Skæð H5N5 greinist í refum
Fuglaflensa hefur nú greinst í refum við Keflavíkurflugvöll og á Þingeyri.
Skæð fuglainflúensa af gerðinni H5N5 sem greindist í fuglum á Norðvesturlandi í september sl. og í fuglum og spendýrum hérlendis síðasta vetur, hefur nú greinst í refum á Reykjanesi og á Þingeyri. Óvissustig er í gildi vegna aukinnar smithættu fyrir alifugla og aðra fugla í haldi frá villtum fuglum.
Skætt afbrigði fuglainflúensuveiru H5N5 greindist fyrst í spendýrum hérlendis síðastliðinn vetur í heimilisköttum, einum mink og einum ref, dreift víða um land. Þetta afbrigði hefur einnig greinst í villtum spendýrum í öðrum löndum á norðurhveli þar sem villtir fuglar hafa verið sýktir af sama afbrigði H5N5.
Matvælastofnun hvetur fuglaeigendur til að tryggja öflugar sóttvarnir til að draga úr líkum á að smit berist frá villtum fuglum í fuglahópa í haldi. Mikilvægt er að sýna aðgát og fylgjast með heilsufari fugla í haldi. Tilkynna skal tafarlaust til Matvælastofnunar ef grunur vaknar um óvenjuleg veikindi eða dauðsföll meðal fugla.
Almenningur er beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. Allar tilkynningar eru skráðar og eru aðgengilegar í mælaborði um fuglainflúensu, en þar má einnig finna upplýsingar um greiningar á fuglainflúensu í villtum fuglum og spendýrum.
