Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Skæður skaðvaldur greindist í kartöflum í Þykkvabænum
Fréttir 29. maí 2025

Skæður skaðvaldur greindist í kartöflum í Þykkvabænum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Kartöfluhnúðormur, sem er skæður skaðvaldur á kartöflum, hefur fundist í fyrsta skipti í Þykkvabænum. Smit getur lifað í jarðvegi í allt að 20 ár, jafnvel þótt engin kartöflurækt sé þar stunduð.

Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segist hafa fundið hnúðorminn eiginlega fyrir tilviljun, þegar hann var við sýnatökur í Þykkvabænum sl. haust – og í raun að leita að ummerkjum um annan skaðvald.

Leggst á rætur kartöfluplantna

Við frekari rannsóknir og greiningar var svo nýlega staðfest að um smit væri að ræða af kartöfluhnúðormi, í þremur sýnum úr þremur görðum frá einu kartöflubýli í Þykkvabænum – eftir að sýni voru send utan til að fá úr þessu skorið. Tekin voru sýni úr níu görðum í nágrenni við upphaflegan fundarstað.

Helgi segir vissulega fylgja þessum fréttum talsverður óróleiki, að þessi skaðvaldur finnist nú í fyrsta sinn á langstærsta kartöfluræktarsvæði Íslands. Þetta sé þráðormur sem leggst á rætur kartöfluplantna, með þeim afleiðingum að það dregur úr vexti og uppskera minnkar.

Margvíslegar smitleiðir

Hnúðormur greindist fyrst hér á landi sumarið 1953 og var hnúðormurinn algengur í heimilisgörðum um allt land, en hefur ekki greinst hjá kartöflubændum fyrr en nú. Helgi segir að hnúðormurinn sé ekki hættulegur mönnum eða dýrum, en sé talinn alvarlegur skaðvaldur í kartöfluræktun og reynt sé að útrýma honum um leið og hann finnst.

„Smit getur lifað í jarðvegi í allt að 20 ár. Hnúðormurinn smitast milli svæða með sýktu útsæði og með smituðum jarðvegi á vélum og tækjum. Smit magnast upp með tímanum ef kartöfluræktun er samfelld og landið getur smám saman orðið óhæft til kartöfluræktunar og þá í langan tíma.

Þótt það séu reglur og eftirlit með útsæðisframleiðslu á Íslandi, geta innfluttar matarkartöflur – og aðrar smitaðar kartöflur – borið smit í jarðveginn. Bannað er að selja útsæði ef hnúðormur greinist hjá ræktanda,“ segir hann.

Gæti orðið mjög alvarlegt

„Þetta greinist núna þegar leitað var að öðrum tegundum þráðorma hjá bændum í Þykkvabæ. Það er þörf á frekari greiningum á stærra svæði til að meta hvort smit er staðbundið eða leynist á fleiri stöðum. Flestir bændur eru hins vegar búnir að setja niður, þannig að sýnataka þjónar ekki tilgangi fyrr en í haust,“ segir Helgi enn fremur.

Hann segir að það sé Matvælastofnun og atvinnuvegaráðuneytið sem taki ákvörðun um viðbrögð við smitinu og mögulegar aðgerðir. „Ef þetta finnst víðar í haust er þetta orðið mjög alvarlegt. Því ef stórt landsvæði þarna verður dæmt ónothæft er ekki víst að það verði möguleikar á því að taka nýtt land undir kartöfluræktun af svipaðri stærðargráðu – bæði er það mjög dýrt og ekkert öruggt að það liggi á lausu. Einn möguleiki núna væri að eyðileggja það útsæði og kartöflur sem búið er að setja í þessa garða, en það yrði þá mikið tjón fyrir viðkomandi bónda og óljóst hvort það þjóni tilgangi þegar ekki er vitað hvort þetta leynist víðar á svæðinu.“

Þórhildur Ísberg, fagsviðsstjóri plöntuheilbrigðis hjá Matvælastofnun, segir að enn sé unnið að rannsókn málsins og ekki sé búið að ákveða til hvaða aðgerða verði gripið.