Sjáið þið ekki veisluna, drengir?
Í júní 1522 bjóst Ögmundur Pálsson til að sigla aftur heim til Íslands frá Þrándheimi í Noregi eftir að hafa hlotið vígslu til biskups í Skálholti. Það hafði lengst nokkuð í dvölinni hjá honum. Hann fór út til Noregs sumarið 1520, en biskupshempan var ekki lögð honum á axlir fyrr en ári síðar og enn dvaldist hann ár hjá kórbræðrum í Niðarósi. Áður en hann héldi heim til stóls og embættis þurfti hann þó að bregða sér til Hjaltlands í stutta sendiför fyrir Ólaf Engelbrektsson, erkibiskup í Niðarósi, sem seinna hraktist í útlegð undan dönskum siðbótarmönnum og lést fjarri heimahögum. Ögmundur hékk þrjár vikur á Hjaltlandi, meðal vondra manna að eigin sögn, en tók svo kúrsinn norður. Stýrimaðurinn á skipinu var þýskur, ekki vanur Íslandssiglingum, og hann ruglaðist eitthvað í ríminu, missti hreinlega af landinu og sigldi fram hjá því. Fleyið stímdi norður í ballarhaf þar sem íshafsstormar buldu á því, óttinn óx um að skipverjar færust allir. Staðan var tæp. Að endingu náðu þeir landi en það land var Grænland og ekki frýnilegt á að líta. Allt fór þó vel að lokum. Skipið komst til hafnar í Selárdal við Arnarfjörð og enginn fórst.
Jungfrú María á Hofsstöðum
Ástæðuna fyrir þessari giftusamlegu björgun var að finna á Hofsstöðum í Viðvikursveit í Skagafirði. Þar í kirkjunni var líkneski af Maríu guðsmóður, „höfuðdrottningu Jungfrú Sanctae Mariae sem heiðrast og dýrkast á Hofsstöðum“, eins og segir í samtímaskýrslu um hafvillur Ögmundar biskups. Hét nú sérhver um borð að láta syngja lofmessu um óflekkaðan getnað heilagrar Maríu og senda mann norður til Hofsstaða með peningagjöf í því skyni. Auk þess lofaði Ögmundur biskup að hann skyldi láta smíða skipslíkan úr silfri sem yrði hengt upp í Hofsstaðakirkju ef það kraftaverk myndi gerast að þeir „fengju litið eitthvört kristið land“ á uppstigningardegi Maríu, 15. ágúst, – og það varð. Á Hofsstöðum voru fyrir hendi firnakraftar.
Hrossabóndinn
Í upphafi sjöunda áratugs síðustu aldar keypti Björn Runólfsson Hofsstaði og hóf þar búskap. Björn var ættaður úr nágrenninu, frá Dýrfinnustöðum í Akrahreppi, sonur ábúenda þar, Runólfs Jónssonar og Maríu Jóhannesdóttur, fæddur árið 1919. Sigurjón, bróðir Björns, bjó svo síðar á Dýrfinnustöðum en á Hjarðarhaga, næsta bæ þar við, bjó þriðji bróðirinn, Pálmi, þannig að Björn átti góða að í nánd við sig.
Björn var eingöngu með hross. Hann reif gamla torfbæinn á Hofsstöðum sem öldum saman stóð sunnan við kirkjuna og byggði hesthús úr viðunum. Seinna reisti hann íbúðarhús nokkuð sunnar og neðan við gamla bæjarstæðið, niður við þjóðveginn, og stefndi að því lengi að þar risi einnig söluskáli fyrir bensín og veitingar.
Björn var margfróður, hagmæltur, orðheppinn og vel lesinn. Hann kom undir sig fótunum með jarðýtuútgerð sem hann og bræður hans stunduðu um langt skeið, unnu við jarðarbætur á bæjum og svo við vegagerð. Þannig eignaðist hann jörðina og fleytti sér áfram. Hann fór að engu óðslega við bústörfin.
Líkt og margir hrossaræktendur fór Björn ekki oft á bak en var þeim mun magnaðri í að sjá fyrir sér það sem ekki enn var orðið í svip hrossa, skapferli þeirra og byggingu. Núna geta menn raunar látið tölfræði og erfðavísindi vinna verkin fyrir sig. En Björn var ekki upp á sitt besta á þeirri öld, heldur á því skeiði þegar töfrar seldu hesta. Hann vissi af innsæi hvernig halda ætti fallegum hryssum undir góða klára og þekkti hvernig ættirnar röktu sig áfram sinn genetíska veg. Það sem þó gerði útslagið í sölutækninni var ekki hæfileikinn til að ryðja upp úr sér byggingardómum og ættbókarnúmerum, heldur alls konar uppákomur sem Björn spann upp sér til skemmtunar og öðrum til gleði.
Hæst ber þar það sem Björn kallaði paról. Björn hélt oft paról fyrir væntanlega hrossakaupendur og sagði þá fólki að koma heim því þar væri „ógurleg veisla“. Parólið var í sjálfu sér ekki alveg fast í skorðum, formið var aðeins frjálst, en nokkrir meginþættir komu þar við sögu, til að mynda tónlistarflutningur Björns á fótstigið orgel þar sem leikin voru gömlu „fjárlögin“, söngvarnir úr hinu gríðarvinsæla nótnahefti Íslenskt söngvasafn þar sem fagur kindahópur í grasi vaxinni hlíð skreytti kápuna, málaður af Ríkarði Jónssyni. Björn setti fjárbókina fyrir framan sig á statífið og hóf svo leikinn og þar sem alltaf voru einhverjir í hópi gesta sem kunnu inn á þetta hófu þeir óðar söng og fylgdu orgelinu. Á parólum bauð Björn upp á veitingar, bæði fljótandi og fastar, en einbúinn var svo sem enginn forkur í eldhúsinu þannig að ekki þurfti að búast við steikum þótt ekki vantaði vínið.
Hrunfrasinn
Á kræklóttum leiðum rötuðu paról Björns á Hofsstöðum inn í þjóðarsöguna. Eftir gríðaruppgang í íslensku efnahagslífi upp úr aldamótum kom skyndilega afturkippur í eilítilli smákreppu sem plagaði bankakerfið árið 2006. Í kjölfar hennar heyrðust varnaðarorð frá greiningaraðilum utanlands um óhóflega skuldsetningu íslensku bankanna og komu þau mál til umræðu á Alþingi í mars 2007. Þáverandi fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, tók hraustlega á móti á þinginu, sagði ástandið síður en svo slæmt og bætti við: „Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“ Óhætt er að segja að þessi orð hafi orðið fleyg. Þau eru enn notuð þegar undirstrika á bilið milli veruleika og óskhyggju í efnahagsmálum. Björn lifði raunar ekki alla þá sögu því hann lést vorið 2007.
Sjáið þið ekki veisluna?
Árni kannaðist vel við Björn á Hofsstöðum og þekkti til parólanna. Hvort hann sjálfur var á staðnum þegar Björn eitt sinn sló upp veislu er ekki fyllilega á hreinu en í það minnsta var meira af fólki þar en vanalega sem ekki þekkti til hirðsiða Hofsstaðabónda. Þetta var eftir hrossaréttir í Laufskálarétt í Hjaltadal þar sem Björn átti upprekstur og hafði hann staðið í dilki og sagt aðkomumönnum að á Hofsstöðum væri „ógurleg veisla“. Sáu fyrirmennin úr höfuðstaðnum því fyrir sér svignandi borð og urðu aðeins langleitir þegar þeir komu á staðinn og ekkert beið nema landi og Frónkex. Höfðu menn orð á því að eitthvað skorti upp á mikilfengleik hinnar „ógurlegu veislu“. Sveiflaði þá Hofsstaðabóndinn höndinni fislétt en ákveðið yfir flöskur og beinakex og sagði með þjósti: „Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!“
Fyrst heilög Hofsstaða-María gat bjargað biskupi og ringluðum Þjóðverja úr sjávarvoða gat Björn á Hofsstöðum allt eins búið til dýrindis veislu úr Frónkexi, örlítið bleyttu í vínanda.
