Sauðir og hafrar á Íslandsmóti
Briddssveitin sem bar sigur úr býtum í undankeppni Íslandsmótsins í sveitakeppni, sem fór fram skömmu fyrir páska, ber ljóðrænt nafn og sækir sér innblástur í höfundarverk Steins Steinar.
Briddssveitin nefnist Tíminn og vatnið og hana skipa Jón Ingþórsson, Hlynur Garðarsson, Stefán Jóhannsson, Ómar Olgeirsson, Guðmundur Snorrason og Kjartan Ásmundsson. Sveit Grant Thornton varð í öðru sæti og InfoCapital í þriðja sæti. 12 sveitir komust áfram í úrslit sem verða spiluð síðar. Var mótið allt hið skemmtilegasta og fór vel fram.
Í spili dagsins fór eitt sterkasta kvennapar illa með umsjónarmann Briddsþáttarins, sem gekk hnípinn og stigafár frá bardaganum. Þar munaði miklu um handbragð Hörpu Foldar Ingadóttur sem spilar við Maríu Haraldsdóttur Bender. Harpa virtist sjá yfir holt og hæðir þegar kom að því að landa vonlausum 3 hjörtum dobluðum.
Sagnir verða ekki tíundaðar af tillitssemi við lesendur!
En austur, vesalingurinn ég, spilaði út spaðadrottningu.
Harpa drap og spilaði laufi á gosann sem átti slaginn. Hún spilaði næst smáu hjarta að heiman, sauðurinn á vinstri hönd setti smátt og Harpa lét áttuna! Sem átti slaginn. En ekki var allt búið. Hún spilaði trompdrottningu og laufi aftur heim. Þá tígultíu. Dúkkað. En Harpa rauk upp með ás og 530 í húsi þar sem nú voru níu slagir öruggir. Hellingur af impum. Eitt núll fyrir stelpurnar sem sýndu og sönnuðu hvað aðgreinir sauðina frá höfrunum.

