttúrunnar á meðan dvalið er í bústaðnum hefur djúpar menningarlegar rætur hjá Norðmönnum. Eftir nokkra áratugi í stöðugri uppbyggingu frístundahúsa þar sem þróunin hefur lítið verið gagnrýnd, eru komnar upp miklar deilur, aðallega vegna neikvæðra áhrifa sem ágeng þróun þeirra hefur haft á náttúru og loftslag. Bústaðir, sem áður voru taldir tákn um lífsstíl sem endurspeglaði ástríðu Norðmanna fyrir náttúrunni og frumstæðum lifnaðarháttum, eru í dag taldir ógna líffræðilegri fjölbreytni, aðlögunarhæfni búsetu og loftslagi.

Mikið land tekið undir frístundahúsabyggð

Í gegnum tíðina hefur hvorki skipulagsgerð á Norðurlöndunum né rannsóknir tengt frístundahúsum sýnt umhverfislegum afleiðingum þeirra sérstakan áhuga. Hins vegar hefur á síðustu árum verið lögð aukin áhersla á umhverfistengd málefni. Í Noregi hefur átt sér stað hröð uppbygging á fjallasvæðum inn til landsins, þar sem náttúra og vistkerfi eru oft viðkvæm. Smáskammtauppskipting lands fyrir byggingu frístundahúsa í Noregi hefur leitt til sundrungar búsvæða dýra, einkum villtra hreindýra. Hins vegar er raunverulegt landnám oft margfalt stærra en það sem húsið sjálft tekur, vegna mikillar landþarfar fyrir tengda innviði eins og vatn, rafmagn, fráveitu og vegi. Mikið af landinu sem breytt hefur verið í frístundahúsasvæði hefur verið tekið frá skóglendi og jafnvel votlendi, sem eykur einnig á loftslagsbreytingar.

Notkunin ekki síður orsök umhverfisvandamála

Notkun frístundahúsa er jafnmikil eða jafnvel meiri orsök umhverfisvandamála. Ferðir milli heimilis og frístundahúsa skapa stóran hluta bílaumferðar á helstu þjóðvegum milli borga og helstu frístundahúsasvæða um helgar og á frídögum.

Á Íslandi er staðan ekki ósvipuð frá höfuðborgarsvæðinu, og umferðarstíflur algengar bæði austur og norður. Auk þess veldur aukin notkun bústaða meiri staðbundinni umferð inn á friðlýst svæði, sem leiðir til ágangs á náttúrulegt umhverfi og raskar villtu dýralífi. Aukin orkunotkun vegna hás standards nútíma frístundahúsa skapar einnig þrýsting á staðbundna orkuinnviði.

Hlutverk skipulags í að stýra uppbyggingu

Í Noregi hefur samfélagsumræðan beint spjótum sínum að þessum umhverfsislegu áskorunum. Samfélagshópar í nokkrum sveitarfélögum með frístundahúsabyggð hafa mótmælt frekari uppbyggingu, ásamt umhverfissamtökum og rannsakendum. Pólitískur klofningur er orðinn mikill tengt málefnum frístundahúsa, bæði í sveitarfélögum og á landsvísu.

Í þessu samhengi snýst mikilvægur hluti umræðunnar um hlutverk skipulags í að stýra uppbyggingu í átt að umhverfislegri sjálfbærni. Stefnumótandi skipulag sem tekur til langtíma- og heildrænna markmiða býður upp á þann möguleika að tengja frístundahúsauppbyggingu víðtækari staðbundinni samfélagsþróun, með tilliti til bæði félagslegs og umhverfislegs þols. Staðarmótun (e. place-making) og stjórnun ferðamannastaða geta verið gagnleg hugtök og ákjósanleg nálgun fyrir sveitarfélög til að koma slíkri stefnumótun til framkvæmda. Landnotkunarskipulag getur á hinn bóginn staðsett og stjórnað uppbyggingu frístundahúsabyggða og dregið úr umfangi notkunar lands, orku- og auðlinda ásamt umferð. Fyrir utan deiliskipulag svæðanna sjálfra, þá getur svæðisskipulag stærri svæða verið heppilegra til að halda utan um verndun heildstæðra náttúrusvæða og til að forðast að þau verði smám saman skorin sundur í minni einingar.

Umræða nauðsynleg á Íslandi

Frístundahúsanotkun er einnig í örum vexti á Íslandi, en þeir bústaðir sem hafa verið byggðir síðustu áratugi hafa farið stækkandi og eru með aðstæðum sem gætu frekar talist til lúxuss frekar en naumhyggju. Álag á umferðarkerfi hefur aukist mikið og sama má eflaust segja um álagið á þjónustuframboð þeirra sveitarfélaga sem eiga í hlut. En engu að síður, þá hafa spurningar þar um fengið takmarkaða athygli hvorki frá rannsakendum, samfélagi eða stjórnmálamönnum. Skipulag sem getur verið bæði bölvun eða blessun umhverfisvandamála þarf að taka alvarlega.

Skylt efni: skipulagsmál

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f