Salmonella í nautgripum 2025
Salmonellusýking í nautgripum er sjaldgæf á Íslandi. Síðast kom sjúkdómurinn upp á kúabúi árið 2009. Í ár hefur sjúkdómurinn verið staðfestur á tveimur kúabúum.
Salmonellusýking er svokölluð súna, sem þýðir að hún getur smitast milli manna og dýra. Um er að ræða bakteríusýkingu með Salmonella spp sem getur sýkt flestar dýrategundir og menn og er því áhyggjuefni vegna lýðheilsu. Klínískt getur sýking verið allt frá því að um sé að ræða einkennalausa smitbera, veika einstaklinga með niðurgang, hita og fleiri einkenni og til sjúklinga með krónískar þarmabólgur og/eða blóðsýkingu.
Sjúkdómsgreining fæst með ræktun á bakteríunni, yfirleitt úr saursýnum. Sýklalyf og stuðningsmeðferð er nauðsynleg fyrir sjúklinga með mikil einkenni en notkun sýklalyfja er umdeild þar sem talið er að notkun þeirra getið aukið líkurnar á að sjúklingur beri salmonellusmit í lengri tíma.
Salmonella eru gram neikvæðar, stafbakteríur sem tilheyra hópi Enterobacteriaceae. Smit með salmonellu getur valdið sýkingu í mörgum tegundum hryggdýra. Algengasta smitformið eru einkennalausir smitberar, þar sem smituð dýr bera sýkilinn í mislangan tíma án þess að sýkjast og sýna klínísk einkenni. Útskilnaður á salmonella-bakteríum í saur slíkra dýra er sveiflukenndur, þ.e. stundum eru bakteríur til staðar í saurnum og stundum ekki. Þessi sveiflukenndi útskilnaður veldur því að ekki er hægt að treysta á eina neikvæða niðurstöðu úr grip á smituðu búi, heldur verður að endurtaka sýnatökuna úr sama gripnum. Til þess að hægt sé að lýsa smitað bú salmonellufrítt þarf að fá neikvæða niðurstöðu úr öllum sýnum úr hæfilega stóru hlutfalli gripanna í tveimur sýnatökum þar sem sýnatökur eru endurteknar með 30 daga millibili.
Ef smitið veldur sjúkdómi er oftast um tvær sjúkdómsmyndir að ræða; annars vegar blóðsýkingu og hins vegar þarmasýkingu. Einkenni sjúkdóms geta verið mismunandi, en þau helstu eru hiti, minnkuð átlyst, lækkun í nyt, blóðugur og/ eða vatnskenndur illa lyktandi niðurgangur og í einhverjum tilfellum fósturlát. Sjúkdómurinn leiðir fullorðin dýr sjaldan til dauða, en getur valdið auknum ungdýradauða. Dauðsföll án þess að einkenni sjúkdómsins hafi komið fram þekkjast og er þá yfirleitt um blóðsýkingu að ræða.
Nokkur mismunandi afbrigði af Salmonellu geta verið sjúkdómsvaldandi. Algengast er að viss afbrigði séu bundin við ákveðna hýsla en það er ekki algilt. T.d. S. Enterica, bæði Typhi og Paratyphi, valda þarmasýkingum meðal manna, S. Gallinarum veldur svipuðum sjúkdómi í hænsnfuglum og S. Abortusovis veldur klínískum einkennum í sauðfé, S. Cholerasuis í svínum og S. Dublin í nautgripum. Aðrar S. Enterica sermisgerðir valda sjaldan klínískum einkennum í heilbrigðum, fullorðnum gripum, sem ekki eru með fangi. Hins vegar geta þær sest að í þörmum margra tegunda, komist í fæðukeðjuna og valdið matareitrun hjá fólki. S. Typhimurium og S. Enteritidis eru algengustu salmonellutýpurnar sem valda þarmasýkingum (matareitrunum) í fólki.
Sú tegund Salmonellu sem um ræðir á þessum tveimur kúabúum sem nú eru sýkt er S. Typhimurium. Hvernig sýkillinn barst inn á upprunabúið hefur ekki verið staðfest enn, en faraldsfræðileg rannsókn er í gangi. Dreifing á salmonellusmiti meðal húsdýra getur orsakast af m.a. kaupum á einkennalausum smitberum, kaupum á smituðu fóðri eða húsdýraáburði, aðgangi fugla eða nagdýra að fóðri eða með smituðu fólki, landbúnaðarvélum og fatnaði/skófatnaði fólks.
Lifitími bakteríunnar í umhverfi getur verið mislangur, hún lifir einna lengst í köldu röku umhverfi. Hún getur lifað í mánuði í slíku umhverfi en lifitíminn er styttri við þurrar aðstæður allt niður í <1 vika. Meðgöngutími sýkingar er yfirleitt 1–3 dagar, en getur verið breytilegur, allt frá 6 klst. upp í 10 daga.
Salmonellusýking í nautgripum er alvarlegt mál sem getur haft töluverðar fjárhagslegar afleiðingar fyrir þau bú þar sem slík sýking kemur upp. Matvælastofnun gefur fyrirmæli um ráðstafanir til að hindra smitdreifingu frá búinu. Þær fela meðal annars í sér að almennt flutningsbann er sett á viðkomandi bæ þannig að flutningar á dýrum og afurðum til og frá bænum eru háðir leyfi héraðsdýralæknis, sérstök skilyrði gilda varðandi umgengni í fjósi, bæði heimamanna og utanaðkomandi þjónustuaðila og svo framvegis. Eingöngu má flytja mjólk frá búinu til gerilsneyðingar og vinnslu í mjólkurstöð og slátrun er háð leyfi héraðsdýralæknis og skilyrðum sem hann setur þar um.
Útskilnaður á salmonellu í saur frá smituðum einstaklingi er sveiflukenndur þannig að neikvæðar niðurstöður úr ræktun eru ekki endilega trygging fyrir því að viðkomandi gripur sé laus við sýkingu. Endurtaka þarf sýnatökur á 30 daga fresti úr marktækum fjölda gripa í fjósinu til þess að ganga úr skugga um stöðu sýkingarinnar í fjósinu og áður en að útskrift kemur þurfa að liggja fyrir tvær neikvæðar niðurstöður úr öllum sýnum úr tveimur sýnatökum sem framkvæmdar eru með 30 daga millibili. Það má því vera ljóst að það að komast fyrir salmonellusýkingu í nautgripum er langtímaverkefni sem í flestum tilfellum tekur mánuði.
Mjög mikilvægt er að hafa eftirfarandi atriði í huga til þess að varast smit:
- Ef keyptir eru gripir inn á bú, hvort heldur sem er fullorðnir gripir eða smákálfar er ráðlagt að einangra þá frá öðrum gripum fyrstu vikuna eftir að þeir koma á búið og fylgjast vel með heilsufari þeirra.
- Seljanda gripa er skylt að útvega heilsufarsvottorð fyrir gripina frá sínum dýralækni eða héraðsdýralækni.
- Ekki má flytja notuð landbúnaðartæki sem hugsanlega eru menguð af jarðvegi/skít yfir varnarlínur. Sækja þarf um leyfi til að flytja landbúnaðartæki yfir varnarlínur til Matvælastofnunar (héraðsdýralæknis). Tæki skulu þrifin og sótthreinsuð áður en farið er með þau yfir varnalínur. Alltaf skal þrífa vel notuð landbúnaðartæki áður en þau eru flutt á milli bæja, jafnvel þó að það sé innan sama varnarhólfs.
- Við þrif á húsum og tækjum er rétt að nota lágþrýsting þar sem úði frá háþrýstiþvotti getur dreift bakteríum.
Ávallt ber að hafa ákvæði reglugerðar 527/2017 um velferð dýra í flutningi í huga við alla flutninga. Þar segir meðal annars í viðauka II.1.
- Ekki má flytja kálfa yngri en 10 daga nema því aðeins að um skamma vegalengd sé að ræða (undir 100 km) og tryggt sé að þeir geti lagst og hafi viðeigandi undirburð.
- Ekki má flytja nýfædda kálfa þar sem naflastrengur er ógróinn.
- Ekki má flytja fengnar kýr/kvígur sem gengnar eru 90% eða meira af meðgöngutímanum eða kýr/ kvígur sem hafa borið innan 5 daga.
Munið að bændur eru ávallt ábyrgir fyrir smitvörnum á sínu búi: Bóndi, ver þitt bú!
