Skagafjörður spennandi áfangastaður fyrir sælkera
Sælkeraferð var farin um Skagafjörð í lok októbermánaðar á vegum Slow Food á Íslandi.
Að sögn Þórhildar Maríu Jónsdóttur, sem situr í stjórn Slow Food-samtakanna, er Skagafjörður spennandi áfangastaður þegar kemur að matvælaframleiðslu og matarmenningu. „Því var kjörið að kynna það fyrir matgæðingum og áhugafólki um sjálfbæra matargerð,“ segir hún.
Þurrkaðir sveppir og sveppakrydd
Þórhildur segir að ferðin hafi verið skipulögð í samstarfi við Crisscross matarferðir, en hugmyndin hafi kviknað af löngun til að gera eitthvað skemmtilegt með félagsmönnum, en sjálf er hún búsett í Skagafirði og hefur átt í samstarfi við smáframleiðendur matvæla á Skagaströnd. „Við viljum hvetja fólk til að uppgötva það sem næsta nágrenni hefur upp á að bjóða,“ segir hún.
„Á laugardeginum hófst ferðin á sveitasetrinu Hofsstöðum þar sem fólk af höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Austur- og Vesturlandi var saman komið, reiðubúið að gæða sér á góðmeti Skagafjarðar.
Fyrsti viðkomustaðurinn var Hringversskógur í Hjaltadal, þar sem Anna Árnína og Brynleifur tóku á móti hópnum. Þau hafa frá árinu 2002 plantað yfir 400.000 trjám á 170 hektara svæði og framleiða meðal annars jólatré, staura, eldivið og spæni. Þau buðu upp á ilmandi sveppasúpu eldaða yfir opnum eldi og kynntu spennandi hliðarafurð skógræktarinnar, þurrkaða sveppi og sveppakrydd.
Næst var haldið að Hólum þar sem Bjórsetur Íslands, líklega minnsta brugghús landsins, var heimsótt. Bjarni Kristófer bruggmeistari bauð upp á smakk úr framleiðslunni, þar á meðal Skógarbjór sem var bruggaður utandyra við opinn eld eftir norskri hefð, afar áhugaverð og frumleg aðferð.“
Sprettur og æt blóm
Næst var haldið á Hofsós og segir Þórhildur að í gamla frystihúsinu hafi frumkvöðullinn Amber í Ísponica tekið á móti hópnum. „Hún ræktar sprettur og æt blóm í sjálfbæru hringrásarkerfi þar sem mjölormar eru nýttir sem fóður fyrir fiska og úrgangur þeirra notaður sem áburður í ræktunina.
Dagurinn endaði á Hofsstöðum þar sem hópurinn gisti í góðu yfirlæti. Guðný og Þórarinn matreiðslumaður fóru yfir sögu staðarins og buðu upp á sex rétta veislu með hráefni úr héraði; hross, rækjur, gellur, lamb, grænmeti og sveppir. Hver réttur öðrum betri og allt framreitt í fallegu umhverfi. Stórkostlegur matur og þjónusta,“ segir Þórhildur.
Lífræn ræktun og handverk á sunnudegi
Á sunnudeginum var haldið inn í Lýtingsstaðahrepp. „Fyrst var komið í Sölvanes þar sem Eydís og Máni, einu lífrænt vottuðu sauðfjárbændur landsins, tóku á móti hópnum. Þau sögðu frá sinni reynslu af lífrænni aðlögun – meðal annars þurftu þau að fækka fé til að uppfylla skilyrði um meira rými, en í staðinn hefur framlegð aukist þar sem þau selja alla framleiðslu sína beint og framleiða eigin lífrænar vörur. Þar var einnig Elínborg í Breiðargerði, sem ræktar lífrænt vottað grænmeti bæði úti og í köldum gróðurhúsum. Hún fullvinnur stóran hluta af ræktuninni og býr til dæmis til gulrótarchutney, rófuchutney og krydduð sölt úr berjum og jurtum og er komin með lífræna vottun á þær afurðir líka. Á sumrin og fram á haust er hægt að kaupa þessar vörur og grænmetið í söluskúr sem stendur við afleggjarann að Breiðargerði.
Einnig var komið við hjá Sigrúnu á Stórhóli, matar- og handverkskonu, og Rúnalist gallerí skoðað. Þar sameinast nýtni, sköpunarkraftur og sjálfbærni í töfrandi umhverfi. María á Starrastöðum, sem hélt utan um Beint frá býli-daginn í héraðinu síðasta sumar, tók á móti hópnum í nýopnaðri gestastofu sinni. María er þekkt fyrir rósaræktun sína og hefur þróað matvörur úr rósum, svo sem rósate, rósahlaup og rósasnafs.“
Í anda Slow Food Travel
Þórhildur segir að ferðinni hafi lokið í Héðinsminni hjá Auði Herdísi, sem hafi boðið upp á ljúffenga sjávarréttasúpu og þjóðlega lagtertu. „Auður Herdís framleiðir góðgæti undir merkinu Áskaffi og er vel þekkt fyrir sínar vörur og þjónustu. Auk þess vinnur hún, í samstarfi við Crisscross matarferðir, við þróun á skipulögðum ferðum um Skagafjörð í anda Slow Food Travel fyrir bæði íslenska og erlenda ferðamenn.
Ferðin þótti einstaklega vel heppnuð og þátttakendur fóru heim saddir og sælir eftir dásamlega dvöl í Skagafirði. „Það er ljóst að fleiri ferðir verða farnar og önnur svæði könnuð,“ segir Þórhildur að lokum og hvetur áhugasama til að fylgjast með og taka þátt í starfi samtakanna á slowfood.is.
