Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Það óhapp varð nýverið í Reykholtsdal að 16 kýr drápust úr gasmengun frá haughúsi. Tryggingar bæta skaðann að mestu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Það óhapp varð nýverið í Reykholtsdal að 16 kýr drápust úr gasmengun frá haughúsi. Tryggingar bæta skaðann að mestu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Mynd / bbl
Fréttir 14. ágúst 2025

Sextán kýr í valinn vegna eitrunar úr haughúsi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Sextán mjólkurkýr í fjósi drápust úr gaseitrun þegar hrært var upp í mykju í haughúsinu undir þeim í lok júlí.

Bóndinn í Ásgarði í Reykholtsdal var á síðasta degi júlímánaðar að hræra upp í haughúsi undir fjósinu á bænum til að dæla mykjunni upp og bera á völlinn. Í frétt í Skessuhorni er haft eftir bóndanum, Magnúsi Eggertssyni, að þetta hafi hann gert hvert sumar um langa hríð, en þó aldrei áður svo seint í júlí, en heitt var í veðri þennan dag og vind hafði lægt.

Reyndi að draga úr eituráhrifum

Eftir um eins og hálfs tíma vinnu niðri í haughúsinu, þar sem hann hafði í og með auga með kúnum, hafi hann orðið var við að fimmtán kýr voru lagstar og hafi þær drepist úr gasi sem reis upp af mykjunni þegar hrært var í henni. Hann segir kýrnar hafa verið úti á túni um morguninn en verið komnar í fjós þegar þetta var enda sé þar mjaltaþjónn sem þær hafi getað gengið í eftir þörfum.

„Fyrstu viðbrögð voru þau að drepa strax á traktornum svo hætti að hrærast í mykjunni, opna allar gáttir og kalla eftir aðstoð annars heimilisfólks. Undir engum kringumstæðum má fara inn í gripahús þegar svona gerist. Ég gríp þá vatnsslöngu og byrja að sprauta kröftugri bunu inn á gólfið til að freista þess að súrefnið í vatninu dragi úr eituráhrifunum. Þegar þarna er komið geri ég mér strax grein fyrir því að kýrnar voru að drepast,“ sagði Magnús í samtali við Skessuhorn.

Góð loftun lykilatriði

Fimmtán kýr drápust strax vegna brennisteinsvetnismengunar úr mykjuhaugnum, og sú sextánda daginn eftir. Í fjósinu voru 60 kýr og þar af 56 þeirra mjólkandi.

Í svipuðu tilviki sem varð fyrir áratug í Bláskógabyggð hrundi nyt úr kúm sem orðið höfðu fyrir gasmengun en lifað af.

Ekki er einsdæmi að óhapp af þessu tagi gerist og hefur gas úr haughúsum, þá metan og brennisteinsvetni, einnig reynst mönnum skeinuhætt og þeir veikst af því. Mikilvægt er að loftun sé trygg við upphræru svo ekki skapist hættulegar aðstæður af þessu tagi fyrir menn og dýr.

Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur sagði í samtali við Bændablaðið eftir tilvikið í Bláskógabyggð árið 2014 að brennisteinsvetni sé það sem framkallar skítalyktina, svo töluð væri góð íslenska. Það sé eitt versta eitur sem til er en sem betur fer lykti það illa og menn finni því fyrir því. Sé það hins vegar komið yfir ákveðið magn eða styrk þá hætti menn að finna lyktina.

„Það sem gerist er að menn fara að hræra upp, eru vanir lyktinni og svo hætta þeir að finna hana. Skepnur eru alveg eins. Kýr geta því fengið eitrun og það þarf ekki mikið til. Ef styrkur brennisteinsvetnis í loftinu nær 0,05 prósentum þá steinliggja bæði skepnur og menn. Ef ekki er loftræst duglega þá tekur ekki langan tíma þar til þetta magn leiðir til dauða,“ sagði Friðrik.

Hann varaði við því að bændur væru einir við að hræra upp í haughúsum sínum og hvatti til notkunar gasgríma sem síi brennisteinsvetnið út.

Skylt efni: hauggas

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...