Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Eitt dýrasta hráefnið í erlendum stórmörkuðum eru þorskhnakkar, „hook and line caught in Iceland“.
Eitt dýrasta hráefnið í erlendum stórmörkuðum eru þorskhnakkar, „hook and line caught in Iceland“.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 23. nóvember 2023

Skaðræði kvótakerfisins

Höfundur: Kjartan Sveinsson, trillukarl og formaður Strandveiðifélags Íslands.

Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða er svohljóðandi: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Markmið laganna eru sem sagt þríþætt: í fyrsta lagi eiga þau að stuðla að verndun nytjastofna í íslenskri lögsögu; í öðru lagi eiga þau að tryggja hagkvæmustu nýtingu fiskistofna; og í þriðja lagi eiga þau að tryggja byggðafestu og atvinnumöguleika í sjávarþorpum og brothættum byggðum. Allt eru þetta háleit markmið og göfug, en hvernig hefur íslenskum stjórnvöldum tekist til að fara eftir eigin lögum?

1. Verndun nytjastofna

Fyrsti og mikilvægasti þátturinn (hinir tveir eru honum algjörlega háðir) er verndun nytjastofna. Á þessu sviði hefur kvótakerfið gjörsamlega brugðist.

Í besta falli hefur illa tekist til að vernda og byggja upp nytjastofna. Þrátt fyrir ítrekuð loforð yfir 40 ára tímabil um að þorskstofninn muni jafna sig og að ráðgjöf muni að lokum tvöfaldast, þá er sannleikurinn sá að aflamark þorsks er í dag 10% lægra en það var þegar kvótakerfinu var komið á 1984.

Í verstu tilvikunum hefur kvótakerfið hreinlega stuðlað að útrýmingarhættu. Humarveiðar eru nú bannaðar vegna þessa. Veiði á úthafsrækju hefur dregist saman um 90% frá 1994. Eftir að sandkoli var kvótasettur drógust veiðar á honum saman um 95%. Ráðgjöf í löngu hefur dregist saman um meira en 60% frá 2015 og 70% í keilu frá 2011. Þumalputtareglan virðist vera sú að þegar tegund er kvótasett hrynur stofninn.

Vistfræðilegur árangur af kvótakerfinu hefur því í besta falli verið minni en enginn og í versta falli stórskaðlegur. Það er ekki ein einasta fisktegund sem hefur náð sér almennilega á strik eftir kvótasetningu; flestar hafa hrunið. En hvað veldur? Svarið er flókið þar sem margir þættir fléttast saman, en í grunninn hefur kvótakerfið hyglt þeim sem valda mestum umhverfisskaða á kostnað umhverfisvænni veiða.

Rannsóknir hafa staðfest að þriðjungur þorsks, 24% ýsu og 10% ufsa fer stórskaddaður undir botntrollið þar sem þeir kremjast eða drepast. Eins hefur botntroll mikil áhrif á annað lífríki hafsins og þurrkar út hrygningarslóðir og uppeldisstöðvar fisks og skelfisks. Hafró – sem varla hefur tök á að meta stofnstærðir – horfir algjörlega framhjá skaðsemi togveiða.

2. Hagkvæm nýting fiskistofna

Sægreifarnir og talsmenn þeirra þreytast seint á að básúna hagkvæmni íslenskra fiskveiða, að öllu jöfnu án rökstuðnings eða sönnunargagna. Stórar fullyrðingar um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sé best og hagkvæmast í heimi eru látnar flakka án ábyrgðar. Ísland ku vera eina landið í Evrópu sem ekki greiðir með sjávarútvegi, en samt hefur enginn séð útreikningana sem sú staðhæfing byggir á.

Er það nokkur furða að 65% þjóðarinnar telja að íslenskur sjávarútvegur skapi verðmæti fyrir fáa og 68% telur hann spilltan, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ. Það gengur ekki til lengdar að slengja fram fullyrðingum án rökstuðnings og ætlast til þess að almenningur kokgleypi þær endalaust.

Eins er því látið ósvarað hvað átt er við með „hagkvæmni“. Yfirleitt eru kvótakóngarnir hér að vísa í eigin afkomu frekar en þjóðhagslega hagkvæmni. Eflaust er það rétt að margir útgerðarmenn græða bæði á tá og fingri, en stóra spurningin er hvort kvótakerfið sé heppilegasta kerfið til þess að hámarka ávinning fyrir íslensku þjóðina.

Fiskveiðiárið 2021/22 var meðalverð þorsks frá strandveiðum 337 kr/kg, en 271 kr/kg frá skuttogurum, munur upp á 24%. Þessi verðmunur endurspeglar það að krafan á alþjóðlegum mörkuðum um vistvænar og félagslega ábyrgar vörur verða æ háværari með hverju ári. Erlendir stórmarkaðir eru í auknum mæli farnir að merkja fiskinn sem þeir selja út frá veiðarfærum þar sem þorskur veiddur á krók er að öllu jöfnu verðmætari en sá sem veiddur er í troll. Það er erfitt að sjá hvernig það geti á nokkurn hátt verið þjóðhagslega hagkvæmara að fá lægra verð fyrir útflutningsvöru heldur en hærra.

3. Tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu

Áhrif kvótakerfisins á þriðja þáttinn – að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu – eru óumdeild. Frjálst framsal aflaheimilda hefur skilið eftir sig sviðna jörð um allt land. Sum byggðarlög, eins og Reykjavík, Vestmannaeyjar og Eyjafjörður, hafa vissulega notið góðs af flutningum aflaheimilda á milli landshluta.

Mun fleiri bæjarfélög hafa þó upplifað það að fótunum hafi verið kippt undan þeim. Blóðtakan úr brothættum byggðum hefur verið linnulaus. Seinasta dæmið, þar sem 30 störfum var fyrirvaralaust skóflað út úr Seyðisfirði, er eingöngu einn kafli í langri sögu refskákar sægreifanna. Á fundinum „Samtal um sjávarútveg“ sem SFS hélt 11. mars 2020 sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að það að treysta byggðir í landinu sé „í sjálfu sér ekki sjálfstætt markmið, og mér finnst það að vissu leyti ósanngjörn umræða þegar þannig er talað að það sé á ábyrgð atvinnugreinarinnar að treysta byggð í landinu“. Reynslan sýnir að kvótakóngunum þykir lítið til byggðasjónarmiða koma. Störf og afkoma einstaklinga eru lítið annað en peð á taflborði þeirra.

Lög sem ekki ná markmiðum sínum

Hvernig stendur á því að íslensk stjórnvöld þjösnast áfram með fiskveiðistjórnunarkerfi sem er ekki að ná markmiðum sínum? Hvernig getur það verið að niðurstaða Auðlindarinnar okkar, einnar stærstu og dýrustu nefndar í sögu íslenskrar stjórnsýslu, sé að viðhalda eigi aflamarkskerfinu á þeim forsendum að það hafi „aukið hagkvæmni og hagsæld“ og „dregið úr álagi á vistkerfið“ þegar hið gagnstæða blasir við?

Stóri skúrkurinn í þessu samhengi er frjálst framsal veiðiheimilda. Þó svo að úthlutun kvóta samkvæmt lögum mynda „ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“, þá virðast sægreifarnir líta á sameign þjóðarinnar sem sína einkaeign. Hugmyndin um að einkavæðing sé eini grunnurinn sem hægt sé að byggja fiskveiðistjórnunarkerfi á er orðin að ófrávíkjanlegri kreddu sem hefur hrakið allar aðrar nálganir burt. Kerfið er því orðið of einsleitt og of fáir útgerðarflokkar sem rúmast innan þess. Einhæfni í hugmyndafræði og hugsunarhætti hefur leitt af sér kerfislæga einsleitni, sem hefur aftur leitt til þess að þrengt hefur verulega að útgerðarflokkum sem rúmast illa innan kerfis sem hvetur til samþjöppunar og vinnur markvisst gegn vistvænum og félagslega ábyrgum veiðiaðferðum.

Eins þarf að klippa á naflastrenginn milli stjórnsýslunnar og sægreifanna. Sú ákvörðun stjórnvalda að skipa fyrrverandi forstjóra HB Granda í lykilhlutverk innan Auðlindarinnar okkar er aðeins eitt dæmi þess hve djúpt áhrif kvótakónganna teygja sig inn í ákvarðanatöku og opinbera stefnumótun. Afleiðingarnar eru þær að stjórnsýslan tekur ítrekað galnar ákvarðanir á borð við aflvísisfrumvarpið, þar sem togveiðiflotanum var gefið enn meira svigrúm til þess að skrapa hafsbotninn.

Sníkjulífi sægreifanna á íslensku þjóðinni og auðlind hennar er viðhaldið af kvótakerfinu í núverandi mynd. Það er löngu orðið tímabært að stokka upp. Framtíð hafs og þjóðar er í húfi.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f